Alþingi gaf okkur fallega jólagjöf fyrir nokkrum dögum. Við fengum 49 glænýja íslenska ríkisborgara og þar á meðal voru tvær fjölskyldur frá Albaníu með langveik börn. Nú þurfum við ekki að skammast okkar í bili. Og þó.
Reyndar er útlendingalöggjöfin stórgölluð og einkennist af undarlegri hræðslu. Það er alltof erfitt að flytja hingað og taka þátt í samfélaginu fyrir fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í aðdraganda EES-samningsins var umræðan á þá leið að hér myndi allt fyllast af útlendingum sem tæki öll störfin. Reynslan kennir okkur að svo er ekki. Og það er ekki sérlega skrítið þegar maður hugsar um það að fólk vilji ekki endilega flytja á eldfjallaeyju langt norður í ballarhafi þar sem myrkur og kuldi ríkir marga mánuði á ári. Flytja í land matadorpeninga, frændsemi og verðtryggingar.
Ísland bernsku minnar
Þegar ég var krakki voru næstum allir landsmenn eins á litinn. Bakgrunnur okkar var líkur, við hétum flest eitthvað –son og –dóttir og afar og ömmur okkar höfðu alist upp í sveit.
Utanlandsferðir voru reyndar að komast í tísku. Margir þeirra sem fóru kynntu sér á eigin skinni hversu hratt væri hægt að sólbrenna á spænskum ströndum. Menn voru ekki almennilegir nema hafa sofnað í sólbaði á milli grísaveislna með hörmulegum afleiðingum. Og sumir mundu lítið eftir ferðinni þegar heim var komið.
Ég man vel eftir komu flóttamannanna frá Víetnam árið 1979 og fylgdist spennt með því. Í fréttum frá þessum tíma má lesa að allt fékk fólkið íslensk nöfn fyrir komuna og að reynt hefði verið að hafa nýju nöfnin eins lík upprunalegu nöfnunum og frekast var kostur. Á þeim tíma þurftu útlendingar að afsala sér nafninu sínu til að setjast hér að. Væri það ekki talið brot á mannréttindum núna?
Í minningunni var matur bernsku minnar grár nema pulsur og rabbarbaragrautur sem hvort tveggja fékk rauðan lit úr einhverju sem er örugglega búið að banna. Smátt og smátt varð maturinn þó litríkari og fjölbreyttari, ekki síst fyrir erlend áhrif. Við fengum nýja liti, nýja angan og nýtt krydd í tilveruna. Og allt varð betra.
Takk fyrir allt
Sem betur fer var „einræktun“ Íslendinga rofin í lok síðustu aldar með EES-samningnum og örlítið skárri löggjöf. Við höfum verið svo lánsöm að á Íslandi hefur sest að fjöldinn allur af fólki af erlendu bergi brotið sem hefur auðgað samfélag okkar, menninguna og tilveruna alla. Sumir hafa jafnvel haft afgerandi áhrif á hvernig við upplifum þjóðsagnaarf okkar og náttúruna og nægir að nefna Brian Pilkington sem endurskóp íslensku tröllin í þeirri mynd sem við flest þekkjum nú. Aðrir þjálfuðu afreksfólk í tónlist eða íþróttum; færðu okkur nýja þekkingu, færni og markmið.
Kannski er það besta við Ísland að nýjar hugmyndir og viðhorf eru nokkuð fljót að skjóta rótum og verða ríkjandi. Nægir að nefna réttindabaráttu samkynhneigðra, sem reyndar er alls ekki lokið en engu að síður hafa flestir landsmenn sýnt stuðning sinn í verki og tekið þátt í gleðigöngunni. Svipuð viðhorf ríktu í garð þeirra fáu útlendinga sem settust hér að á árum áður. Þeir urðu býsna fljótt hluti af „okkur“.
Hvað er að gerast?
Nú eru blikur á lofti. Skyndilega virðist viðurkennt að ala á hræðslu og jafnvel hatri á venjulegu fólki frá öðrum löndum eða af öðrum trúarbrögðum. Jafnvel alþingismenn tala eins og það komi til greina að brjóta jafnræðisreglu sjálfrar stjórnarskrárinnar og mismuna fólki eftir uppruna eða trú.
Það er ekki bara hættulegt og óhugnarlegt heldur einnig óskiljanlegt. Aldrei hefur heimurinn verið öruggari og friðsamlegri. Þrátt fyrir töluverða umræðu um hryðjuverk eru vart mælanlegar líkur á að vesturlandabúar lendi í slíku. Það eru margfalt meiri líku á að við deyjum í bílslysi (þótt umferðin hafi heldur aldrei verið öruggari), úr krabbameini, þunglyndi eða hjartasjúkdómum. Það eru meiri líkur á að maki okkar verði okkar að bana, við vinnum í lottóinu eða verðum fyrir eldingu.
Við eigum ekki að vera hrædd þegar fólk vill setjast hér að, borga skatta og skyldur, læra málið okkar og taka þátt í að byggja upp réttlátt og gott samfélag. Kannanir hafa sýnt að atvinnuþátttaka innflytjenda á Íslandi er meiri en meðal innfæddra. Fólk frá öðrum þjóðum er því ekki að koma hingað til að setjast upp á velferðarkerfið. Og þrátt fyrir ítarlega leit Útvarps Sögu virðist enn ekki hafa fundist múslimi á Íslandi sem hefur valdið teljandi vandræðum, sökum trúar sinnar.
Okkur vantar fólk
Við erum alltof fá. Þjóðfélagið virkar ekki eins og það ætti að gera þegar allir eru tengdir öllum. Við lendum sífellt í því að vera vanhæf því í fámenninu eru allir skyldir eða skólafélagar. Við þekkjumst öll og það er ekki sérlega hollt. Okkur sárvantar fleira fólk.
Það er líka óhagkvæmt að reka 320.000 manna þjóðfélag. Við þurfum að halda úti sömu þjónustu og milljónaþjóðir og nokkurn veginn sömu stofnunum líka. Það er dýrt að halda uppi almenningssamgöngum fyrir svona fáa, sem og vegakerfi og góðu heilbrigðiskerfi. Sagt hefur verið að háskólasjúkrahús eins og við viljum sjá á Landspítalanum þurfi helst að þjóna milljón manns, annars sé lítið vit í því. Og einhvern veginn endar þetta alltaf með því að allir eru að vasast í öllu.
Við sjálf viljum geta flutt hvert sem er í heiminum og okkur finnst það sjálfsagt. En á sama tíma er löggjöfin sniðin að því að gera fólki utan EES eins erfitt fyrir og mögulegt er að setjast að á Íslandi. Fólk þarf ýmist að gifta sig til landsins, vera atvinnumenn í íþróttum eða koma hér á vegum atvinnurekanda sem hefur sýnt fram á að hann hafi ekki getað fengið hæft starfsfólk á gjörvöllu EES-svæðinu. Fyrirkomulagið veldur því að starfsmaðurinn er ofurseldur vinnuveitandanum sem flutti hann inn. Og svo er það fólkið sem flýr eymd og stríð í heimalandinu en það virðumst við helst vilja velja sjálf. Fólk sem álpast hingað á eigin vegum er í flestum tilfellum vísað frá ef það er ekki hreinlega fangelsað fyrst eða látið dúsa bjargarlaust í bið eftir úrskurði, nema hvoru tveggja sé. Það er helst að stjórnvöld aumki sig yfir fólki í þeim aðstæðum ef mál þeirra rata í fjölmiðla.
Þéttum okkur
Þetta er asnalegt. Fólk á ekki að þurfa að eiga langveik börn til að fá að búa á Íslandi. Síðast þegar ég vissi sárvantaði múrara hér á landi. Ef eitthvað vit væri í útlendingalöggjöfinni hefði faðir Kevi litla átt að fá bæði dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi vegna þess að hann er góður múrari og vill vinna hér og greiða skatta. Það á að vera nóg. Annað er fáránleg sóun á mannauði og menntun.
Þétting byggðar hefur verið í umræðunni síðustu ár og tekið er mið af þeirri hugmynd í nýju skipulagi Reykjavíkurborgar. Hugmyndin er að nýta borgina betur, auka lífsgæði íbúanna, lifa umhverfisvænna og betra borgarlífi og auka fjölbreytnina.
Við ættum að yfirfæra þá hugmyndafræði á þjóðina sjálfa. Við ættum að fagna hverjum þeim sem vill búa á Íslandi, taka þátt í samfélaginu og læra undarlega málið okkar. Það er fáránlega fíflalegt að fólki sé vísað frá þegar okkur skortir fólk. Gott fólk. Og svo vill til að flest fólk er einmitt ljómandi gott. Við höfum ekkert að óttast.