Sjálfsupptekin. Gráðug. Löt. Svona lýsir aldamótakynslóðin sjálfri sér. Í nýlegri bandarískri könnun var fólk af ólíkum kynslóðum spurt hversu vel ákveðin karaktereinkenni lýstu þeirra eigin kynslóð. Niðurstöðurnar sýna að aldamótakynslóðin, þeir sem fæddir eru á milli 1980 og 1994, finnst lítið til eigin kynslóðar koma og telja sig almennt óhófsama letingja.
Það er ekki einungis aldamótakynslóðin sjálf sem hefur lítið álit á þessari yngstu kynslóð vinnumarkaðarins. Fjölmargar greinar og fréttaskýringar hafa verið ritaðar um sinnuleysi hennar og áhugaleysi á pólitík og málefnum samfélagsins. Kynslóðin sem lítur ekki upp úr snjallsímanum þótt veröldin farist í kringum hana. Ísland er þar engin undantekning. Í síðustu sveitastjórnarkosningum var mikið rætt um alvarleika þess að yngri kjósendur skiluðu sér einfaldlega ekki á kjörstað. Tölur úr borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík 2014 sýna að kjörsókn meðal 18-34 ára var lægri en meðal annarra aldurshópa, og lægst meðal fólks á aldrinum 20-24 ára.
Það er auðvelt að draga þá ályktun að þúsaldarar (e.millennials) séu einungis vesæl „læk“ kynslóð. Tekur þátt í skoðanakönnunum og gjammar á samfélagsmiðlum, en þegar á hólminn er komið er letin svo gífurleg að þau nenna ekki að finna út í hvaða deprímerandi skólastofu þau þurfa að fara til að raungera stuðning sinn. Sem er álíka árangursríkt og þegar eldgosið í Eyjafjallajökli stóð sem hæst og yfir 100.000 manns lækuðu facebooksíðuna “Mætum og hjálpum bændum að hreinsa öskuna.” Eflaust hefði sá mannfjöldi mokað ofan af heilu landareignunum, en þeir sárafáu sem skiluðu sér á fjölskyldubílnum frá Reykjavík, vopnaðir garðskóflum úr geymslunni, höfðu því miður engin úrslitaáhrif. Nema að staðfesta að þau eru betur innrætt en við flest.
Landamæri afsaka ekki sinnuleysi
En kannski er alls ekki leti eða sinnuleysi um að kenna. Þúsaldarar gera nefnilega ríkari kröfu en fyrri kynslóðir um að tilvist þeirra leiði til góðs í heiminum. Nærri 70% þúsaldara segja meginmarkmið sitt að vera virkir þáttakendur í samfélaginu og láta gott af sér leiða. Í könnun Deloitte á aldamótakynslóðinni sagðist yfir helmingur aðspurðra hafa hafnað mögulegu starfi því að starfsemi viðkomandi fyrirtækis samræmdist ekki gildum þeirra.
Og þrátt fyrir að aldamótakynslóðin hafi lítinn áhuga á frambjóðendum í heimahéraði eru þau mörg meðvituð um mátt sinn til að breyta lífi fólks til hins betra - og þar eru landamæri engin þröskuldur. Það var raunin þegar Íslendingurinn Gissur Símonarson deildi á Twitter mynd af sýrlenskum flóttamanni, sem með sofandi dóttur sína í fanginu reyndi í örvinglun að selja fólki kúlupenna á götum Beirútar í Líbanon. Gissur einsetti sér að hafa upp á manninum og innan við sólarhring síðar var hann kominn í samband við Abdul, einstæðan föður tveggja barna sem flúði stríðið í Sýrlandi. Gissur setti af stað hópsöfnun á netinu og á fjórum mánuðum söfnuðu rúmlega 7000 manns tæpum 24 milljónum íslenskra króna. Í þessu er styrkur aldamótakynslóðarinnar fólgin.
Bjargvætturinn nettengdi
Við getum vel gert grín að þeim 99.983 sem töldu að læk á Facebook væri nægur stuðningur við bændur undir Eyjafjöllum í miðju eldgosi. En sannleikurinn er sá að við getum haft ótrúleg áhrif á líf þeirra sem mest þurfa á því að halda, bara með því að beita okkur á netinu. Íslendingar hafa ekki síst barist gegn brottvísunum hælisleitenda með því að skrifa undir mótmælalista á netinu og með því að deila ítrekað fréttum og póstum um málefnið á samfélagsmiðlum. Og það virkar.
Nú eru 12.000 flóttamenn fastir í bráðabirgðabúðum á landamærum Grikklands og Makedóníu. Aðstæður í búðunum eru svo skelfilegar að innanríkisráðherra Grikklands hefur líkt þeim við útrýmingarbúðir nasista. Á sama tíma hafa leiðtogar Evrópu skrifað undir samning sem þeir segja að eigi að leysa flóttamannavandann, en hundsa um leið harða gagnrýni fjölmargra mannréttindasamtaka sem telja samninginn brjóta gegn grunnréttindum flóttamanna.
Hver og einn getur haft bein áhrif, bæði með því að krefjast að réttindi flóttamanna séu virt og með því að styrkja þá sem vinna hörðum höndum að bættum lífsgæðum þeirra. Human Rights Watch hvetur fólk meðal annars til að beita sér gegn samningnum með því að nota myllumerkið #StopTheDeal og hægt er að styrkja flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna með beinum fjárframlögum. Þá er einnig hægt að styrkja íslensku samtökin Akkeri, en Þórunn Ólafsdóttir, formaður samtakanna, er á leið að landamærum Grikklands og Makedóníu til að aðstoða flóttafólkið sem þar er fast. Og ef þessir valkostir hugnast þér ekki má finna ótal aðrar leiðir á netinu til að styðja flóttamenn. Þú þarft ekki einu sinni að líta upp úr snjallsímanum.