Hvað gerir pistlahöfundur þegar yfir hann streyma tilefni til beittrar samfélagsrýni, uppljóstranir á uppljóstanir ofan sýna að áhrifamenn í stjórnmálum földu peningana sína svo vel í skattaskjólum að þeir muna ekki einu sinni eftir því - en muna þó glöggt að af öllu var samviskusamlega greitt - og meira að segja forsetinn segir ekki satt við erlenda fréttamenn um tengsl tengdafjölskyldu sinnar við skattaskjólin? Jú, hann snýr sér að fortíðinni, einhverju sem festa má hendur á í öryggi, gamaldags fyrirgreiðslupólitík þar sem náttúru var fórnað til að gefa erlendum auðhring fjármuni.
Sú var tíðin að Kárahnjúkavirkjun var aðalmálið í íslenskum stjórnmálum. Framsóknarflokkurinn keyrði á um byggingu virkjunarinnar og fékk til þess stuðning Sjálfstæðisflokksins og hluta Samfylkingar. Þróunin á Austurlandi hafði verið þannig um hríð að eitthvað þurfti að gera þar til að hleypa lífi í fjórðunginn og í sönnum heildarlausnastíl að hætti sovéska kommúnistaflokksins taldi Framsóknarflokkurinn að þetta eitthvað væri dýrasta framkvæmd Íslandssögunnar, þar sem ósnertri náttúru var fórnað til að framleiða rafmagn. Og ekki bara rafmagn fyrir hvern sem er til að nýta til góðra verka. Nei, rafmagnið úr Kárahnjúkavirkjun fór í eina einustu álverksmiðju því samið var við Alcoa um nýtingu rafmagnsins í verksmiðju sína á Reyðarfirði.
Það er í raun svo galið að binda framleiðslu stærstu virkjunar landsins við eina álfabrikku að það nær engri átt. Kárahnjúkavirkjun framleiðir þriðjung af öllu rafmagni Landsvirkjunar og allt það rafmagn fékk Alcoa að kaupa í eina verksmiðju. Gerðir voru samningar til 40 ára, samningar sem eru svo svívirðilegir að í raun hefur Alcoa verið færðir yfir 100 milljarðar íslenskra króna að gjöf. Það er þó nokkuð.
Hvernig? Jú, verðið sem Alcoa greiðir fyrir orkuna er smámunalega lágt. Það er tengt álverði og reiknast vera um 20 dollarar á Megawattsstund í dag. Landsvirkjun hefur gefið það út að viðmiðunarverð til stórnotenda sé tvöfalt hærra en verðið til Alcoa, eða eins og segir í ársskýrslu fyrirtækisins 2013.
„Í dag býður Landsvirkjun raforkusamninga á $43/MWst (verðtryggt) í tólf ára samningum, með möguleika á afslætti og lengri samningum í tilfelli nýfjárfestinga.“
Ef við miðum þetta verð og raunar gefum Alcoa smá afslátt frá því og segjum 40 dollarar í stað 43, þar sem það er viðmiðun í 12 ára samningum til stórnotenda en Alcoa er stærsti notandinn og til mjög langs tíma. Miðað við þessar forsendur tapar Landsvirkjun á versta samningi Íslandssögunnar um 100 milljónum Bandaríkjadala á hverju einasta ári. Það eru 12 milljarða króna á hverju ári sem Alcoa græðir en Landsvirkun tapar. Á tíu árum eru þetta 120 milljarðar og nóg er eftir af samningnum.
Samningurinn við Alcoa er dæmi um ófærur pólitískra afskipta. Með slagorðið „lowest energy prices“ í farteskinu var stærsta virkjun landsins og sú umdeildasta reist þvert á háværa gagnrýni. Nú stöndum við frammi fyrir því að búið er að binda nær 1/3 af raforkuframleiðslu landsins á lægstu verðum. Stjórnmálamennirnir sem studdu þessa framkvæmd afsöluðu mögulegri auðlindarentu til þjóðarinnar en afhentu hana amerískum álrisa.
Þá fer nú að verða lítill virðisauki af stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, sem Framsóknarflokkurinn fór í til að bjarga atkvæðum í sterkasta kjördæminu sínu, sem var óvart kjördæmi formanns Framsóknarflokksins (og er enn).
Það þarf því ekki að leita suður um höf á sóli bakaðar aflandseyjar til að finna dæmi um pólitíska spillingu. Það er nóg að horfa til Austurlands, þar sem Framsóknarflokkurinn færði náttúruna á kaf til að færa erlendum auðhring 120 milljarða gjöf á tíu árum.