Auglýsing

Það er eitthvað framandi en þó svo kunnuglegt við fréttaflutning síðustu daga. Það er allt á uppleið. Árangur áfram, ekkert stopp! En samt fær maður sting í hjartað.

Landið fyllist af ferðamönnum en við höfum ekki haft tíma til að búa til skilti svo þeir fari sér ekki að voða eða smíða skynsamlegt regluverk í kringum greinina. Á meðan enginn er náttúrupassinn, bílastæða- eða komugjöldin – enda íslensk náttúra ókeypis og því einskis virði – kemur ekki til greina að ráða landverði á hættulega staði. Fólk verður bara að læra að passa sig! 

Bankarnir eru á blússandi siglingu. Græddu 108 milljarða á síðasta ári.  Alls eru þeir búnir að græða tæpa 500 milljarða frá því við þurftum að bjarga þeim, því í matadorhagkerfinu okkar geta þeir sem komu okkur um koll grætt mest á hruninu. Þetta tekst þeim þrátt fyrir að verðmætar eignir eins og Borgun séu seldar vildarvinum á gjafvirði. Bankastjóri Landsbankans segist reyndar ekki hafa gert það viljandi, hann hafi fengið upplýsingar frá fjármálafyrirtæki og treyst þeim. Nú ætti hann að skilja hvernig öðrum landsmönnum líður. Kominn tími á bónusana aftur? Þetta er náttúrulega undraverður „árangur“ enda hafa bæði Íslandsbanki og Arion þegar gjaldfært 2,4 milljarða í „árangurstengdar greiðslur“ til starfsmanna. Á meðan borgum við hin bara af verðtryggðu lánunum okkar og hæstu vexti sem sést hafa á byggðu bóli. Og guð hjálpi þeim sem eru á leigumarkaði. 

Auglýsing

Og sjávarútvegurinn. Í fyrra græddi HB Grandi ríflega fimm milljarða á því að veiða fisk á Íslandsmiðum sem er lögum samkvæmt sameign íslensku þjóðarinnar! Eigendur þessa eina fyrirtækisins borga sér þrjá milljarða í arð á meðan eigandi auðlindarinnar fær bara einn milljarð í veiðigjald. Sanngjarnt? 

Á sama tíma fáum við fréttir af því að börn með geðrænan vanda fái ekki þá þjónustu sem þeim ber. Þau geta til dæmis þurft að bíða í upp undir eitt og hálft ár til að komast að hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Ef maður er sex ára jafngildir það fjórðungi ævinnar. Og með hverjum deginum sem líður kann vandi barnsins að vaxa og stundum missum við hreinlega af tækifærinu til að leiða börnin á rétta braut. 

Við fengum líka fréttir af því að Landspítalinn væri myglaður. Flest vissum við það reyndar  fyrir en það voru nýjar fréttir fyrir mig að nýbakaðar mæður sem þjást af fæðingarþunglyndi og nýfæddu börnin þeirra væru einmitt höfð í sérlega myglaðri byggingu þar sem helsti samverustaðurinn er þar að auki gluggalaus. 

Háskólarnir okkar eru undirfjármagnaðir, það var líka í fréttum. Þeir standa samanburðarskólum á hinum Norðurlöndunum og í öðrum ríkjum sem við berum okkur saman við langt að baki þegar kemur að opinberum fjárveitingum. En Ísland er auðvitað í grunninn verstöð og það hentar atvinnulífinu ekkert endilega að landsmenn mennti sig um of. 

Draumurinn um nýtt Ísland

Eftir hrunið eygðu mörg okkar tækifæri til að byggja landið okkar aftur upp í nýrri mynd. Við vildum meira lýðræði, manneskjulegra samfélag, réttlæti, heiðarleika, virðingu og ábyrgð. Og við vildum sjálf fá arðinn af auðlindunum okkar. Farið var í margvísleg verkefni sem áttu að skapa betra samfélag. Skýrasta dæmið var ný stjórnarskrá, samin af þjóðinni í einstöku ferli sem vakið hefur verðskuldaða athygli víða um heim. 

Séríslensk blanda af svikum, hugleysi og undirlægjuhætti varð til þess að nýja stjórnarskráin okkar tók ekki gildi. Það var ekki vegna þess að fólki fyndist hún ekki skipta máli. Aðspurðir svöruðu kjósendur því til í könnunum að hún skipti máli. Hún skipti hins vegar ekki mestu máli heldur var svona í þriðja eða fjórða sæti. Okkur, sem vildum breyta kerfinu, mistókst nefnilega að tengja nýju stjórnarskrána við daglegt líf fólks, aðstæður þess og budduna. 

Samt er ekkert eitt sem við gætum breytt sem hefði meiri áhrif á líf okkar og aðbúnað en eitt lítið en þó svo stórt ákvæði í nýju stjórnarskránni. Auðlindaákvæðið sem kveður á um að auðlindir sem ekki eru í einkaeigu séu sameiginlega og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar og að þær megi aðrir ekki nýta nema gegn fullu gjaldi og í takmarkaðan tíma í senn. Þetta þýðir að fiskveiðikvótinn yrði að fara á markað og útgerðin fengi sjálf að ráða hvað hún vildi borga fyrir veiðiheimildirnar. Og stjórnmálamenn þyrftu að hætta að gefa orkuna. Við getum líka velt fyrir okkur hvort ferðaþjónustufyrirtækjunum væri heimilt að selja ferðir til okkar helstu náttúruperla án þess að greiða okkur eðlilegt gjald fyrir það.

Allir stjórnmálamenn tala eins og brýnt sé að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrána og allir stjórnmálaflokkar hafa haft það á stefnuskránni. Og einmitt þessa dagana berast okkur fréttir af því að stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra hafi sent frá sér þrjú ákvæði til breytingar á þeirri gömlu. Hugsanlega fáum við að kjósa um þau 29. febrúar að ári. Eitt þessara ákvæða er um auðlindirnar. RÚV greindi frá því að forsætisráðherra teldi víðtækan vilja til samkomulags: „Ég held að það sé mjög æskilegt að nota tækifærið til þess að klára þarna nokkur atriði sem lengi hafa verið til umræðu og menn hafa lengi tekist á um. Menn hafa nú náð saman um svoleiðis að ef það er samstaða um málið þá er um að gera að nýta það.“ Gallinn er bara sá að það ákvæði sem stjórnmálamennirnir hafa náð svo víðtæku samkomulagi um er gagnslaust. Formaður nefndarinnar, Páll Þórhallsson, staðfesti það í fréttum RÚV  þar sem hann játar hið augljósa að ákvæði nefndarinnar myndi ekki breyta neinu um kvótakerfið. 

Það er því alveg ljóst að forsætisráðherra er ekki með hagsmuni þjóðarinnar í huga þegar hann telur „mjög æskilegt að nota tækifærið til þess að klára þarna nokkur atriði.“ Hann ber hagsmuni útgerðarmanna fyrir brjósti, ekki almennings. Stjórnmálamenn eins og Sigmundur Davíð treysta á að almenningur fatti ekki samhengið á milli þess að sett sé ónýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrána og þess að Landspítalinn sé ónýtur, börn með geðraskanir fái ekki þjónustu og skólarnir okkar hangi á horriminni. 

Hættum að láta ræna okkur. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiSleggjan
None