Kínverska tennisstjarnan Peng Shuai segir að færsla hennar á samfélagsmiðlinum Weibo þar sem hún sakar fyrrverandi varaforseta Kína um að hafa þvingað hana til kynmaka byggja á „gríðarlegum misskilningi“. Í viðtali við franska fjölmiðilinn L'Equipe segist hún aldrei hafa haldið því fram að hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi.
Þetta er í fyrsta sinn sem Peng veitir fjölmiðli utan Kína viðtal, að undanskildu dagblaði í Singapore, frá því að færslan birtist í nóvember. Viðtalið fór þó fram undir sérstökum kringumstæðum og líkir fréttaritari BBC í Kína viðtalinu við áróðursæfingu, sem skilji eftir fleiri spurningar en svör.
Hvarf sporlaust en dró svo ásakanirnar til baka
Mál Peng er hið furðulegasta. Í nóvember í fyrra birti hún ítarlega 1.600 orða færslu á samfélagsmiðlinum Weibo þar sem hún lýsti því hvernig Zhang Gaoli, fyrrverandi varaforseti Kína, þvingaði hana til kynmaka árið 2018.
Færslan var fjarlægð um tuttugu mínútum eftir að hún birtist og ekkert heyrðist frá Peng sem virtist hafa horfið sporlaust. Kínversk yfirvöld vildu ekkert tjá sig um málið en alþjóðlegar tennisstjörnur líkt og Naomi Osaka, Serena Williams og Novak Djokovic kröfðust svara. Steve Simon, famkvæmdastjóri Samtaka kvenna í tennis (WTA), lýsti yfir áhyggjum vegna málsins og sagðist óttast um öryggi Peng.
Um tveimur vikum eftir að færslan birtist á Weibo birti ríkisfjölmiðillinn CGTN tölvupóst sem Peng sendi Simon. Þar segir að hún sé örugg og að ásakanirnar sem birtust á Weibo séu ekki sannar. Fjórum dögum seinna, 21. nóvember, birtust myndskeið af Peng, annars vegar á veitingastað og hins vegar á tennismóti barna, en trúverðugleiki þeirra var dreginn í efa, ekki síst þar sem þau voru birt af Hu Xijin, ritstjóra Global Times, ríkisrekins fjölmiðils.
Í desember sagði Peng í viðtali við blaðamann frá Singapore að hún hefði alltaf verið frjáls ferða sinna. „Af hverju ætti einhver að fylgjast með mér?“ sagði hún í viðtalinu.
Formaður kínversku ólympíunefndarinnar þýddi svör Peng
Fyrir viðtalið við L'Equipe var þess krafist að spurningum yrði skilað inn fyrirfram. Viðtalið sjálft fór fram á vetrarólympíuleikunum sem standa yfir þessa dagana í Peking og var fulltrúi kínversku Ólympíunefndarinnar viðstaddur og sá hann einnig um að þýða öll svör Peng.
Í viðtalinu segist Peng lifa eðlilegu lífi, nokkuð sem kínversk stjórnvöld hafa fullyrt áður. Peng þakkaði einnig öllum þeim sem hafa hugsað til hennar en sagðist á sama tíma ekki skilja hvaðan áhyggjurnar koma. „Mig langar að vita: Af hverju allar þessar áhyggjur? Ég sagði aldrei að einhver hefði misnotað mig kynferðislega,“ sagði hún í samtali við blaðamann L'Equipe.
Peng, sem er 36 ára, gaf einnig til kynna í viðtalinu að tennisferli hennar væri brátt að ljúka. „Með tilliti til aldurs míns, fjölda aðgerða og heimsfaraldursins sem hefur neytt mig til að hætta að spila svona lengi tel ég að það verði mjög erfitt fyrir mig að ná aftur líkamlegum styrk,“ sagði Peng.
Varðandi færsluna á Weibo segir Peng að hún hafi valdið „gríðarlegum misskilningi“ utan Kína. Sagðist hún hafa eytt færslunni sjálf af því að hana langaði til þess en útskýrði ekki frekar á hverju misskilningurinn var byggður að hennar mati.
Aðkoma kínversku ólympíunefndarinnar að viðtalinu vekur sérstaka athygli þar sem formaður hennar, Thomas Bach, var með þeim fyrstu fullyrti að Peng væri óhult eftir að færslan var fjarlægð að Weibo en hann átti myndsímtal við Peng í nóvember. Trúverðugleiki Bach og nefndarinnar hefur verið dreginn í efa, ekki síst í aðdraganda vetrarólympíuleikanna og hefur nefndin verið sökuð um að hunsa mannréttindabrot af hálfu kínverskra stjórnvalda.
Vilja ræða við Peng án aðkomu stjórnvalda
Samtök kvenna í tennis hafa barist fyrir því að fá upplýsingar um velferð Peng frá því að færslan birtist og aflýstu til að mynda öllum fyrirhuguðum viðburðum og keppnum samtakanna í Kína í mótmælaskyni.
Í yfirlýsingu sem samtökin sendu frá sér í gær segir að viðtalið í L'Equipe hafi ekki gert neitt til að draga úr efasemdum samtakanna um velferð Peng. Steve Simon, framkvæmdastjóri samtakanna, hefur óskað eftir að samtökin fái að hitta Peng, í einrúmi, til að ræða stöðu hennar.