Það hefur ekki verið leiðinlegt að vera Íslendingur síðustu dagana. Stórir kallar frá útlöndum hafa heimsótt okkur og þar á meðal sjálfur David Cameron, sem gaf öllum fjölmiðlum landsins færi á að rifja upp heimsókn annars stórs kalls frá útlöndum, sjálfs Winstons Churchill með sinn úttuggna vindlastubb. Já, við erum merkileg því merkilegt fólk vill heimsækja okkur.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var í beinni bæði á RÚV og Stöð 2 um hvernig hefði nú verið að hitta Cameron, enda David merkilegur kall, sjálfur guðfaðirinn.
Eitt af því sem kom út úr umræddi heimsókn var starfshópur um sæstreng á milli Íslands og Bretlands. Þessari hugmynd hefur reglulega skotið upp kollinum undanfarið, t.a.m. hélt Kjarninn málþing um málið, og hún hefur heillað ýmsa. Og vissulega er það blautur draumur þeirra sem vilja virkja að þurfa ekkert að spá í viðtakanda orkunnar heldur geta bara stungið í samband við Bretland og dælt orkunni þangað, eins og Duracell-kanína á yfirsnúningi.
Freistandi? Já, vissulega. En það er nú einmitt málið, freistingin. Stjórnmálamenn og viðskiptajöfrar hafa ekki endilega sýnt sig vera þeir sem ráða hvað best við freistingar. Eða höldum við að ríkisstjórn sem þyrfti að hífa aðeins upp fylgið, til dæmis í Norðausturkjördæmi ef ættaróðal forsætisráðherrans væri nú þar, nú eða bara á landsvísu, væri ekki til í að skella í eins og eina virkjun og plögga hana í framlengingarsnúruna til Bretlands? Ekkert væl um mengandi stóriðju, bara gleði og gróði, virkjun og meiri virkjun.
Því hvaðan á orkan að koma? Ekki er annað að skilja á Landsvirkjun og Jóni Gunnarssyni, formanni atvinnuveganefndar Alþingis, en að ekki sé til næg orka á landinu nú þegar. Hvaða orku á þá að flytja út? Væntanlega þá sem kemur úr nýju virkjununum því ef við höldum að fjárfesting af þeirri stærðargráðu sem sæstrengur er verði ekki fullnýtt, þá er það mikill misskilningur. Trauðla verður það þannig að við dælum okkar varaafli þangað á okurprís, nei við munum reyna að fylla sæstrenginn af orku og til þess þarf virkjanir.
Ein af röksemdum þeirra sem hvað hæst tala fyrir sæstrengi er að hann muni hækka orkuverð til stóriðjunnar hér heima. Okkur muni takast að tefla stóru fyrirtækjunum saman og ná sem hagstæðasta verðinu. Fínt plan, en sporin hræða pínulítið, ekki síst þar sem ekki er svo langt um liðið frá því að Íslendingar ætluðu að sýna Evrópu og umheiminum hvernig ætti að reka bisness. Það þýðir ekki að við getum það ekki, en við mættum kannski fara inn í verkefnið - ef af verður - af meiri auðmýkt og minni gorgeir og fullvissu um að við séum klókari en umheimurinn í viðskiptum. Það einfaldar málið þó kannski að vera með Bretum í þessu samkrulli, okkur hefur áður tekist að sýna þeim fram á að við vitum allt betur en þeir þegar kemur að rekstri banka.
Sæstrengur til Bretlands kostar skrilljónir. Ég játa að ég veit ekki nákvæmlega hve margar skrilljónir, en þær eru margar. Og fjárfesting upp á skrilljónir kallar á arð, eðlilega. Og nú vonumst við til þess að Bretar borgi brúsann. Þá vaknar hins vegar upp sú spurning hvað þeir ætlist til að fá í staðinn? Hversu mikið af orku þarf Ísland að skuldbinda sig til að dæla í gegnum sæstrenginn til að Cameron kvitti upp á tékkann? Og ef við ætlum að borga hann sjálf, hvað þýðir það í krónum og aurum, afborgunum og vöxtum, skuldbindingum?
En hversu klókt er það að vera bara batterí fyrir Evrópu? Að nýta orkuna ekki múkk hér heima, senda hana ómengaða úr landi. Það er hráefnisútflutningur í sinni tærustu mynd og verðmætasköpun í lágmarki, hvað þá að það skapi þau störf hér á landi sem forsætisráðherra lofar í tíma og ótíma.
Hærra orkuverð til stóriðju er hið besta mál, en Landsvirkjun á ekki að þurfa sæstreng til að keyra það verð upp. Nú eru lausir samningar hjá einni stóriðjunni og fínt að nota þá til að hækka verðið allverulega. Hærra orkuverð til heimilanna er hins vegar öllu verra og ein þeirra leiða sem nefnd hafa verið til að komast til móts við það er að hinn gríðarlegi hagnaður af strengnum verði nýttur þjóðinni til heilla. Gangi okkur vel með það.
Við Íslendingar höfum byggt upp þá ímynd að við framleiðum hreina orku, hún sé tær og gallalaus og ofgnótt af henni. Þar horfum við ekki síst til jarðvarmavirkjananna, en kannski fregnir af mengun frá þeim sletti smá aur á þá ímynd. Og þó, við erum fljót að gleyma og auðvitað erum við stærst, mest og best.
Kannski er bara komið nóg í bili af virkjanaáformum? Þau hafa skipt þjóðinni í fylkingar, verða aldrei óumdeild og hafa alltaf óafturkræfar afleiðingar í för með sér. Eigum við kannski að taka okkur smá hlé, í tíu, tuttugu, þrjátíu ár, eða bara þar til við förum í orkuskiptin í samgöngum sem við tölum stundum um en gerum ekkert í, því það er ekki eins töff og ekki eins risastór framkvæmd og eitt stykki verksmiðja, hvað þá sæstrengur.
Þolinmæði hefur hins vegar aldrei verið aðall íslenskra ráðamanna, þannig að líklegast skilar starfshópurinn um sæstrenginn glimrandi fínni skýrslu sem sýnir að fátt sé betra en að setja skrilljónir í verkefnið. Tja, nema Eyþór Arnalds verði skipaður yfir hópinn, þá verður skýrslan svört eins og skaðbrennt brauð í tandooriofni.