Næst þegar bók eftir mig fær slæma gagnrýni fyrir slæleg vinnubrögð ætla ég að bregðast skjótt við og skrifa langa grein um allt það sem ég hafi einu sinni heyrt um viðkomandi gagnrýnanda í boði einhvers staðar austur eða vestur í bæ. Ég mun iða í sætinu af innri ánægju, eins konar andlegri fullnægju, meðan ég fróa sjálfri mér með því að tína til hitt og þetta sem mig minnir, þrátt fyrir rósrauða áfengisþokuna, að einhver hafi sagt þarna í boðinu um gagnrýnandann.
Sagði ekki einhver að hann væri algjör toppari, maður sem þyrfti alltaf að toppa síðasta ræðumann? Hann reyndi meira að segja að toppa mig þarna í boðinu, nánast eins og hann vildi þurrka burt þá staðreynd að ég hef ýmislegt – já, raunar ansi margt, gott ef ekki meira en flestir – til málanna að leggja. Ég er ekki frá því að hann sé annaðhvort með bullandi minnimáttarkennd gagnvart snilli minni eða hreinlega ... já, hreinlega, að hann beri til mín kynferðislegar kenndir. Því af hverju ætti hann annars að pota stöðugt í það sem ég segi og geri?
Topparinn!
Þvílík glimrandi orðheppni. Fólk á eftir að engjast um af hlátri og skála fyrir mér í huganum. Ef mér verður þá ekki um megn að klára greinina eftir annan eins hápunkt.
Ævintýralegt uppátæki
Að öllu gríni slepptu þá beið ég þess í ofvæni að toppara-grein núverandi forsætisráðherra um Kára Stefánsson fengi sinn sess í áramótaskaupinu. Ósköp einfaldlega vegna þess að uppátækið toppaði svo mörg önnur óskiljanleg uppátæki í stjórnarráðinu síðastliðin ár. Það var svo einstakt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hlýtur óneitanlega að teljast vera toppari ársins 2015.
Tiltækið er svo undurfurðulegt að ég er viss um að annað eins myndi fljótt afla stjórnmálamanni frægðar í ýmsum öðrum löndum. Ég á erfitt með að ímynda mér Angelu Merkel svara gagnrýni borgara á innviði samfélagsins með opinberri níðgrein um hvað ónefndir og jafnvel rallhálfir kunningjar hennar hafi eitt sinn sagt um téðan borgara í boði einhver staðar í iðrum Mitte.
Forsætisráðherra Íslands lagðist svo lágt að svara gagnrýni vísindamanns og hámenntaðs læknis á heilbrigðiskerfið með rógi og dylgjum um þann sem skrifað hafði greinina. Athæfi sem segir óþægilega margt um hann sjálfan, fyrir nú utan það að greinin var með því kjánalegra sem sést hefur á prenti á Íslandi og er þó af nógu að taka.
Rödd þjóðar
Á sama tíma og forsætisráðherrann skemmtir sér við að níða skóinn af þeim sem gagnrýna stofnanir og fjárlögin berst Ríkisútvarpið í bökkum, stofnunin sem á að verja okkur, alla þjóðina, fyrir misvitrum stjórnmálamönnum með því að vera sá staður þar sem allar raddir fá að mætast í einni rödd: Rödd þjóðar.
Rödd Kára Stefánssonar er ein af þessum óteljandi röddum sem þurfa að fá að heyrast, rétt eins og rödd Bjarkar Guðmundsdóttur sem fékk að heyra að hún væri grunsamlega dauf til augnanna þegar hún gagnrýndi aðfarir valdafólks í náttúru Íslands.
Svar ríkisstjórnar Íslands er ósköp einfalt: Á Íslandi er allt í fínu standi, ef einhver efast um það er viðkomandi annaðhvort dópisti eða taktlaus toppari í partíum.
Að útrýma röddum
Satt að segja held ég að þessi aðferð ráðamanna til að þagga niður í óþægilegum röddum geri ekkert nema efla bæði Björk og Kára til frekari dáða – og ugglaust ýmsa aðra. En á móti kemur að skilaboðin eru þessi: Ef þú ætlar að gagnrýna ríkisstjórnina færð þú að heyra ýmislegt óþægilegt um þig.
Því skal engan undra að þessir sömu ráðamenn sjái svart þegar pallborð almennings, Ríkisútvarpið, ber á góma. Hlutlaus vettvangur fyrir samtal þjóðar jafngildir nefnilega áróðursmaskínu í hugum þeirra. Allt sem á ekki rekstur sinn undir peningamaskínum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er áróður gegn þeim sem þola ekkert nema fjölmiðla sem eru reiðubúnir til að selja ömmu sína, aftur og aftur, svo Sigmundur Davíð geti setið áfram í stjórnarráðinu og dundað sér við að skrifa hver hafi sagt hvað um hvern í einu af öllum þessum partíum sem hann hefur einhvern tímann farið í.
Hvernig samfélag viljum við vera?
Við stöndum á tímamótum, nauðbeygð til að taka afstöðu.
Ætlum við að búa í samfélagi þar sem allar raddir þora að láta í sér heyra og hafa til þess vettvang? Ætlum við að búa í samfélagi þar sem allir sjúkir, fatlaðir og aldraðir geta treyst á að hljóta góða læknisþjónustu; bestu mögulegu fagmennsku, mannsæmandi tækjabúnað og lyf á pari við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar? Ætlum við að umgangast náttúru Íslands af virðingu eða nýta allar hennar auðlindir til að fjármagna Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins?
Þessi mál virðast í fljótu bragði óskyld en þau eru nátengd. Þau snúast um stoðir samfélagsins. Ef þeir sem fara með völdin eru virkilega svo óskammfeilnir og skammsýnir að níðast á fjölmiðlum og fólki sem gagnrýnir stofnanir samfélagsins, þá er hætt við að einn daginn verði ekkert eftir á Íslandi nema ein stór verbúð.