„Þú verður að taka þátt ef þú vilt ekki að frændur okkar Norðmenn hirði lottópottinn rétt eins og þeir hirtu alla olíuna!“ sagði ósannfærandi útvarpsauglýsingakallinn allt of hátt þegar ég skrúfaði frá útvarpinu og fór á fætur. Merkilegt hvað lottóauglýsendur eru ósamkvæmir sjálfum sér, hugsaði ég á móti. Einn daginn á ég að kaupa lottó til að styrkja íslenskt afreksfólk en þann næsta til að draga úr líkum á að einhver annar vinni. Ég er kannski máladeildarstúdent en ég veit að þátttaka mín í þessu lottói hefði nánast ekkert að segja um vinningslíkur annarra.
Íslenska kynslóðalottóið er að þessu leyti ekki ólíkt öðrum fjárhættuspilum - þátttaka mín dregur lítið úr vinningslíkum annarra, þó svo allir lendi auðvitað í stöðugri keppni um að krækja sér í nógu þægilegt sæti. Það sem er verra er að ég hef ekkert um það að segja hvort ég á annað borð tek þátt í þessu lottói sem ákvarðar meira en við viljum.
Annan hvern dag birtast fréttir af því hvernig staða leigjenda er vond og fer versnandi. Leigjendur eru oftar en ekki á bilinu tvítugs til rúmlega þrítugs - fólkið sem hafði hvorki tök á að steypa sér í skuldir né fá þær leiðréttar. Við fengum kannski sæmilegan bónusvinning í genalottóinu með því einu að fæðast á Íslandi en þegar kemur að kynslóðaútdrættinum þá fór hann til einhverra frænda okkar í Noregi.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist. Kynslóðalottóið á Íslandi er höfrungahlaup þar sem ein kynslóð virðist fá mikið fyrir lítið, sú næsta lítið fyrir mikið. Óverðtryggð lán hurfu meðan húsnæðisverð hækkaði. Nokkrum áratugum síðar sprakk peningabólan en þeim sem tókst að halda í sitt sáu fasteignaverðið læðast hægt og rólega upp aftur. Þeir sem áttu ekkert eiga ennþá ekkert.
Þetta skilar sér í því að þúsaldarkynslóðin er týnd. Hún veit alveg hvar hún er stödd því síminn veit það og ekkert sem ekki er hægt að gúggla nema lagið sem þú hefur verið með á heilanum í viku en kannt ekki textann við.
Hún er týnd því hún á sér fáa fulltrúa á opinberum vettvangi og hefur hvorki viljann né tækifærin til að sækja þangað. Þegar pabbi var jafngamall mér var hann orðinn framkvæmdastjóri sveitarfélags. Ég á mánuð eftir af rokkstjörnualdrinum - hinum fyrri. Fleiri töffarar virðast deyja 69 ára en 27 ára þessa dagana. 69 er nýja 27 ára.
Hún er týnd því hún vill ekki „taka umræðuna.“ Frekar en að rökræða við fúla frændann í fermingarveislunni sem hefur óígrundaðar skoðanir á öllu - allt frá brauðréttinum að flóttamönnum - skrifum við kaldhæðnislega um það á Twitter, miðli sem við vitum að hann og vinir hans sjá ekki og munu ekki angra okkur. Fúli frændinn fær að hafa sína vitleysu í friði meðan við, sem eigum að heita upplýstasta kynslóð allra tíma, lokum okkur af með netvinum okkar sem við höfum aldrei hitt og fáum viðurkenningu á okkar umburðarlyndu og hjólastígaelskandi skoðunum. Sjálfur er ég þar engin undantekning.
Þetta er ekkert skrýtið því lík börn leika best. Hvers vegna ætti ég að reyna að útskýra fyrir vísitölufrænkunni að það að eiga ekki bíl er ekki uppgjöf heldur stórkostlega skynsamleg fjárhagsleg ákvörðun. Hún á ekki eftir að sannfærast, ég er löngu búinn að sjá það. Og fermetraverðið í Vatnsmýrinni verður frekar hátt þegar byggðin rís þar en mig langar ekkert í risavaxið einbýlishús í hljóðlátu úthverfi eins og kynslóðirnar á undan heldur miklu frekar notalega litla íbúð á góðum stað og möguleikann á að ferðast hjólandi og gangandi í borg þar sem fólk af öllum þjóðernum lifir í friði, eins og alla langar jú til.
Ólíkt manninum sem talar í lottóauglýsingunum um frændur en meinar fjendur okkar Norðmenn þá skiptir máli að hún taki þátt, því þetta er ekki lottó heldur eitthvað allt annað. Gallinn er auðvitað sá að við erum jafntýnd í þessu og öllu öðru þegar opinber umræða virðist oftar snúast um hver sagði hvað um hvern fyrir þremur kjörtímabilum heldur en hvað er að gerast í dag. Tólin til að breyta heiminum eru ekki lengur í verkfærakössum stjórnmálamanna heldur í einkageiranum.
Þar fyrir utan er þetta líka allt svo leiðinlegt. Hvers vegna að taka tíma í að mynda mér skoðun á því hvort ríkissjóður eigi að greiða niður skuldir og eiga meiri peninga seinna eða setja meiri peninga í skóla og búa að menntaðri þegnum í framtíðinni, eða hvort tveggja, þegar ég get omgað yfir mig því höfuð Kardashianættbálksins birti nektarmynd af sér á internetunum?
Þessi uppgjöf er óhugnanleg. Þrátt fyrir að vera umburðarlyndari og líklegri til að elta drauma sína en nokkur önnur kynslóð er margt sem vantar. Hvað gerist þegar fólk lokar sig inni með einsleitu fólki með einsleitar skoðanir og sleppir því að „taka umræðuna“ nema í litlum hópi líkra einstaklinga með líkar skoðanir? Trump gerist. Örugglega ekki þennan þriðjudag og ekki í þessari viku en það eina sem góða fólkið, sem Edmund Burke kallaði reyndar góða menn, þarf að gera til Trömpar þessa lands komist á flug er að halda áfram að hlæja að þeim með vinum en brosa vandræðalega og andvarpa „jájá“ og líta undan þegar umræðan stefnir í showdown yfir brauðréttinum.