Auglýsing

Síðasta miðvikudagskvöld sá ég Njálu í Borgarleikhúsinu. Þeirri kvöldstund var vel varið. Þarna var hún, erkisagan um okkur, í allri sinni dýrð. Gullslegin, blóðug, ægifögur, ljót, stór og lítil, hamslaus, óskiljanleg en samt svo borðleggjandi. Og það sem meira er, hún á erindi við okkur. Þetta er nefnilega sagan um okkur. Sagan um frændhyglina, þrasið, flokkadrættina, partíin sem enda með skelfingu. Saga um þrá okkar á viðurkenningu í útlöndum. Sagan um drambið, snilldina, stoltið, breyskleikann og hvernig við, sem annars erum alltaf að þrasa, þjöppum okkur saman og göngum í takt þegar til þess er ætlast. Og mitt í öllum hamaganginum er hún þarna ljóslifandi, Njálssaga. Sagan um erjurnar.

Sem betur fer erum við að mestu hætt að höggva hvert annað í herðar niður. En þrasið stendur enn yfir. Á það vorum við rækilega minnt í síðustu viku þegar Alþingi, það sama og þar sem Gunnar leit Hallgerði langbrók augum fyrst, kom saman aftur að loknu jólahléi. Og þrasið ómaði fréttatíma eftir fréttatíma og bergmálaði á samfélagsmiðlunum. Efnivið í gott þras er víða að finna, því samfélag okkar stendur frammi fyrir ýmsum vanda. Heilbrigðiskerfið er fjársvelt (en hvaðan koma þessi 11%, eigum við að þrasa soldið um það?) Við, sem önnur ríki heims, þurfum að axla ábyrgð á flóttamannavandanum. Lífeyrisþegar búa við bág kjör. Húsnæðismálin eru í tómu tjóni og á ég að nefna bleika fílinn í stofunni, krónuna? Og kannski, svona fyrst ég er byrjuð, vandræðin í lögreglunni, Borgunarmálið, yfirvofandi sölu bankanna, fjármálaráðherrann sem skilur ekki hugtakið samfélagsbanki og TISA-samningana. Það er nóg að ræða. 

Í stað þess að ráðast á stabbann og fara að leysa málin hófst Alþingi með þrasi um hvort selja skuli áfengi í matvöruverslunum. Ég verð að viðurkenna að ég hef ákveðnar skoðanir á því máli. Ég verð líka að viðurkenna að þar er ég í minnihluta. Langflestum er nefnilega alveg sama hvort áfengi fáist einkum í sérverslunum ríkisins eða í matvörubúðum. Þeim sem er ekki sama virðist ýmist finnast það tákn um hið fullkomna frelsi að geta keypt Euroshopper-bjór í Bónus eða vera sannfærðir um að áfengi í matvörubúðum sé bein leið til glötunar. Engin millileið virðist í sjónmáli og fjölmiðlar greina frá tölfræðilegum upplýsingum eins og ekkert sé internetið og ómögulegt að kanna sannleiksgildi nokkurra hluta. Það er einna helst að einstaka bloggari leggi á sig örlítið gúgl. Og pólarnir eru allt eða ekkert og heil helvítisgjá þar á milli. Ekki nokkrum manni dettur í hug að athuga hvaða lausnir hafa fundist á málinu í öðrum löndum né hvernig þær hafa gefist. Öll umræðan er í ökkla eða eyra. Og við, við erum orðin svo þreytt á þessu. 

Auglýsing

Vinna í stjórnmálum er mesta þolinmæðisverk sem ég hef kynnst. Ef eitthvað þokast áfram er það sennilega vegna þess að það er vandræðalega tímabært eða að það gerist alveg óvart og jafnvel fyrir slysni. Jafnvel góðu málin sem allir eru í raun sammála um, eru tekin í gíslingu og notuð sem skiptimynt í hinu eilífa málþófi sem virðist hafa fest rætur á Alþingi. Við erum lítið land með fáa þingmenn. Samt tala alþingismenn lengur er starfsbræður þeirra og -systur á hinum Norðurlöndunum þar sem þingmenn eru margfalt fleiri. Á stórum þingum koma menn sér saman um lengd umræðunnar fyrirfram og svo skipta þingmenn með sér verkum innan flokka svo öll sjónarmið flokksins komi örugglega fram. Á Íslandi er pontan nánast ónýt sem samræðuvettvangur því ógjörningur er að greina það sem skiptir máli frá málþófinu. Það sest enginn þingmaður inn í þingsalinn til að hlusta á óendanlega langar umræður þar sem afar ólíklegt er að nokkuð nýtt komi fram. Slíkt væri einfaldlega óábyrg nýting á dýrmætum tíma. 

Samt er hugmyndin um þing frábær. Þegar best lætur er þingið staður þar sem einn talar í einu og aðrir hlusta. Fólk skiptist á skoðunum, skoðar öll gögn og finnur bestu lausnina á brýnum vanda, oft með málamiðlun. Þing snúast um svo miklu meira en að greiða atkvæði, með eða á móti, eða afgreiða allt sem frá ríkisstjórninni kemur, nánast án umræðu. 

En okkar þing er lasið. Það er álíka lasið og fjórflokkurinn sem þar ræður ríkjum og hefur aldrei mælst veikari en í síðustu könnun MMR. Og þingmenn halda áfram að þrasa sig og flokkana sína í gröfina. Skýr krafa um kerfisbreytingu blasir við en forsætisráðherra er upptekinn við að raða húsunum í miðbænum upp á nýtt á meðan stjórnarskrárnefndin hans er um það bil að komast að sögulegum sáttum um ekki neitt. 

Og við hin, við tuðum líka. Okkar vettvangur eru samfélagsmiðlarnir þar sem Algrímur Sykurbergur er umræðustjóri og sér til þess að við sjáum æ sjaldnar þá sem eru ósammála okkur. Algóritmarnir sýna okkur bara viðhlægjendur okkar og eftir því sem við lækum og deilum meira verða þeir snjallari í að sýna okkur bara það sem við erum sammála. Góða fólkið hættir að sjá þjóðernissinnana og Schengen-hatarana. Antisportistar sjá ekki fótboltabullurnar og sumir sjá bara afmælisbörn og sæta kettlinga. Þannig lagast heimsmyndin að því sem við viljum sjá. Við hættum að takast á með rökum við þá sem við erum ósammála því við hættum að rekast á þá á samfélagsmiðlunum þar sem umræðan fer fram og þeir verða að lokum bara eins og óljós minning þar til þeir dúkka upp í formi virkra í athugasemdum, innhringjenda á Útvarp Sögu eða ... það sem er kannski óumflýjanlegt, sem heilt stjórnmálaafl sem félli í ljúfan jarðveg. Því þótt mörgum okkar þætti málflutningurinn sennilega óhugnanlegur væri hann þó allavega um alvöru mál. Og góða fólkið ætti engin ráð enda er það upptekið við að þrasa um eins lítilfjörleg málefni og bús í búðir. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiSleggjan
None