Því verður seint haldið fram að árið hefjist á sérstaklega jákvæðum nótum þegar litið er á efnahagskerfi Norðurlanda. Það er ótímabært að segja að kreppa sé yfirvofandi en fréttir vikunnar benda hins vegar til þess að næstu mánuðir skipti sköpum varðandi þróun efnahagsmála á Norðurlöndum næstu árin. Stóra vandamálið sem stjórnmálamenn og forsvarsmenn seðlabanka standa frammi fyrir er að þeir hafa lítil áhrif á tvo þætti sem skipta gríðarlega miklu máli; orkuverð og efnahagsþróun á evrusvæðinu.
Lækkandi olíuverð hefur margvísleg áhrif
Olíuverð hefur lækkað um tæpan helming frá síðast sumri og því hefur verið spáð að næstu tvö ár muni það ekki fara mikið upp fyrir 60 dollara á tunnu. Til samanburðar kostaði tunnan yfir 100 dollara síðasta sumar. Áhrifin af lækkuninni eru mest í Noregi en samkvæmt útreikningum gætu tekjur norska ríkisins lækkað um 84 milljarða norskra króna árið 2015 sem eru um 6,5 prósent af tekjum norska ríkisins. Til samanburðar voru beinar áætlaðar tekjur ríkisins af olíuiðnaðinum 344 milljarðar norskra króna árið 2014. Þetta er hins vegar aðeins hluti áhrifanna því samdráttur í fjárfestingum skiptir gríðarlegu máli. Samkvæmt fréttum frá því í desember höfðu um 7000 manns misst vinnuna og tekjur Statoil á fjórða ársfjórðungi lækkuðu um 80 prósent frá sama tímabili 2013.
Eldar Saetre, forstjóri Statoil, ávarpar blaðamenn þungur á brún á blaðamannafundi 6. febrúar síðastliðinn.
Á föstudagsmorgun tilkynntu forsvarsmenn Statoil hins vegar að framkvæmdir við nýjan borpall myndu hefjast fljótlega og að hann muni framleiða olíu í hálfa öld frá árinu 2019. Johan Sverdrup borpallurinn mun skila um það bil 1350 milljörðum norskra króna í tekjur og þar af gæti um helmingurinn runnið beint til norska ríkisins. Það sem skiptir hins vegar sköpum er að borpallurinn skilar arði þar til að olíuverð lækkar niður fyrir 38 dollara á tunnuna og gert er ráð fyrir að um fimmtíu þúsund störf geti skapast. Norska hagstofan gerir engu að síður ráð fyrir því að Noregur sé á leið inn í skammlífa efnahagslægð þar sem minnkandi fjárfesting og einkaneysla hafi mest áhrif. Hins vegar hefur verið bent á að veiking norsku krónunnar gæti hjálpað til skemmri tíma því það hjálpi öðrum útflutningsgreinum sem lengi hafi staðið í skugganum af olíuiðnaðinum. Fjármálaráðherrann Siv Jensen segir að ríkisstjórnin hafi þegar brugðist við stöðunni með því að leggja aukið fé í rannsóknir og þróun með það að marki að bæta nýsköpun í landinu.
Þeir ríkustu þurfa að borga fyrir að geyma peninga í banka
Danska hagkerfið er í niðursveiflu en í janúar mældist verðhjöðnun í fyrsta sinn í rúm 60 ár. Vísitala neysluverð lækkaði um 0,1% frá því í janúar í fyrra sem að miklu leyti má rekja til lækkandi olíverðs. Ef olíuverð er tekið úr vísitölunni er því enn vægur vöxtur í Danmörku og reyndar á evrusvæðinu öllu. Sérfræðingar benda á að ef ástandið vari áfram megi gera ráð fyrir að neytendur haldi að sér höndum og bíði með útgjöld í þeirri von um að hlutir lækki í verði. Hins vegar geti það allt eins gerst að fólk auki neysluna þar sem að talsverðar upphæðir sparist með lægra olíuverði. Verðhjöðnun til skemmri tíma geti því einmitt verið jákvæð fyrir danskt efnahagslíf.
Samdrátturinn hefur meðal annars haft þau áhrif að stýrivextir í Danmörku eru -0,75%. Danski Seðlabankinn tilkynnti á föstudag að hann hyggðist ekki lækka þá meira eins og flestir bjuggust við en vextirnir hafa mikil áhrif á bankastarfsemi í landinu. Danske Bank tilkynnti í síðustu viku að ríkustu kúnnarnir þurfi nú að greiða bankanum fyrir að geyma peninga fyrir þá. Ákvörðunin gildir reyndar ekki um reikninga einstaklinga.
Nú velta líklega margir fyrir sér hvers vegna bankarnir taki þessa ákvörðun. Hún snýst einfaldlega um það að græða peninga en í núverandi vaxtaumhverfi er ekki sjálfgefið að bankarnir græði á útlánum. Sem dæmi má nefna að í síðustu viku tilkynnti Realkredit að vextir á nýjum húsnæðislánum væru -0,4% sem þýðir einfaldlega að viðskiptavinir fá borgað fyrir að fá lánaða peninga. Þessar fréttir koma í kjölfarið á því að Dönum stóð til boða að taka húsnæðislán til 30 ára með föstum 2% vöxtum.
Mynd tekin á verslunargötunni Strikinu í Kaupmannahöfn. Blikur eru á lofti í efnahagsmálum Dana.
Skandinavísku krónurnar viðkvæmar
Þeir sem fylgjast með gjaldeyrismörkuðum hafa væntanlega tekið eftir töluverðum lækkunum á skandinavísku gjaldmiðlunum undanfarnar vikur. Skýringarnar eru margvíslegar en miðað við hversu lágir vextirnir þykir mörgum undarlegt að erlendir fjárfestar haldi áfram að kaupa þessar krónur. Í Danmörku nema þessi viðskipti hátt í 200 milljörðum danskra króna það sem af er ári og svo virðist vera sem stöðutaka gegn dönsku krónunni þyki ekki hafa mikla áhættu í för með sér. Talið er að bandarískir vogunarsjóðir eigi nú meira en 10 þúsund milljarða danskra króna.
Svíar hafa einnig áhyggjur af þróuninni og í síðustu viku lækkaði sænski Seðlabankinn stýrivexti niður í -0,1%. Þeir hafa aldrei áður verið neikvæðir í Svíþjóð. Ástæðan er að flestu leyti sú sama og í Danmörku, Seðlabankinn vill fá einkaneyslu í gang og ná verðbólgunni upp í 2%. Kannanir sýna hins vegar að á markaði hafa mjög fáir trú á því að þetta markmið náist næstu fimm árin.
Almenningur í Svíþjóð finnur mjög rækilega fyrir ástandinu á húsnæðismarkaðinum því bæði er mjög ódýrt að fá lán en á sama tíma hefur húsnæðisverð hækkað óheyrilega. Síðustu 12 mánuði hefur húsnæðisverð hækkað um 9% í landinu öllu en breytingin er mjög misjöfn eftir svæðum. Sem dæmi má nefna að í janúar nam meðaltals fermetra verð á íbúð 500 þúsund íslenskum krónum í Svíþjóð en á sama tíma var meðaltalsverð tæpar 1,2 milljónir íslenskra í Stokkhólmi. Í miðborginni er verðið enn hærra og sem dæmi má nefna þessa 42 fermetra íbúð sem er sett á 55 milljónir en má gera ráð fyrir að seljist á nokkuð hærra verði.
Stokkhólmur. Gríðarlega hátt fermetraverð í höfuðborginni veldur áhyggjum.
Óvissa framundan
Mjög erfitt er að spá fyrir um þróun efnahagsmála á Norðurlöndum því óvissuþættirnir eru margir. Fari olíuverð hækkandi og taki evrusvæðið við sér er nokkuð bjart framundan. Útflutningur fer að lang mestu leyti til ESB-landanna og því mikilvægt að markaðir þar taki við sér. Þá skiptir gríðarlegu máli að innviðir á Norðurlöndum eru sterkir og þau því ágætlega í stakk búin til að mæta tímabundnum kreppum. Framundan eru áhugaverðir tímar og ljóst að þeir sem fara með stjórn efnahagsmála þurfa að halda vel á spöðunum. Sporin sem mörkuð eru nú geta haft langvarandi áhrif á Norðurlöndin.