Fyrir áhugafólk um mannlegt eðli hefur verið hreinn unaður að fylgjast með viðbrögðum ráðherra við undirskriftarsöfnun Kára Stefánssonar. Framan af einkenndust viðbrögðin af hroka og hálfkæringi, hver væri Kári að láta eins og honum kæmi málið eitthvað við, ekki er hann einn af vel gerðum ráðamönnum þessa lands! En eftir því sem fleiri skrifa undir hjá Kára hafa ráðherrarnir séð sitt óvænna og þurfa að taka á þessari óværu með öðrum hætti. Kári er eins og fulli gaurinn á Dylan-tónleikum sem heimtar stöðugt Blowing in the Wind, fyrst einn og hjáróma en með einskærri staðfestu tekst honum að fá hálfan salinn til að hrópa með sér. Og við því þarf að bregðast.
Kári er vinur minn
Auðmýktin er ekki sterkasta hlið ráðherranna okkar. Þeir eiga einfaldlega mjög erfitt með það þegar einhver er þeim ósammála, hvað þá ef viðkomandi skrifar ekki upp á að Ísland undir stjórn Sigmundar Davíðs, Bjarna og kó sé besta land í heimi, að jafnvel mætti gera eitthvað öðruvísi í landstjórninni. Ef gagnrýnandinn er úr öðrum stjórnmálaflokki má bóka að honum er mætt með vísun í hvað hann og hans flokkur hafi nú gert einhvern tíma, eða ekki gert, eða hafi ekki talað um að gera, sem sé nú aldeilis ekki skárra, raunar umtalsvert verra, en það sem ráðherrar séu sakaðir fyrir. En í tilfelli Kára versnar staðan og því hafa ráðherrarnir þurft að grípa til nýrra vopna.
Og þá versnar málið, því þá þarf að taka sjálfstýringuna af.
Kristján Þór Júlíusson, ráðherra heilbrigðismála, hefur tekið þann pólinn í hæðina að vera hæstánægður með undirskriftasöfnunina. Það er nokkuð djörf áætlun, ekki síst í því ljósi að hann ber ábyrgð á málaflokknum og undirskriftasöfnunin snýst jú um að honum hafi ekki verið stýrt nægilega vel.
„Þetta styrkir mig að sjálfsögðu í þeirri vinnu sem mér ber að sinna til að leita leiða til að fjármagna heilbrigðisþjónustuna,” sagði Kristján Þór í samtali við Kjarnann á dögunum. „Og söfnunin undirstrikar þá alvöru sem er í umræðunni um þennan málaflokk.”
Látum vera að það hafi þurft undirskriftir tugþúsunda til að ráðherra heilbrigðismála áttaði sig á alvörunni sem er í umræðunni um þann málaflokk. Hitt er öllu athyglisverðara hvað Kristján tekur undirskriftarsöfnuninni fagnandi. Fyrst söfnunin styrkir hann í baráttunni fyrir málaflokkinn hlýtur honum að vera akkur í að söfnunin verði sem fjölmennust. Þeim mun fleiri undirskriftir, þeim mun meiri styrkur.
Í raun er ráðherra heilbrigðismála að hvetja sem flesta til að skrifa undir undirskriftarsöfnun sem beint er gegn, eða til, ráðherra heilbrigðismála.
Verra var þó þegar Kristján Þór sagði á þingi í gær að ástandið í heilbrigðismálum yrði ekki lagað eins og hendi væri veifað. Það vissu allir. En nú hefur Kristján Þór verið ráðherra í bráðum þrjú ár og hann má vera heimsins mesti veifiskati ef hann þarf þriggja ára ferli í að veifa hönd sinni.
Blautt þinggólf
Bjarni Benediktsson tók að einhverju leyti sama pólinn í hæðina. Sagðist vera sammála Kára, nokkuð sem kallaði bara á enn eina svargreinina þar sem Kári hirti ráðamenn. Enda er það náttúrulega galið að fjármálaráðherra, maðurinn sem leggur fram fjárlög hvers árs þar sem meðal annars er kveðið á um framlög til heilbrigðismála, segist í raun sammála þeim sem vilja snarauka útgjöld til heilbrigðismála. Gerðu það þá, maður, ef þú ert svona sammála.
Bjarni, og að nokkru leyti Kristján Þór, eru dálítið eins og miðaldra kall sem reynir eftir fremsta megni að blanda geði við unga fólkið. Þeir eru ekki með nýjustu frasana, þeirra tilheyra annarri kynslóð, og þó buxurnar séu þröngar á réttum stöðum og þeir kunni textabrot með Júlí Heiðari er þetta samt ekki alveg í lagi (þessi setning er einmitt dæmi það sem um er rætt, þegar pistlahöfundur reynir að lýsa því hvernig ungt fólk er, til að hæðast að öðrum sem reyna að líkjast því, án þess að vita það í raun sjálfur) og þó þeir hafi keypt þennan umgang á Austur þá vildu þeir helst vera í jakkafötunum sínum á Rótary-fundi.
Endurreisnartímabilið
Og svo er það Sigmundur Davíð. Um hann má eyða mörgum orðum, en engin þeirra komast þó í hálfkvist við það sem hann sjálfur segir. Hann slær kaldhæðnisvopnin úr höndum allra, þar sem sú staðreynd að hann er æðsti ráðamaður þjóðarinnar er hin fullkomna kaldhæðni.
En á meðan ráðamenn munnhöggvast við Kára, þykjast vera sammála Kára, guma sig af því að hafa gert meira en Kári vill að þeir geri, eða reyna að gera grín að Kára - á meðan ráðamenn reyna sitt besta til að þjóðin heyri ekki hróp Kára um að þeir séu ekki í neinum fötum - þá þarf að koma sjúklingum fyrir á göngum og salernum eða senda í önnur kjördæmi.
Og sjúklingum er alveg sama um hvort ráðamenn eru sniðugir í að díla við undirskriftarsöfnunina, þeir vilja að ráðamenn hætti að tala, eða stama, og komi sér að verki og endurreisi heilbrigðiskerfið.