Rúmir þrír sólarhringar eru síðan Rússland hóf allsherjarinnrás í Úkraínu. Enn hefur Rússum ekki tekist að ná valdi á neinum af helstu borgum Úkraínu, utan næststærstu borgar landsins, Kharkiv, um stund. Það varði þó ekki lengi og tilkynnti héraðsstjóri Kharkiv að borgin væri komin aftur undir stjórn Úkraínu um hádegisbil í dag. Það má því segja að Úkraínu hafi tekist ágætlega að veita nágranna sínum viðspyrnu þrátt fyrir að þeim hafi verið veitt takmörkuð aðstoð úr vestri, sérstaklega framan af. Boðað hefur verið til samningaviðræðna rússneskra og úkraínskra stjórnvalda á Pripyat-ána á landamærum Úkraínu og Hvíta-Rússlands.
Hvaða viðurlögum hefur verið beitt
Allar helstu ríkisstjórnir Evrópu lýstu yfir stuðningi við Úkraínu í orði daginn sem innrás Rússlands hófst, en hægar hefur gengið að ná samstöðu um þær aðgerðir sem alþjóðasamfélagið, og sérstaklega Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið, myndu beita gegn Rússum, sem brutu alþjóðalög með innrás sinni. Það var loks í gærkvöldi sem tilkynnt var að lokað yrði fyrir notkun helstu banka Rússlands á alþjóðlega fjármálakerfinu SWIFT, sem nánast allar alþjóðlegar millifærslur fara í gegnum og er vonast til þess að það dragi verulega úr getu Rússlands til þess að halda hernaðaraðgerðum af þessari stærðargráðu áfram. Lengi vel voru það Þjóðverjar sem stóðu í vegi fyrir þessari ákvörðun, en Þýskaland reiðir sig verulega á jarðgas frá Rússlandi. Stefnubreyting varð hins vegar í gærkvöldi þegar Þjóðverjar samþykktu að lokað yrði á aðgang rússneskra banka að SWIFT-fjármálakerfinu, auk þess sem þeir skuldbundu sig til þess að senda verulegt magn hergagna til Úkraínu.
Aðrar aðgerðir sem gripið hefur verið til í tilraun til þess að draga úr sóknargetu Rússlands felast aðallega í ýmis konar viðskiptaþvingunum, sem er sérstaklega beint gegn Vladimír Pútín Rússlandsforseta og þeirra sem næst honum standa, en slíkt hefur raunar viðgengist síðan Rússland hernam Krímskaga árið 2014. Þá hefur nokkur fjöldi landa þegar lokað lofthelgi sinni fyrir flugvélum skráðum í Rússlandi, þeirra á meðal Ísland, og er von á að samstillt átak Evrópusambandsins í þeim efnum verði kynnt fyrr en síðar. Þá hefur Ísland, samstíga bandalagsþjóðum sínum, afnumið sérstaka einfaldari meðferð vegabréfsáritana fyrir rússneskra diplómata, viðskiptafólk, þingmenn og fulltrúa stjórnvalda.
Betur má ef duga skal
Óljóst þykir hvort viðskiptaþvinganir dugi til þess að draga úr Pútín, sem mun hafa verið nokkuð ljóst að alþjóðasamfélagið myndi ekki bregðast vel við innrás hans í Úkraínu, og þykir einhverjum Vesturveldin skilja Úkraínu eina eftir til að verja framgang Rússlands inn í Evrópu. Rússlandsforseta virðist þó í öllu falli þykja þvingunaraðgerðir hafa gengið nægilega langt, en hann fyrirskipaði fyrr í dag að kjarnorkuvopn rússneska heraflans yrðu sett í viðbragðsstöðu. Er það nokkurn veginn í samræmi við það sem hann hótaði við upphaf innrásarinnar, þar sem hann sagði hvern þann sem myndi hafa hernaðarleg afskipti af innrás hans mega búast við áður óséðum afleiðingum.
Segja má að ástandið vegna innrásar Rússlands í Úkraínu sé eldfimt, en ljóst er að betur má ef duga skal að stöðva framför Rússlands. Vonast er til þess að samningaviðræðurnar sem loks eru komnar á dagskrá, eftir að Úkraína neitaði að þær færu fram í Hvíta-Rússlandi, sem hefur aðstoðað Rússland í innrásinni, beri árangur og veiti svigrúm til þess að draga megi úr spennustiginu.