Viðskipti með svokallaðar stöðugleikamyntir (e. Stablecoins) hafa verið að sækja í sig veðrið á alþjóðavísu á síðustu árum, en stjórnvöld í bæði Bandaríkjunum og Evrópu hafa sagt að skýrari lagarammi í kringum þau sé nauðsynlegur. Samkvæmt Seðlabankanum er ekki til staðar neitt fjárhagslegt eftirlit með rafmyntum hérlendis þessa stundina, en lögfræðingur hjá Monerium segir að lönd geti byggt regluverkið í kringum stöðugleikamyntir á núverandi löggjöf um rafeyri.
Þörf á regluverki
Í byrjun mánaðarins skilaði starfshópur Joe Biden Bandaríkjaforseta frá sér skýrslu þar sem mælt var með því að skýrari lagarammi ætti að vera í kringum starfsemi með svokölluðum stöðugleikamyntum, sem sé ein tegund rafmynta.
Rafmyntirnar sem starfshópurinn vildi búa til betra regulverk í kringum eru gefnar út í skiptum fyrir peninga og er ætla að endurspelga verðgildi þjóðargjaldmiðla t.d. Bandaríkjadal. Samkvæmt umfjöllun miðilsins Coindesk um málið hefur oft verið vafamál um það hversu vel myntirnar hafa náð að endurspegla virði gjaldmiðlanna, en viðskipti með þær hafa stóraukist á síðustu tveimur árum.
Samkvæmt starfshópnum er mikilvægt að búa til skýrar leikreglur fyrir þessa nýjung í fjármálastarfsemi. „Ég held að það sé sameiginlegur skilningur um að þörf sé á regluverki sem sé ekki of íþyngjandi, veiti vernd og hjálpi þessari nýjungu að þróast,“ sagði Nellie Liang, aðstoðarráðherra innanlandsfjármála í fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna í viðtali við Coindesk.
MiCA
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur einnig sýnt þessari tegund af rafmyntum áhuga, en hún lagði fram tillögu um sérstaka reglugerð um sýndareignir í september í fyrra. Tillagan, sem ber skammstöfunina MiCA, hefur ekki enn verið samþykkt af Evrópuþingu, en hún er til skoðunar í sérstakri nefnd innan þingsins þessa stundina.
Samkvæmt Jóni Gunnari Ólafssyni, lögfræðingi hjá íslenska rafeyrisfyrirtækinu Monerium, er einn tilgangur MiCA sá að tryggja að viðskipti með stöðugleikamyntir falli undir núverandi regluverk sem gildir um rafeyri í Evrópu.
Rafeyrislöggjöfin góður grundvöllur
Rafeyrir (e-money) er gjaldeyrir sem geymdur er á rafrænu formi. Þetta er ekki það sama og rafmyntir (e. cryptocurrency), sem gætu ekki haldið verðgildi gjaldeyris án þess að tryggja sig með varasjóð eða öðrum leiðum.
Jón Gunnar segir viðskipti með rafeyri í Evrópu heyra undir 20 ára gamalli löggjöf, sem Monerium starfar einnig undir, en fyrirtækið öðlaðist starfsleyfi á þeim grundvelli árið 2019. Hann sé þeirrar skoðunar að ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins ættu að nota þessa löggjöf sem fyrirmynd við lagasetningu þegar setja á útgefendum stöðugleikamynta leikreglur, þar sem hún tryggi neytendum góða vernd og sé ekki of íþyngjandi.
Han bætir við að fyrirhuguð MiCA-reglugerð muni ekki hafa nein fyrirséð áhrif á starfsemi Monerium, þar sem félagið hafi nú þegar öðlast starfsleyfi sem rafeyrisfyrirtæki. Hún gæti hins vegar haft áhrif á starfsemi kauphalla og rafrænna veskja. Einnig gæti hún auðveldað þjónustuveitendum sýndarfjár sem fengið hafa starfsleyfi á grundvelli reglugerðarinnar í sínu heimaríki að bjóða uppá þjónustu á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.
Ekkert fjárhagslegt eftirlit með rafmyntum
Kjarninn sendi fyrirspurn á Fjármálaeftirlit Seðlabankans um hvernig eftirlit með rafmyntum væri háttað hérlendis. Samkvæmt svari bankans gilda engar sérstakar reglur um rafmyntir á Íslandi, nema að þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti með þær þurfi að skrá sig hjá Fjármálaeftirliti Seðlabankans vegna laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þrátt fyrir þessa skráningarskyldu er ekkert fjárhagslegt eftirlit með slíkri þjónustu né eftirlit með neytendavernd.