Þeir koma inn tveir saman. Annar áberandi hávaxinn en hinn nær félaga sínum varla í öxl. Sá hávaxni er með fíngerðan hýjung á efri vörinni. Hlutföllin öll skökk eins og oft vill verða með unglinga. Hann lítur varfærnislega á mig meðan ég skrái niður helstu upplýsingar. Hann er sextán ára, fæddur 1999. Ef hann hefði fæðst á Íslandi væri hann nú á fyrsta ári í menntaskóla. Sæti eflaust á upphituðu bókasafni með kvíðahnút í maganum yfir jólaprófi í stærðfræði. En hann er ekki fæddur á Íslandi. Hann er Afgani. Í stað þess að læra fyrir próf er hann staddur í dagsetri fyrir hælisleitendur í Brussel. Félagarnir tveir eru ekki einir um að koma án fylgdar fullorðinna. Hundruð þeirra sem mæta í dagsetrið eru börn og unglingar. Milli janúar og september á þessu ári höfðu 214 þúsund börn sótt um hæli innan Evrópusambandsins. Tugþúsundir þessara barna eru ekki í fylgd fullorðinna.
Frá því ég flutti til Brussel í haust hafði ég lengi ætlað mér að taka þátt sem sjálfboðaliði til að aðstoða hælisleitendur en alltaf fundið einhverja átyllu fyrir að fara seinna. Þar til í síðustu viku. Allt í einu var ég komin í gamla vöruskemmu sem hópur almennra borgara gerði að samkomustað fyrir hælisleitendur. Í alltof stórum hvítum stuttermabol sem á stóð stórum stöfum Flóttamenn velkomnir. Setrið er opið yfir daginn og þangað geta hælisleitendur komið og fengið mat, læknishjálp og fatnað. Hér vinna almennir borgarar og hælisleitendur hlið við hlið sem sjálfboðaliðar og ganga í öll verk til að tryggja að setrið geti verið hælisleitendum vísir að einhverskonar heimili. Þeir hælisleitendur sem eru sjálfboðaliðar halda í raun starfseminni gangandi þar sem þeir túlka fyrir þá sem hvorki tala frönsku né ensku.
Þar sem ég vanda mig við að brjóta saman agnarsmáar samfellur kemur til mín 21 árs Sýrlendingur. Hann er kvíðinn. Eftir tvo daga fer hann í sitt þriðja viðtal um vegabréfsáritun, en ákvörðun var frestað í fyrri skiptin tvö. Ég býðst til þess að hjálpa honum að undirbúa sig en hann afþakkar pent. Brosir glettnislega og segist hafa undirbúið sig svo vel fyrir hin tvö viðtölin að nú ætli hann að prófa nýja aðferð – undirbúa sig ekki neitt og vona að það virki. Það er kannski ágætt að hann afþakkaði hjálpina, hugsa ég með sjálfri mér, ég hef ekki hugmynd um hvernig maður sannfærir yfirvöld um að maður eigi skilið möguleika á bjartari framtíð.
Glæpurinn að vilja mannsæmandi líf
Samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og Evrópusáttmálanum er Belgíu skylt að tryggja grundvallarmannréttindi hælisleitenda, svo sem húsaskjól og mat. Belgísk stjórnvöld líta hinsvegar svo á að sú skylda taki ekki gildi fyrr en eftir að viðkomandi er skráður sem hælisleitandi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur bent á að þar með brjóti Belgía grunnréttindi þeirra sem þangað koma, því fólk getur þurft að bíða í margar vikur eftir því að mega sækja um hæli. Þeirra á meðal eru börn og unglingar, en í október einum saman komu yfir 6.000 hælisleitendur til Belgíu eða 1500 í viku hverri. Fæstir hafa í nokkur hús að venda meðan þeir bíða eftir að komast inn í kerfið.
Víða í Evrópu hefur almenningur gripið í taumana þegar kerfið hefur brugðist. Upp spretta þrýstihópar sem hafa að markmiði að knýja fram heildstæða kerfisbreytingu. Aðrir taka sig saman og koma upp einhverskonar aðstöðu svo að hælisleitendur hafi einhvern samastað. Þó það sé ekki nema að mæta í persónu og viðurkenna mannlega tilvist þessa fólks og þá erfiðleika sem það hefur gengið í gegnum.
Það er gleði í sjálfboðaliðahópnum þegar við göngum út í svalt desemberkvöldið og læsum dagsetrinu á eftir okkur. Eftir mikla vinnu tókst að finna gistingu fyrir alla þá sem til okkar leituðu. Þar á meðal voru ung kona með dætur sínar tvær og eldri föður sem og hópur fjögurra unglingsdrengja. En þar sem við stöndum saman á tröppunum og fögnum vel heppnuðum degi verður munurinn á tilvist okkar nístandi skýr. Helmingur sjálfboðaliðanna fer nú heim til sín, skríður upp í eigið rúm og stjórnar því sjálfur hvenær hann mætir næst. Hinn helmingurinn eru hælisleitendur. Þeir fara nú í svefnskála Rauða Krossins þar sem eru dýnur fyrir um 500 manns í opnu rými. Það er þeirra veruleiki. Það er svo undir Evrópubúum komið að ákveða hvort við gerum þeim kleift að gera okkar veruleika að sínum.
Framhaldið er í okkar höndum
Áætlað er að fyrsti hópur sýrlenskra flóttamanna komi til Íslands um miðjan janúar. Nicole Dubus, sérfræðingur í móttöku flóttafólks sagði nýlega í fréttum RÚV að Ísland hefði umfram aðrar þjóðir mikla burði og sögulegt tækifæri til að gera betur en önnur ríki. Við höfum tækifæri til þess að gera það sem öðrum hefur ekki tekist - að taka utan um flóttamenn sem til okkar koma með hlýju, velvild og langtímaáætlunum strax frá fyrsta degi. Einstakt tækifæri fyrir þjóðina sem elskar að standa sig best á heimsmælikvarða.
Íslenskir stjórnmálamenn vita ekki frekar en aðrir þjóðarleiðtogar hvaða áhrif það mun hafa á íslenskt samfélag að taka við fjölda flóttafólks. Sumir almennir borgarar fyllast kvíða yfir mögulegum menningarárekstrum. En við megum ekki gleyma að þetta snýst um manneskjur. Hver og einn flóttamaður er að biðja um tækifæri á mannsæmandi lífi. Flóttamenn sem komnir eru alla leið til Íslands hafa yfirstigið ótrúlegustu hindranir, annars hefðu þeir ekki komist á leiðarenda. Sannleikurinn er sá að við stöndum frammi fyrir breyttri Evrópu. Á meðan við hugum að stóru myndinni þurfum við að beita okkur í nærumhverfinu. Þar getur hver og einn haft áhrif.