Ef útskýra þarf fyrir erlendum gestum hvað það er sem hreyfir mest við Íslendingum þegar kemur að málefnum líðandi stundar er svarið einfalt. Það er ekki staðan í heilbrigðiskerfinu, fátækt, misskipting gæða, óþolandi staða í húsnæðismálum, endureinkavæðing fjármálastofnana, greiðsla fyrir nýtingu sameiginlegra auðlindra eða hvort skemma eigi fleiri landsvæði með virkjunum. Það er ekki einu sinni spurningin um hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið, hún er aðeins rædd á flokksskrifstofu Framsóknarflokksins þessa dagana, en þar á bæ óttast menn ekkert meira. Nei, það sem er stærsta hreyfiafl íslenskrar umræðu er malbikuð ræma í Vatnsmýrinni, ein flugbraut af þremur, þriðja flugbrautin.
Þegar kemur að þeirri spurningu hvort flugvöllur eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni hverfur allt sem heitir yfirvegun og stór skammtur af skynseminni fer með. Þeir sem vilja nýta það mikla landflæmi sem er í Vatnsmýrinni í annað en flugtök og lendingar eru á móti landsbyggðinni, þeir vilja stefna heilsu landsbyggðarfólks í voða, þeir vilja að veik börn á landsbyggðinni deyi.
Nú er ég landsbyggðartútta að upplagi, tíu af fyrstu 14 árum ævi minnar bjó ég á Dalvík og Siglufirði og hef mikinn skilning á sjónarmiðum þeirra sem búa ekki á höfuðborgarsvæðinni. Þau sjónarmið eru reyndar á engan hátt einsleit, eins og sumir vilja ætla, það er ekki þannig að þegar komið er í gegnum Hvalfjarðargöng hugsi allir eins. En þeir sem tjá sig um Reykjavíkurflugvöll telja sig hins vegar handhafa hins stóra sannleika þegar kemur að sjónarmiðum ansi stórs hluta þjóðarinnar.
Stundum er ekki annað hægt en hrista hausinn yfir umræðunni og þeir sem hvað hæst láta þegar kemur að þriðju flugbrautinni ættu að hafa í huga að oflof er háð og oflast lof. Þetta er einfaldlega mál þar sem fólk er með ólík sjónarmið, án þess að það þýði að annar hópurinn yppti öxlum yfir lífi og heilsu hins.
Háværustu rökin fyrir blessaðri þriðju flugbrautinni er nálægðin við Landspítalann. Nú er það reyndar þannig að annar ríkisstjórnarflokkurinn vill færa Landspítalann og byggja upp nýtt hátæknisjúkrahús einhvers staðar, ég veit ekki alveg hvar. Það hlýtur væntanlega að þýða að þriðja brautin fylgi með, eða hvað? Eða eru menn sáttir við að flugvöllurinn fari ef spítalinn fer?
Hafandi búið á Norðurlandi og þekkjandi fólk allstaðar að af landinu veit ég að ansi víða býr fólk við þær aðstæður að ef það veikist þarf að flytja það um langan veg áður en á sjúkrahús er komið. Það er auðvitað alvarlegt mál, en hluti af mun stærra máli sem er almenn þjónusta á landsbyggðinni og ábyrgðin er stjórnvalda, ekki borgarstjórnar Reykjavíkur heldur ríkisstjórnar og Alþingis. Þar hefur köldu raunsæi verið beitt og kostnaðarmati, ákveðin þjónusta er aðeins veitt þar sem búa fleiri en x manns, og vandséð hvernig hægt er að gera það öðruvísi. Það raunsæi er hins vegar víðsfjarri þegar kemur að málefnum Reykjavíkurflugvallar; þar viltu annað hvort bjarga mannslífum eða ekki.
Kæri borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, (hér mundi ég tagga þig ef ég væri að skrifa á Facebook), hér er hugmynd til þín frá mér: Hvernig væri ef borgarstjórn gæfi bara eina þyrlu í hvern landsfjórðung svo tryggja mætti sjúkraflug betur (svona þar sem heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn virðast ekki telja það sitt mál). Vissulega kostar það mikið, en sú upphæð er dropi í hafið þegar kemur að ávinningnum af því að byggja upp í Vatnsmýrinni.
Reyndin er hins vegar sú að þeir sem vilja flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni eru einfaldlega að horfa til fleiri þátta en nálægðar við spítalann (sem kannski er að fara). Umhverfissjónarmið skipta þar miklu, það er umhverfismál að teygja ekki enn frekar úr byggðinni í Reykjavík heldur þétta hana, endalausar raðir bíla á álagstímum (sem alltaf eru að lengjast), spúandi sínu eitri út í andrúmsloftið. Það er mikið á sig leggjandi til að draga úr því.
Þriðja brautin. Með réttu ætti þetta að vera heiti á skáldsögu eftir Yrsu Sigurðardóttur, en þetta er orðið helsta baráttumál stórs hluta landsmanna. Og reyndar ekki, því þeir hafa gengið svo langt að nú er búið að skella á malbiksræmuna viðeigandi heiti sem hæfir Alistair MacLean: Neyðarbrautin.
Skoðum nú í rólegheitunum hvað er skynsamlegast að gera í þessu eilífðarmáli þarna í Vatnsmýrinni. Ef hægt er að finna flugvellinum annan stað, þá er hið besta mál að flytja hann, nægur er ávinningurinn. Nú ef þetta er eina svæðið þar sem hægt er að lenda fugvélum á höfuðborgarsvæðinu þá er málið dautt.
P.s. Ég vil í raun ekki að veik börn á landsbyggðinni deyi. Þeir sem telja að hjartað í Vatnsmýrini slái undir malbikaðri lendingarræmu munu hins vegar lesa það út úr þessum pistli og sanna þar með mál mitt.