Ísland stóð á ákveðnum núllpunkti 7. október 2008. Allir sem voru nógu gamlir til að geta talið á sér tærnar muna nákvæmlega hvar þeir voru þegar forsætisráðherra bað guð að blessa Ísland. Eftirá að hyggja var öllum ljóst í hvað stefndi löngu áður en til kastanna kom. Eðlislægir svartsýnismenn hálfpartinn fögnuðu þessum löngu tímabæru endalokum uppsveiflunnar. Tími mótlætis var loksins kominn aftur. Það er eins og íslensk þjóðarsál kunni betur við sig með vindinn í fangið; hrímað skegg og hausinn í bringuhæð upp í vindinn. Sólarstrendur, sandalar og sangríur eru fyrir aumingja.
Það er langt liðið frá 7. október 2008. Börnin átján sem fæddust þennan örlagaríka dag eru í öðrum bekk og hafa, eins og forsætisráðherra benti á í helgarspjallþætti í útvarpi fyrir misseri eða svo, aldrei kallað „flatskjá“ annað en sjónvarp. Þrátt fyrir það heyrast enn raddir um að hér geti allt farið á hliðina að nýju. Það versta við það er að ég er að mörgu leyti tilbúinn að trúa því. Ég tek smá kipp í hvert sinn sem ég les frétt sem spáir heimsendi með hægari hagvexti í Kína og, ólíkt öllum eldsneytisháðu samlöndum mínum, fagna ekki sífellt lækkandi olíuverði af ótta við að það sé í raun einhverskonar alheimshitamælir á heilsufar heimshagkerfisins. Að skjólið sem við búum við sé í rauninni svikalogn sem endar með trampólínum fjúkandi út um allt.
Óttinn er því ekki eins og í hefðbundinni hryllingsmynd, þar sem aðalpersónan óttast hnífamorðingja af holdi og blóði í öllum illa lýstum herbergjum, heldur miklu frekar kosmískur ótti í anda H.P. Lovecraft, nema við hagkerfi frekar en hálfguðlegar verur. Hagkerfi eru eitthvað sem einn lítill ég hef ekkert um að segja.
Þrátt fyrir það verður óttinn óraunverulegri með hverju árinu því hagtölur benda sterklega til þess að hér sé allt á réttri leið - sem gerir óttann bara enn raunverulegri. Rétt eins og á árunum fyrir hið svokallaða hrun, þegar allt lék í lyndi, hrönnuðust óveðursskýin upp. Og svo virðist sem þau ættu að gera það aftur núna, er það ekki?
Í fljótu bragði virðist svo ekki vera. Kaup- og veitingamenn segja margir jólavertíðina hafa verið þá eðlilegustu í langan tíma og að stemningin sé ekki eins og var fyrir dómsdag heldur einhvernveginn eðlilegri - þar sem fólk versli ekki í þeim tilgangi einum að vera hundraðþúsundkalli flottari en náunginn heldur af því það hefur raunverulega tök á því. Helsta sókn Íslands er ekki í ofurskuldsettum bankageira heldur ferðamennsku. Jafnvel þótt heimshagkerfið fái kvef er ekki líklegt að sú rúma milljón ferðamanna sem kemur hingað á hverju ári muni hverfa. Eins og Greiningardeild Arion banka benti á í fyrra eru helstu dæmin um hrun í ferðamennsku samfara hruns illra heimsvelda (les. Sovétríkjanna) eða sökum gríðarlegs pólitísks óstöðugleika og stríðsástands eins og varð á Balkanskaga. Hvorugt virðist líklegt á Íslandi. Vinnuafl skortir víða og verðbólga er hverfandi.
Þrátt fyrir það kemst ég ekki hjá því að stíga varlega til jarðar. Frekar en að spila rúllettu við íslenska hagkerfið, leikur sem allir tapa, og taka verðtryggt húsnæðislán á tímum engrar verðbólgu tek ég ekki annað í mál en óverðtryggt lífeyrissjóðslán með sjö prósent vöxtum. Þrátt fyrir allt ættum við að hafa fyrir löngu séð að „forsendubrestur“ getur ekki orðið á verðtryggðum lánum, því við vitum að verðbólga getur farið upp í hið óendanlega, og því verður engin „leiðrétting“ eftir næsta hrun. Hæfilegur varasjóður og séreignarsparnaður eru hlutir sem fylla mig undarlegri vellíðan og vitneskja um það að ríkissjóður sé hægt en örugglega að greiða niður skuldir sínar gerir mig spenntari en ég kæri mig um að viðurkenna. Fyrir það eiga stjórnvöld lof skilið. Í framhjáhlaupi er rétt að draga fram að ríkissjóður greiðir yfir 70 milljarða - 70.000.000.000 króna - í vexti á hverju ári, miklu meira en ríkið leggur í rekstur Landspítalans ár hvert. Lækkun þessa tilgangslausa kostnaðar ætti að vera öllum keppikefli.
Þó svo að sem stendur virðist fátt benda til að endurkoma hrunsins sé í vændum er ekkert sem segir að það sé ekki rétt að hafa hugann við að allt gæti farið á versta veg. Ekki kaupa nýjan Range Rover fyrir hreinræktaða púðluhundinn þinn, ekki skuldsetja þig upp að augasteinum til að endurnýja eldhúsið og láttu einn sumarbústað í Grímsnesinu duga. Því jafnvel þótt ekki komi til kollsteypu á allra næstu árum er aldrei verra að hafa vaðið fyrir neðan sig.
Jafnvel við þær aðstæður sem nú eru uppi, þar sem fátt bendir annað en upp, eru alltaf einhverjir sem spá undantekningalaust óförum. Einhverjir þeirra kunna að hafa rétt fyrir sér. Einhver þarna úti kann að hafa séð fyrir hvernig ólýsanlega flóknar fléttur og séð fyrir hvenær og hvernig Nýja Ísland mætir Nýja Nýja Íslandi. Hér verður aftur hrun og #HérVarðHrun kemst loksins á flug aftur. En þangað til þessi snillingur stígur fram með sannanir fyrir gríðarlegri skortsölu sem hann hefur lagt grundvöllinn að á tilteknum tímapunkti í kjölfar þessa hruns sem hann spáir ætla ég, af hæfilegri varkárni, að leyfa mér að trúa að við getum búið við sígandi lukku, allavega í nokkur ár í viðbót. Að hafa áhyggjur er nefnilega jafnlíklegt til árangurs og að tyggja tyggjó er til að leysa flókin stærðfræðidæm.