Nei, í alvörunni. Ég veit ekki hvað ég á að segja. Þetta er ekki upphafið á heimfærðri búningsklefaræðu Al Pacino í Any Given Sunday þar sem hann lýgur að öllum að hann sé nú ekki alveg viss hvernig hann eigi að orða þetta og flytur svo þekktustu peppræðu allra tíma. Þessi vika verður ekki almennilega skýrð nema í átta tíma fréttaskýringaþætti þar sem Bogi og Guðni renna hugum sínum saman í eitt. Helst berir að ofan með Rambóklúta. Jafnvel þá verður ekki öllu svarað því atburðarásinni virðist hvergi nærri lokið. Miðað við taktinn á fréttaflutningi verður allt gjörbreytt nokkrum klukkustundum eftir að þetta birtist á internetunum. Sigurður Ingi er ennþá aðal, er það ekki?
Þegar ég settist niður á sunnudagskvöldið til að draga saman síðustu viku í sjö hundruð orðum eða svo sat ég drykklanga stund og sötraði bjór í vorbirtunni. Blikkandi bendillinn minnti mig á að á hverri sekúndu gæti verið búið að mynda nýja ríkisstjórn eða senda erlendum fjölmiðlum aðra skýringu á því sem raunverulega gerðist eða kasta fram að Guðrún Helgadóttir væri í mjög nánu en algjörlega platónsku sambandi við Elon Musk. Ég sakna þess þegar nýtt forsetaframboð þóttu tíðindi.
Ég kláraði bjórinn og fór að sofa. Skjalið var jafntómt og það hafði verið þegar ég settist niður tveimur bjórum fyrr. Svefninn vondur eins og undanfarna daga. Morgnar sem byrja á fumkenndum panikkhring á alla helstu miðla í leit að því hvaða gusa er væntanleg næst eru ekki beint góðir morgnar.
John Oliver kom því eiginlega ekki á óvart heldur var bara rökrétt framhald. Línan sem Dóri DNA hafði orðrétt eftir fréttamanninum sænska í Vikunni með Gísla Marteini var hryggjarstykkið í innslaginu þar sem Björk og álfar voru að sjálfsögðu í aukahlutverkum. Utanríkisráðuneytið sagði svo að allt væri í himnalagi. Ísland er ennþá svaka kúl í útlöndum. Mínir peningar fara samt á að Inspired by Iceland verði endurtekið fyrr en síðar.
Ekkert af þessu skýrir samt almennilega hvers vegna mörg þúsund manns lögðu leið sína á Austurvöll daginn eftir Kastljósþáttinn sem allir og frænkur þeirra sáu. Ísland hefur, allavega í rósrauðum bjarma fortíðarbirtunnar, virkað eins og samhent þorp. Við erum fá, hvert undan öðru og hjálpumst að - án þess þó að halda hverju öðru niðri. Öll á sama báti. Þannig hefur það allavega verið. Litla þorpið fékk aðeins á baukinn í kringum hið svokallaða bankahrun. Sumir virtust lúta öðrum lögmálum og lögum en aðrir. Alveg þangað til trommuslátturinn hófst á Austurvelli. Hann er byrjaður aftur. Þeir sem sátu innan veggja þinghússins fyrir tæpum átta árum segja hljóðin í trommunum vekja upp óþægilegar minningar.
Að líkja aðstæðum 2009 saman við nútímann er kannski ekki sanngjarnt. Hér er ólgandi uppsveifla, KS hagnast um 1,8 milljarða og fólk er löngu hætt að tala um að „kaupa gjaldeyrinn sinn“ þegar það fer til útlanda. En viðbrögðin, þessi ónotatilfinning sem rekur fólk upp úr sófanum og í moldina á Austurvelli er af sömu rót runnin. Sumir eiga ekki að vera jafnari en aðrir. Auður er engin synd, en auður á ekki að færa einum möguleikann á að leika leikinn eftir öðrum reglum en þeim sem er snauður.
Kannski á ræðan hans Al Pacino betur við en við fyrstu sýn. Þó svo við séum ekki í helvíti akkúrat núna og notum metrakerfið, sem gerir inch by inch líkinguna miklu erfiðari, þá verðum við að vinna þetta, tommu fyrir tommu. Leik fyrir leik. Sem lið. Á Íslandi vísa allar hagtölur þráðbeint upp en ekki allir hafa notið þess árangurs. Stúdentar og þúsaldarkynslóðin fá ekki launahækkanir í kjarasamningum en geta innilega hlakkað til þess að komast á eftirlaun til að nýta þennan spikfeita lífeyrissjóð sem við munum hafa safnað okkur upp - að vísu ekki í almennilegu skjóli fyrir sköttum, en það er líka ekki í boði fyrir alla.
Ef við ætlum af alvöru að vinna okkur gegnum þá stöðu sem upp er komin þá þurfum við að gera það sem liðsheild. Ekki þannig að reglurnar kyndi undir eldi þeirra sem mikið eiga fyrir, en dragi heldur ekki úr þeim sem skara fram úr. Hvort það þýðir kosningar í vor eða haust eða starfsstjórn um tiltekin verkefni þá er ljóst að síðasti leikurinn í þessari skák hefur ekki verið leikinn. Og það er einmitt vandinn. Ef fulltrúum ríkisstjórnarinnar er alvara með að vinna að þeim málum sem hún hefur lagt aðaláherslu á undanfarin þrjú ár er fyrir öllu að þessari flottu fléttu ljúki.