Ég átti reglulega draumkenndar samræður í háskólanámi um hvaða tímabil í mannkynssögunni hafi verið áhugaverðast. Hvenær hefði verið áhugaverðast að lifa? Var það þegar eimreiðin ruddi sér til rúms? Á tímum frönsku byltingarinnar? Þegar hetjur riðu um héruð? Eða þegar Lincoln frelsaði þrælana? Fljótt á litið virðist sem sögubækurnar hafi að geyma áhugaverðari og umbrotasamari tíma en þá sem á eftir munu koma.
Þessar vangaveltur voru auðvitað ekkert sérstaklega raunhæfar. Við gerðum í kirsuberjatínslu okkar um söguna að sjálfsögðu ráð fyrir að við værum þokkalega efnaðir, skjannahvítir karlmenn, að minnsta kosti í efri millistétt þess tíma. Og í því liggur svarið auðvitað að miklu leyti.
Fyrir áratug varð ég lifandi dæmi þess að kraftaverkin sem tækniframfarir og hagsæld hafa skapað okkur slá allar vangaveltur um þetta út af borðinu.
Skömmu fyrir 18 ára afmælið mitt greip um sig heiftarleg magakveisa á æskuheimilinu. Fjölskyldan lagðist öll fyrir með tilheyrandi uppköstum og óhugnaði. Nema ég. Ég leið að vísu vítiskvalir sem áttu upptök sín neðarlega hægra megin í kviðarholinu, en uppköstin létu á sér standa.
Á þriðja degi var mér hætt að vera um sel. Eftir nokkrar fortölur tók hjúkrunarfræðingurinn mamma þá ákvörðun að það væri óvitlaust að fara með mig í skoðun á heilsugæslu. Mínútum eftir að ég komst undir læknishendur var ég í sjúkrabíl á leiðinni á skurðarborðið. Botnlanginn var við það að liðast í sundur. Læknirinn sem skar mig upp sagði eftir á að það væri áhættuþáttur fyrir börn að eiga foreldra í heilbrigðisstétt. Móðir minni til varnar þá birtust þjáningar mínar með sama hætti og hefðbundin magakveisa á amfetamínsterum.
Botnlanginn var því fjarlægður með gamla laginu því hann var of tættur til að hægt væri að ná honum út með nýtískuaðferðum. Í staðinn fékk ég vígalegt ör á kviðinn. Mér til mikillar lukku fékk ég að liggja á Barnaspítalanum, þar sem við pabbi horfðum meðal annars á aðra myndina í þríleiknum um Guðföðurinn. Þetta var í mars og eina nóttina tók vorið sér frí, því það kyngdi niður risavöxnum snjókornum sem lýstust upp í birtunni frá ljósastaur neðarlega við Barónsstíg, ekki ólíkt því sem gerðist þegar snjóaði nýlega þennan eina vetrardag á þessu mildasta haust í manna minnum.
Eftir spítalavistina var ljóst að ekki var allt með felldu því mér leið ennþá hræðilega. Ég var því lagður aftur inn, nú með sýklalyf í æð í tæpar tvær vikur, því botnlanginn hafði ákveðið að dæla einhverjum viðbjóði um líkamann áður en honum var útrýmt.
Á þessum tíma var ég eignalaus sonur úthverfahjóna í millistétt. Og lífi mínu var bjargað eins og hendi væri veifað. Eignalaus sonur úthverfahjóna í millistétt í París á 17. öld hefði fengið aðra meðferð, sennilega eitthvað í ætt við: „Hérna, drekktu þessa koníaksflösku. Þá hættirðu að finna til. Og vonaðu að þú vaknir ekki aftur.“ Meira að segja einn valdamesti og auðugasti maður síns tíma, Loðvík 14, hefði mátt sín lítils með alla heimsins lækna sér við hlið í baráttunni við veikindi sem í dag þykja ekkert tiltökumál. Allavega á vesturhveli jarðar.
Í þessu liggur sennilega hluti svarsins. Við höfum aldrei upplifað jafn blómlega og áhugaverða tíma og daginn í dag. Ekki nóg með að tækniframfarir hafi opnað fyrir okkur dyr sem við vissum nýlega ekki af, heldur hefur sennilega aldrei verið skárra að fæðast inn í þennan heim sem eitthvað annað en þokkalega efnaður, hvítur, gagnkynhneigður karlmaður. Forstjóri eins verðmætasta fyrirtækis í heimi er samkynhneigður og kanslari Þýskalands er kona.
Tækniframfarir hafa og munu á komandi árum færa okkur á ótrúlega staði. Aldrei áður höfum við staðið frammi fyrir jafnmörgum tækifærum og möguleikum og akkúrat í dag. En það þýðir ekki að okkar bíði ekki áskoranir.
Atburðir undanfarinna vikna, miskunnarlausar hryðjuverjaárásir á óbreytta borgara, minna okkur samt með óhugnanlegum hætti á að það er mun auðveldara að rífa niður og eyðileggja en að skapa og byggja upp. Á þessum áhugaverðusta tímum mannkynssögunnar þurfum við eftir sem áður að takast á við flókin og erfið vandamál þar sem lausnirnar verða í besta falli óljósar.
Fyrstu viðbrögðin við voðaverkunum eru eðlilega ótti og í kjölfarið reiði. Að láta undan slíkum frumhvötum leiðir okkur ekkert nema dýpra ofan í holuna. Stærri og fleiri sprengjur sem vesturveldin munu varpa í áttina að Daesh, í þeirri von að hitta eitthvað annað en óbreytta borgara, munu ekki gera annað en að gera vandann stærri og flóknari.
Milli þess sem 18 ára ég horfði á kvikmyndir um ítalskar glæpaklíkur í Bandaríkjunum fylgdist ég með fréttum af því að Bandaríkjaher hafði sprengt í tætlur Abu Musab al-Zarqawi, eitt höfuð al-Qaeda hýdrunnar. Vonir stóðu til að það myndi draga úr ofbeldi í Írak. Það gerði það kannski um stund, en ofbeldi leiðir bara til meira ofbeldis. Sýrland verður ekki sprengt aftur á réttan kjöl.
Á þessari stundu bíður 18 ára drengur dauðans í flóttamannabúðum vegna botnlangakasts. Hann fær ekki einu sinni koníak. Lausnin er að tryggja að fólk geti lifað því lífi sem það kýs í heimalandi sínu, laust við stöðugan ótta og þurfi ekki að hrekjast á flótta. 2.000 punda sprengjur eru engin bót á sprungnum botnlanga - jafnvel þótt á þær sé krotað „fyrir París“.
Skammsýn loftárásaherferð og tímabundinn landhernaður í kjölfarið mun engu skila nema meiri þjáningum, öðru Abu Ghraib og Guantanamo, með tilheyrandi uppgangi nýrra öfgasamtaka. Eina lausnin er friður og áframhaldandi framþróun. Þannig verður morgundagurinn enn áhugaverðari en dagurinn í dag.