Er dagskrá „vindorkuvettvangsferðar“ Grænvangs til Danmerkur var kynnt síðsumars kom fram að vindmylluframleiðandi yrði með innlegg. Í uppfærðri dagskrá ferðarinnar, sem 37 fulltrúar íslensks atvinnulífs, hagsmunasamtaka og sveitarfélaga hafa staðfest þátttöku í, er þann lið ekki lengur að finna.
Skýringin er sú, segir Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs, að vindtúrbínuframleiðandinn Vestas getur ekki sent fulltrúa til fundar við íslensku sendinefndina sökum anna. „Ástæðan fyrir að dagskráin hefur breyst er einmitt það álag sem hefur skapast í Danmörku í ljósi aðstæðna í Evrópu og orkukrísunnar. Það hefur því verið svolítið púsl á lokametrum að koma dagskránni heim og saman með tilliti til þátttakenda úti sökum anna og ófyrirsjáanlegra aðstæðna.“
Hún segir upplegg vettvangsferðarinnar eftir sem háður hið sama: „Hvað getum við lært af reynslu og þekkingu Dana við hagnýtingu vindorku og þá er sérstök áhersla á hvernig samstarfi í þeim málum hefur verið háttað milli ólíkra haghafa.“
Vettvangs- og fræðsluferðin verður farin um Jótland og Samsø dagana 24.-27. október. Í henni “gefst þátttakendum færi á heimsækja sveitarfélög, fyrirtæki, hagsmunasamtök í ferðamálum og nátturuvernd og aðra hagaðila sem komið hafa að hagnýtingu vindorku á svæðinu,“ sagði í boðsbréfi Grænvangs. „Dagskránni er ætlað að varpa ljósi á helstu tækifæri og áskoranir og hvernig stjórnvöld, danskt atvinnulíf, hagsmunasamtök og aðrir haghafar hafa nálgast sitt samstarf við hagnýtingu vindorku á farsælan máta. [...] Þetta er mikilvægt umræðuefni hér á landi og eins og sjá má á dagskránni gefst þarna spennandi tækifæri til að ræða við alla lykilaðila um þeirra reynslu.“
Grænar lausnir
Áður en lengra er haldið skal útskýrt hvað Grænvangur er.
„Grænvangur er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir,“ segir á heimasíðu hans. Þar kemur enn fremur fram að hlutverk Grænvangs sé að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og styðja við markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, er stjórnarformaður Grænvangs.
Í september var sent út fréttabréf Grænvangs þar sem vakin var athygli á „vindorkuvettvangsferð til Danmerkur“ og áskrifendum boðið að skrá sig til þátttöku. Að auki var fulltrúum sveitarstjórna sérstaklega boðið að taka þátt. Og það var gagnrýnt. Sveitarstjórnir um allt land standa nú frammi fyrir þrýstingi frá fyrirtækjum sem vilja reisa þar vindorkuver. Tugir slíkra vera eru á teikniborðinu, misjafnlega á veg komin hvað varðar skipulagsmál og umhverfismat. Vilji fyrirtækjanna stendur til að reisa þau á heiðum, á fjöllum og í dalbotnum og íbúar í grennd við þessa staði upplifa sig varnarlausa og vanmáttuga, líkt og Kjarninn hefur rakið síðustu misseri í fjölda frétta og fréttaskýringa. Sveitarstjórnir hafa sumar hverjar gefið út að engar ákvarðanir verði teknar um hvort slík ver verði byggð innan þeirra marka fyrr en stefna stjórnvalda á landsvísu verður skýr. Vinna við þá stefnumótun er hafin og stefnir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á að leggja fram frumvarp um vindnýtinguna á vorþingi.
Aðeins eitt sveitarfélag, Dalabyggð, hefur þegar samþykkt aðalskipulagsbreytingar vegna áformaðra vindorkuvera.
„Við í sveitarstjórn Borgarbyggðar fengum boð í ferðina til Danmerkur. Ég sá bara einhliða samtal,“ sagði Thelma Harðardóttir, oddviti Vinstri grænna í Borgarbyggð, á fundi um vindorkunýtingu sem fram fór í Borgarnesi nýverið. „Og það að flytja sveitarstjórnarfulltrúa úr landi til þess að kynna afstöðu einhverra sem eru fylgjandi þessu í útlöndum fannst mér mjög skrítið og ég afþakkaði boðið.“
Bjarni Jónsson, þingmaður VG, sagði á fundinum að fólk þyrfti að vera á varðbergi gagnvart boðsferðum. „Það þarf að gæta sín á þessu, hvort sem það eru alþingismenn eða sveitarstjórnarfulltrúar.“
Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður VG, sagði á þessum sama fundi að hann hefði heyrt í einum sveitarstjórnarfulltrúa sem fékk boð. Sá var gagnrýninn á það en Orri sagðist hafa bent honum á að mögulega væri hægt að hafa áhrif á dagskrána „svo að þið hittið fólk sem er ekki endilega sammála þessu“.
„Þetta“ sem Orri vísaði þarna til, eru vindorkuver. Virkjanir sem þekkst hafa í henni flatlendu Danmörku í áratugi en hafa ekki enn numið land á Íslandi ef frá eru taldar tvær vindtúrbínur sem risu (og féllu) í Þykkvabæ, og tvær sem Landsvirkjun reisti fyrir nokkrum árum í Hafinu ofan Búrfells í tilraunaskyni.
Svona framleiða Danir rafmagn
Um helmingur af öllu rafmagni sem notað var í Danmörku árið 2019 var framleitt með vindorku. Um tíu prósent var framleitt með kolum og um sex prósent með gasi.
Það segir sig sjálft að í landi þar sem hæsta fjallið, Himmelbjerget, er 147 metrar er lítið hægt að framleiða úr vatnsorku. Það er fallhæðin sem skiptir þar mestu og auðvitað vatnsforðabúrið. Og jarðvarmi er hverfandi í Danaveldi.
Svona framleiða Íslendingar rafmagn
Vatnsforðabúrið og fallhæðina er hins vegar að finna á Íslandi. Fjöldi áa hefur verið virkjaður á síðustu áratugum og síðustu ár hafa jarðvarmavirkjanir risið hver af annarri. Um 69 prósent af öllu rafmagni sem notað er hér á landi er framleitt í vatnsaflsvirkjunum og um 30 prósent í jarðvarmavirkjunum. Árið 2020 mátti rekja 0,03 prósent raforkuframleiðslunnar til vindtúrbína Landsvirkjunar í Hafinu.
99,98 prósent alls rafmagns hér á landi er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum eins og það hefur lengi verið kallað – „grænni orku“ eins og nú er í tísku er að segja.
Sérfræðingar á sínu sviði
Danmörk tengist orkukerfi Evrópu og flytur yfirleitt inn meira af rafmagni en flutt er út. Innflutningurinn er aðallega frá Noregi og Svíþjóð, af orku sem framleidd er í vatnsaflsvirkjunum (og kjarnorku reyndar Svíþjóðarmegin). Um 80 prósent af rafmagni sem Danir nota á uppruna sinn úr endurnýjanlegum orkugjöfum.
Danir eru sannarlega sérfræðingar á sviði vindorku. Þeir hófu að beisla hana í stórum stíl á áttunda áratug síðustu aldar og eru enn meðal þeirra þjóða heims sem framleiða mest af rafmagni úr vindi á hvern íbúa. Segja má að vindurinn sé þeirra helsta orkuauðlind þegar kemur að hinni umtöluðu „grænu orku“ á meðan fjölbreytnin er mun meiri á Íslandi, landinu sem státar af bæði jarðvirkni og jöklum sem byggja ásamt verkviti undir þau lífsgæði sem við þekkjum í dag.
Og svo eru það Norðmenn
Noregur hefur sannarlega nýtt vatnsaflið í gegnum tíðina og síðustu ár einnig vindinn. Þar er enda landslagið líkara því íslenska og veðráttan sömuleiðis. Það sama hefur svo gerst í Noregi og er farið að gerast hér: Fólk í dreifðari byggðum, þar sem vindorkuver hafa verið sett upp eða til stendur að setja þau upp, hefur mótmælt harðlega hinum risastóru vélum sem, vindtúrbínur eru orðnar.
Því er ekki úr vegi að spyrja Grænvang hvers vegna vettvangsferðinni var ekki frekar heitið til Noregs, þar sem líkindin við Ísland er á margan hátt mikil?
Hin konunglegu áhrif
„Ferðin er skipulögð að frumkvæði State of Green,“ bendir Nótt, forstöðumaður Grænvangs á en State of Green er sambærilegt fyrirbæri og Grænvangur.
Nótt bendir auk þess á að Danir hafi fengist við hagnýtingu vindorku um áratuga skeið. „Ferðin miðar að því að miðla og deila þessari reynslu Dana til Íslendinga,“ segir hún. Hugmyndin að henni á sér hins vegar konunglegar rætur því hún spratt í kjölfar opinberrar heimsóknar Friðriks krónprins hingað til lands á síðasta ári. „Það er auðvitað alltaf matsatriði að hversu miklu leyti aðstæður í Danmörku svipa til okkar,“ segir Nótt, „en við höfum einmitt fengið ábendingar um Noreg í aðdraganda ferðarinnar.“
Grænvangur mun sjálfur senda tvo fulltrúa til Danmerkur og sá útlagði kostnaður sem hlýst felst því fyrst og fremst í ferðakostnaði starfsmanna, segir Nótt. Þátttakendur greiða hins vegar flug og ferðakostnað sem hlýst af ferðinni sjálfir.
Spurð hvort á dagskrá ferðarinnar sé að fá sjónarmið fólks sem gagnrýnir vindorkuver í nágrenni sínu svarar Nótt því játandi. „The Danish Society of Nature Conservation, stærstu náttúrverndar- og umhverfissamtök Danmerkur, taka þátt í dagskránni en dagskráin miðar að því að ná fram breiðu sjónarhorni um hagnýtingu vindorku út frá þeim ólíkum þáttum og áskorunum sem kunna að vera frá sjónarhornum ólíkra aðila sem hafa komið að hagnýtingu vindorku í Danmörku.“
Á vef Náttúruverndarsamtaka Danmerkur segir: „Vindmyllur búa til loftslagsvæna orku úr vindinum.“ Í sömu grein er bent á að með vindorku megi framleiða orku fyrir samfélagið án þess að auka á loftslagsvandann. „Við höfum mikinn vind í Danmörku og hann skulum við nýta. Vindorka er nefnilega ein af þeim orkuuppsprettum sem hafa minnst áhrif á loftslagið. Samtímis er vindur viðvarandi orkuauðlind sem ekki tæmist.“
Áhersla samtakanna er m.a. á að samráð sé haft við íbúa þar sem byggja á vindorkuver og að gætt sé að því að lágmarka umhverfisáhrif þeirra en í grunninn mæla þau með virkjun vindsins, líkt og útskýrt er hér að framan, enda notkun kola, olíu og jarðgass í Danmörku enn töluverð. Að hætta notkun jarðefnaeldsneytis til að draga úr loftslagsbreytingum er enda mikið forgangsmál í Danmörku eins og mjög víða þar sem það er notað í stórum stíl.
Eru vindtúrbínur og líffræðileg fjölbreytni andstæðir pólar eða geta þau þrifist í sátt og samlyndi? Þetta er ein þeirra spurninga sem varpað er fram í kynningarefni State of Green vegna ferðarinnar. „Til að fá svörin skaltu slást í för með okkur til hins aðlaðandi ferðamannastaðar, vestanverðrar Danmerkur. Við munum hitta leiðandi danska hagsmunaaðila innan vindorkugeirans og náttúruverndarinnar sem deila reynslu sinni af því að vinna saman að hinum grænu orkuskiptum.“