Að virða mannréttindi flóttamanna

Auglýsing

Innanríkisráðherra lýsti yfir úr ræðustóli Alþingis þann 17. september síðastliðinn að hælisleitendur yrðu ekki sendir aftur til Grikklands þar sem það væri ekki öruggt. Örfáum vikum síðar ákvað Útlendingastofnun hins vegar að synja sýrlenskri fjölskyldu um efnislega meðferð hælisumsóknar á Íslandi. Fjölskyldan kom inn í Evrópu í gegnum Grikkland og var neydd til þess að sækja þar um hæli, og fékk þar stöðu sína sem flóttamenn viðurkennda. Ákvörðun Útlendingastofnunar virðist í fyrstu vera í hrópandi mótsögn við yfirlýsingu innanríkisráðherra. 

En hvað er átt við þegar talað er um hælisleitendur? Alþjóðalög gera þýðingarmikinn greinarmun á hælisleitendum og flóttamönnum. Hver sá sem sækir um hæli utan heimalands síns er skilgreindur sem hælisleitandi (e. asylum seeker) þar til umsókn hans hefur fengið endanlega afgreiðslu hjá stjórnvöldum, óháð því hvaða ástæður liggja að baki umsókninni. Þeir sem sækja um hæli vegna efnahagsaðstæðna, til dæmis bágra lífskjara og skorts á atvinnu (e. economic migrants) teljast hælisleitendur en eru hinsvegar ekki flóttamenn (e.refugees). Flóttamannahugtakið er að finna í Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og veitir hverjum manni sem ekki nýtur verndar gegn ofsóknum í eigin ríki kost á að leita sér verndar hjá öðrum þjóðum. Sá sem sækir um hæli sem flóttamaður ber í meginatriðum sönnunarbyrðina um að ríkinu beri að veita honum hæli. Samþykki stjórnvöld umsóknina er sagt að viðkomandi hafi fengið stöðu sína sem flóttamaður viðurkennda. Sá sem fær viðurkennda stöðu flóttamanns nýtur tiltekinna réttinda í hælislandinu, til dæmis á hann rétt á heilbrigðisþjónustu, aðgangi að skólakerfinu sem og fjárhags-og húsnæðisaðstoð. Í samningnum eru aðildarríki hvött til þess að hafa alþjóðasamvinnu í hávegum þegar kemur að málefnum flóttamanna. 

Orð innanríkisráðherra virðast einungis ná til hælisleitanda, þ.e. þeirra sem hafa hvergi verið skráðir áður en þeir ná ströndum Íslands. Sem sagt einungis til þeirra sem komast á gúmmítuðru yfir Miðjarðahafið, framhjá mannræningjum og sérsveitarliðum, ganga yfir hálfa Evrópu og ná á einhvern ótrúlegan hátt að komast á þessa pínulitlu eyju í miðju Atlantshafinu – allt án þess að vera skráðir inn í nokkurt ríki á leiðinni. 

Auglýsing

En ef ekki er öruggt að senda hælisleitendur til Grikklands af hverju ætti að vera öruggara að senda flóttamenn til Grikklands? Hvers virði er að hafa fengið stöðu sína sem flóttamaður viðurkennda í landi sem hefur ekki burði til að uppfylla skyldur sínar undir Flóttamannasamningnum? Sýrlenska fjölskyldan varði ári á götunni í Grikklandi og þar breytti staða hennar sem flóttamenn engu. Krafan um alþjóðlegt samstarf hlýtur að fela í sér að flóttamenn séu ekki sendir til baka til ríkis sem ekki getur veitt þeim þá vernd og þau réttindi sem alþjóðasamningar fela í sér.

Pólitísk hræðsla við umfangsmiklar breytingar á útlendingalögum

Ef marka má undirskriftalista, fjölmiðlaumfjöllun, meðmælagöngur og safnanir virðist meginþorri Íslendinga ekki kæra sig um þessa þröngu stefnu stjórnvalda. Vonbrigði og reiði almennings beinist í miklum mæli að Útlendingastofnun, þeirri undirstofnun innanríkisráðuneytisins sem afgreiðir allar umsóknir um dvalarleyfi. Meginhlutverk Útlendingastofnunar er hinsvegar ekki að móta stefnu Íslands í flóttamannamálum. Hennar hlutverk er að starfa samkvæmt útlendingalöggjöfinni, sem er mörkuð af löggjafanum. 

Lögin veita þó Útlendingastofnun heimild til að veita hæli af mannúðarástæðum, úrræði til þess að veita þeim hæli sem af einhverjum ástæðum falla ekki undir vernd Flóttamannasamningsins þrátt fyrir að ríkar mannúðarástæður séu til staðar. Ekki virðist vera vilji til þess að nýta þetta úrræði í ríkum mæli. Einhvers staðar virðumst við hafa misst sjónar á megintilgangi þessara laga  – að vernda fólk fyrir illri meðferð. 

Tregðu stjórnvalda til þess að keyra í gegn meiriháttar breytingar á löggjöfinni má rekja til pólitískrar hræðslu sem gerir nú vart við sig víðsvegar um Evrópu. Grikkland og Ítalía eru ekki einu löndin sem komin eru að þolmörkum. Svíþjóð telur sig ekki geta tekið á móti fleiri flóttamönnum og Þýskaland er í stökustu vandræðum. Hér á landi felst pólítíska hræðslan í því að ef Ísland ákveður að veita þeim sem þegar hafa hlotið hæli annars staðar efnismeðferð sé líklegt að hingað streymi flóttamenn sem þegar hafa hlotið hæli í Evrópuríkjum á borð við Grikkland og Ítalíu, ríkjum sem er ómögulegt að tryggja svo mikið sem grundvallarmannréttindi flóttamanna. 

Ólíðandi að löggjafinn firri sig ábyrgð

Núverandi kerfi samrýmist hvorki aðstæðum í Evrópu né vilja almennings til að leggja sitt af mörkum og taka á móti flóttamönnum í ríkara mæli en nú er gert. Þessi togstreita leiðir til þess að fjölmargir hælisleitendur sjá ekki annan kost en að segja sögu sína í fjölmiðlum í þeirri von að nægur þrýstingur skapist á stjórnvöld um að endurskoða ákvörðun sína. Hættan sem í þessu felst er margþætt. Í fyrsta lagi eru fjölmargir flóttamenn hér á landi sem þora ekki að hætta á  að segja sögu sína opinberlega, og því geta þeir sem koma úr verstu aðstæðunum átt minnstan stuðning vísan. Í öðru lagi geta slík viðtöl aukið á hættuna fyrir viðkomandi og ástvini þeirra í heimalandinu. Í þriðja lagi hefur slík fjölmiðlaumfjöllun nær aldrei leitt til þess að viðkomandi fái hér hæli til frambúðar. Algengast er að viðkomandi fái að dvelja hér á meðan kærunefnd metur umsóknina, en Flóttamannasáttmálinn á hvort sem er að tryggja það,  því óheimilt er að senda hælisleitanda aftur til heimalands, sé hætta á að hann verði fyrir ofsóknum. Verst er þó að með þessu sköpum við kerfi sem byggir á manngreinaráliti, í stað þess að geta treyst á að kerfið sjálft sé réttlátt. 

Kerfið er meingallað, hluti af tímaskekkju sem þarf að laga að breyttum heimi. Við eigum ekki að þurfa að treysta á að fjölmiðlar vakti hverja ákvörðun Útlendingastofnunar og mótmæli svo málsmeðferð (eða skorti þar á) hverrar fjölskyldu eða hvers einstaklings. Innanríkisráðherra á ekki að fá klapp á bakið fyrir að grípa í sífellu inn í verkferla undirstofnunar ráðuneytisins. Útlendingastofnun er úrelt í núverandi mynd. Það þarf  að breyta kerfinu í heild. Það er ólíðandi að sýrlensk fjölskylda sem hefur fengið stöðu sína sem flóttamenn viðurkennda verði send frá landi velmegunar til ríkis þar sem hennar bíður ekkert nema eymd og vergangur. Jafn ólíðandi og að senda öll þau börn og allar þær manneskjur sem aldrei ná forsíðum blaðanna af landi brott  á grundvelli lagabálks sem samrýmist ekki vilja almennings. Leyfum ekki löggjafanum að firra sig ábyrgð á ákvörðunum Útlendingastofnunar. Það er Alþingis að breyta lögunum.  

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiSleggjan
None