Refsing er sú þjáning eða böl, sem ríkisvald beitir þann, sem sekur er um refsivert brot, í þeim tilgangi m.a. að skapa manni þeim, er sætir viðurlögum, sérstakt aðhald um að fremja ekki afbrot að nýju, svo og til að skapa öðrum út í frá varnað í þessu efni.
Svo skilgreinir Ármann Snævarr heitinn, fyrrum rektor Háskóla Íslands og Hæstaréttardómari, refsingu. Stjórnarskrá Íslands vísar til refsinga en hvergi í íslenskum lögum er skilgreint hver tilgangur refsinga sé. Settar hafa verið fram ýmsar kenningar um gildi þess að beita refsingum og því meðal annars haldið fram að nauðsynlegt sé fyrir ríkið að geta refsað þeim sem brjóta gegn lögum til að viðhalda þjóðfélagsskipaninni. Líkt og í tilvitnuninni hér að ofan er því almennt haldið fram að áhrif refsinga séu bæði sérstök, þ.e. fæli þann sem brotið framdi frá því að brjóta af sér aftur, sem og almenn, þ.e. fæli menn almennt frá því að fremja afbrot. Reyndar benda fjölmargar rannsóknir um allan heim til þess að varnaðaráhrif jafnvel stórlega þyngdra refsinga séu vart merkjanleg, en það verður látið liggja á milli hluta að sinni. Umræða um viðhorf til fanga og fyrrum fanga er að mörgu leyti eldfim, ekki síst vegna þess að hver glæpur er einstakur og skilur eftir sig sár. Þá eru einnig tilvik þar sem markmið fangelsisvistar er hvorki betrun né möguleg varnaðaráhrif heldur er ástæðan sú hætta sem samfélaginu stafar af viðkomandi einstaklingi. Í þessum pistli verður umræðan takmörkuð við þá fanga sem ekki teljast hættulegir öðrum.
Áður fyrr voru tegundir refsinga mun fleiri en þær eru nú, og mátti til að mynda dæma menn til líkamsmeiðingar og dauða. Á Íslandi í dag er fangelsisvist mesta inngrip í líf einstaklings sem ríkið getur leyft sér. Víðtæk sátt er um nauðsyn refsinga í einni eða annari mynd og refsikerfið svo sjálfsagður hluti af samfélagsgerðinni, að það gleymist oft hversu stór ákvörðun það er að svipta einstakling frelsi sínu. Þeim sem kvarta undan því að aðstæður í fangelsum séu of góðar yfirsést sú staðreynd að þjáning fangans á rætur í því að vera ekki frjáls ferða sinna svo mánuðum, árum eða jafnvel áratugum skiptir. Í þeim aðstæðum er velferð fangans á herðum samfélagsins og því sjálfsagt að gera vistina bærilega.
Stjórnmála- og réttarheimspekingurinn Joel Feinberg leggur áherslu á að refsing sé tjáningartæki ríkisvaldsins sem feli í sér samfélagslega fordæmingu. Til þess að hegning geti talist refsing þarf vanþóknun að vera lýst yfir með afgerandi hætti. Mannlegt samfélag hefur alla tíð fordæmt þá sem brjóta gegn ríkjandi lögum og eflaust má færa rök fyrir því að samfélag okkar hafi með tímanum orðið skilningsríkara gagnvart aðdraganda og ástæðum glæpsamlegra brota. En á sama tíma gera tilkoma internetsins og samfélagsmiðla það að verkum að aldrei hefur verið auðveldara að kynda undir almennri fordæmingu glæpa . Í slíkum heimi er nauðsynlegt að spyrja hversu lengi á fordæming samfélagsins að vara?
Bannað að spyrja um sakaskrá í atvinnuumsóknum
Fangar eru oft kvíðnir þegar þeir losna úr fangelsi, ekki síst vegna þess að þrátt fyrir að formlegri refsingu sé nú lokið tekur tekur óformleg refsing samfélagsins oft við í formi útskúfunar og fordóma. Þeir sem hafa afplánað dóm eiga lagalegan rétt á að verða aftur þátttakendur í samfélaginu. En hvers virði eru samfélagsleg réttindi - til dæmis að stunda vinnu og eiga þak yfir höfuðið - ef aðrir samfélagsþegnar eru ekki tilbúnir til að gera fyrrum föngum kleift að halda áfram með líf sitt? Í október síðastliðnum bannaði New York fylki í Bandaríkjunum að spurt væri í atvinnuumsóknum hvort viðkomandi væri á sakaskrá. Þetta þýðir ekki að spurningin megi ekki koma upp í ráðningarferlinu, en banninu er ætlað að koma í veg fyrir að þeim sem brotið hafa af sér sé hafnað strax í upphafi ráðningarferlisins. Vonir standa til að komist fólk lengra í ferlinu séu aftvinnurekendur tilbúnir til að athuga betur hvers eðlis glæpurinn hafi verið og leiti jafnvel útskýringa hjá viðkomandi. Til að skýra eftirfarandi umræðu er nauðsynlegt að gera greinarmun annarsvegar á því að leyfa fyrrum föngum að lifa lífi sínu í friði fyrir kastljósi almennings og hinsvegar þeirri spurningu hvað einstaklingar geti sjálfir lagt af mörkum til að aðstoða fyrrum fanga við að koma undir sig fótunum.
Í fyrra atriðinu felst spurning um hvort réttlætanlegt sé að fyrrum fangar megi ávallt eiga á hættu að afbrot þeirra séu notuð gegn þeim í almennri umræðu, þótt þeir brjóti aldrei af sér aftur. Auðvitað er sjálfsagt að fjalla um fyrri glæpi ef grunur leikur á að viðkomandi hafi brotið af sér á ný, en um leið getur það talist tvöföld refsing ef sá sem einu sinni hefur brotið af sér getur aldrei um frjálst höfuð strokið af ótta við að fortíðin sé dregin upp og rýrð þar með kastað á núverandi störf. Slíkt veldur áframhaldandi þjáningu þótt formlegri refsingu sé lokið, og getur hún varað ævilangt.
Seinna atriðið er töluvert flóknara, þar sem lausn vandans krefst breytni af hálfu ríkisins sem og einstakra þegna þess. Það er ómögulegt og óraunhæft að leggja þá skyldu á hvern einstakling að honum beri að aðstoða hvern fyrrum fanga í öllum tilfellum. Á sama tíma er ákveðin firring í því fólgin að segjast styðja rétt fanga til þess að koma undir sig fótunum á ný en telja það vera á ábyrgð samfélagsins en ekki manns sjálfs - því samfélagið er jú ekkert annað en samsafn þegnanna. Ríkið getur aðstoðað fyrrum fanga við aðlögun en það getur ekki skikkað samfélagsþegna til að mynda félagslegt stuðningsnet. Þar er brotalöm, fyrrum fangar og fjölskyldur þeirra einangrast félagslega og eiga oft erfitt uppdráttar í sínu nánasta umhverfi. Þetta á ekki síst við í litlu samfélagi eins og Íslandi þar sem fréttir berast fljótt manna á milli.
Helgar tilgangurinn þjáninguna?
Að sýna öðrum skilning getur verið erfitt. Raunar svo erfitt að það hefur verið umtalsefni heimspekinga og fræðimanna í árþúsund. Skilningur á misgjörðum annarra kemur ekki af sjálfu sér, hann kallar á ákveðna breytni hjá hverjum og einum. Manneskjan er breysk og sú tvíhyggja, að fólk sé annaðhvort gott eða slæmt í eðli sínu, á sjaldnast við. Gott fólk gerir slæma hluti og það er ávinningur samfélagsins að fólk verði virkir samfélagsþegnar á ný að lokinni refsingu.