Í dag er 7.101 dagur síðan Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti Íslands. Það er ansi langur tími, eiginlega fáránlega langur tími, hvað þá fyrir mann að sitja sem forseti. Tíminn er vissulega afstæður, en tuttugu ár í kjörnu embætti sem þjóðhöfðingi er langt, algjörlega óháð því hvernig viðkomandi hefur staðið sig í starfi.
Sumarið 1996. David Bowie spilaði í Laugardalshöll og ég átti miða. Hann varð ég hins vegar að gefa þar sem ég þurfti að fara á sjóinn og komst ekki á konsertinn. Og áður en landfestum sleppti gætti ég þess að vera búinn að kjósa utan kjörfundar og að sjálfsögðu kaus ég Ólaf Ragnar Grímsson. Hann hafði árum saman verið kjaftfor leiðtogi vinstri manna á þingi, talað um skítlegt eðli og verið víttur af forseta þings. Það var töff. Hægra liðið fékk hland fyrir hjartað þegar leit út fyrir að Ólafur Ragnar myndi sigra og „Óháðir áhugamenn um forsetakjör 1996“ spruttu upp og auglýstu í blöðum gegn Ólafi. Þar mátti sjá krossapróf, m.a. þessa spurningu: „Hefur Ólafur Ragnar Grímsson alls staðar valdið hörðum deilum, þar sem hann hefur starfað í stjórnmálafylkingum?“
Óforskammað? Já. Hallærislegt? Ó já. Árangursríkt? Vissulega, en ekki á þann hátt sem hinir óháðu hægri menn vildu, því þetta stældi fjölmarga í því að kjósa Ólaf Ragnar. Hann var á móti kerfinu. Kerfið var á móti honum. Hann var... tja töff er kannski ansi djúpt í árinni tekið, en við hliðina á Pétri Hafstein hefði sú lýsing mögulega gengið.
Spólum fram um 20 ár. Ólafur Ragnar er orðinn samdauna kerfinu. Hann er kerfið, eins og sjá má í viðtali í DV í síðasta mánuði. Spurður um ummæli um múslima í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París, sagði Ólafur: „Í þessu tilviki taldi ég nauðsynlegt að deila með þjóðinni hugsunum mínum, áhyggjum og greiningu.“
Af hverju, Ólafur? Af hverju? Af hverju líturðu á sjálfan þig sem slíka stofnun að þú verðir að deila hugsunum þínum með þjóðinni? Þú varst einu sinni strákur frá Ísafirði sem fór í gegnum nokkra stjórnmálaflokka áður en þú ákvaðst að bjóða þig fram sem forseta árið 1996. Manstu, þú varst kallaður Skattmann í einu áramótaskaupinu þegar þú varst fjármálaráðherra. Þú varst bara einn af okkur. Þjóðin beið ekkert í ofvæni eftir að þú deildir hugsunum þínum með henni - og hún gerir það reyndar ekki enn.
Já, 20 ár eru langur tími. Mökklangur. Það fannst Ólafi Ragnari líka þegar hann tók við árið 1996. Þá var Vigdís að láta af störfum, eftir 16 ár í embætti, og Ólafur svaraði því í viðtali við Moggann hvort hinn nýkjörni forseti hefði hugleitt hve lengi hann hygðist sitja:
„Nei, ég hef ekki hugleitt það. Ég var oft spurður þessarar spurningar í aðdraganda kosninganna og svaraði henni á þann veg að mér fyndist 16 ár vera langur tími. Með fullri virðingu fyrir bæði Vigdísi og Ásgeiri, sem bæði hafa setið í þann tíma, þá finnst mér, sérstaklega í ljósi þeirra öru breytinga sem eru í veröldinni, 16 ár vera svo langt tímaskeið sem ólíklegt sé að forseti og þjóð geti orðið samstiga.“
Já! Þarna erum við að tala saman, Ólafur. Eða vorum, því auðvitað hefur þú skipt um skoðun. „Í ljósi þeirra öru breytinga sem eru í veröldinni,“ þetta er flott, af því að það er satt. Og auðvitað hefur ekki hægt á breytingunum, nema síður væri, þær eru mun meiri og örari en þegar þú sagðir þetta 1996. Helsta breytingin er þó auðvitað sú að þú vilt ekki hætta sem forseti, þrátt fyrir að hafa bráðum setið í 20 ár.
Breytingar. Fyrst og fremst er breytingin kannski sú að Ólafur Ragnar lítur á sig sem ómissandi. Hann má bara ekki hætta, því heimurinn er svo viðsjárverður og íslenska þjóðin þarf á því að halda að hann, og aðeins hann, sé á Bessastöðum.
Þannig var það líka fyrir síðustu forsetakosningar. Þá var Ólafur Ragnar á beinni línu á DV og svaraði því til hvort honum þætti eðlilegt að sitja fimmta kjörtímabilið í röð. „Á venjulegum tíma væri eðlilegt að hætta eftir fjögur kjörtímabil. Þjóðin er hins vegar enn að fara í gegnum óvissutíma.“ Og eins og við vitum þarf Ólaf til að leiða þjóðina í gegnum óvissutíma.
Og hvað finnst Ólafi eftir þessi fjögur ár? Eftir að hafa setið heilt kjörtímabil í viðbót þó eðlilegt væri á venjulegum tíma að hætta eftir fjögur kjörtímabil? Kíkjum aftur í DV viðtalið frá í nóvember síðastliðnum.
„Ég horfi á samfélagið og forsetaembættið að nokkru leyti með augum greinandans og reyni að taka sjálfan mig út úr myndinni. Þá er það visst áhyggjuefni að það skuli enn vera svo ríkt í hugum manna að það þurfi að vera á Bessastöðum einstaklingur sem ekki haggast í róti umræðunnar, bloggsins og hitans sem fylgir átökum dagsins.“
Þetta segir maðurinn sem vísaði til netumræðu þegar hann neitaði að staðfesta lög og setti í þjóðaratkvæði. Hvað er hann að fara? Ekkert auðvitað, hann vill vera áfram á Bessastöðum.
En svona talar maður sem er með of mikið sjálfsálit. Sem hefur gleymt því að hann er bara einn af rúmlega 330 þúsundum, gleymt því að einu sinni stóð hann í pontu í Rúgbrauðsgerðinni og reifst um leiðir til að bæta kjör verkafólks. Maður með svona hugsun hættir aldrei sjálfviljugur í embætti, því alltaf eru óvissutímar, sjálf framtíðin er óviss, og alltaf er þörf fyrir sterka einstaklinginn því Nietzche hafði rétt fyrir sér og það er bara übermensch sem getur bjargað þjóðinni og það er ég og því má ég ekki hætta.
Enda er Ólafi vandi á höndum, eins og fram kom í DV:
„Eitt af því sem skapar mér vanda í þessum efnum er að ég er sífellt að hitta fólk sem hvetur mig til að halda áfram. Það er óneitanlega umhugsunarefni hvers vegna hugarástand hjá þjóðinni sé með þeim hætti að það sé ekki yfirgnæfandi skoðun þorra þjóðarinnar, ef ekki allrar, að það sé í fínu lagi að ég hætti.“
Kæri Ólafur. Ekki bíða eftir því að hver og einn einasti sem þú hittir vilji að þú hættir, það er ekki klókt. Þá ertu búinn að vera allt, allt of lengi. Það er fínt að fara á meðan smá eftirspurn er eftir manni. Eða ertu að bíða eftir því að fólk pereati þig úr Lærða skólanum?
Lestu frekar það sem þú sagðir, nýkjörinn forseti árið 1996, enn blautur á bak við eyrun, ómengaður af kokteilboðum valdamanna heimsins. Lestu Morgunblaðið 3. ágúst 1996 og hugsaðu um það sem þú sagðir fyrir 7.066 dögum.
„Þó er ég viss um að þjóðin hefði valið Vigdísi áfram hefði hún gefið kost á sér.“
Einmitt! Vigdís hitti líka fullt af fólki sem vildi að hún héldi áfram, en lét það ekki kitla hégómagirnd sína, heldur hætti. Hún vissi nefnilega að hún var ekki ómissandi, ekki frekar en þú.