Sadie fæddist í þennan heim með keisaraskurði fyrir rétt rúmum mánuði síðan. Myndin hér að ofan var tekin þegar Sadie kom „heim“ af fæðingardeildinni. En hennar biðu engar nýpressaðar samfellur. Engin vagga sem fylgt hefur fjölskyldunni í áratugi. Engar sótthreinsaðar snuddur.
„Heim“ í tilfelli Sadie voru nefnilega flóttamannabúðir í Idomeni í Grikklandi. Forarsvað þar sem yfir 14.000 manns hafast við í rökum tjöldum svo vikum og mánuðum skiptir, þar á meðal yfir 4.000 börn. Sadie var þriðja barn ungra foreldra og hennar fyrsta heimili var tjald sem hún deildi með foreldrum sínum og stóru systkinum, eins og tveggja ára. Í þessum aðstæðum mátti móðir hennar jafna sig eftir keisaraskurð, með hvítvoðung og tvö önnur ungabörn.
Brátt kom hinsvegar í ljós að eitthvað amaði að Sadie litlu. Hún fékk gulu. Í örvæntingu sinni reyndu foreldrar hennar að nota eina ljósið sem þau höfðu, lítið vasaljós, til að veita henni þá umönnun sem hún þurfti. Það eru jú engir hitakassar í helvíti. Að lokum komst Sadie þó á spítala með móður sinni, 70 km í burtu frá Idomeni. Litla fjölskyldan var því slitin í sundur, faðirinn með eldri systkinin tvö í flóttamannabúðunum og móðirin hjá Sadie.
Í Aleppo er enginn óhultur
Hvað rekur ung hjón, með tvö lítil börn og það þriðja á leiðinni, af stað í slíka hættuför frá Sýrlandi til Grikklands? Hvað þá þegar þau vita að fjölmargir komast aldrei aftur að landi, og óvíst er að þeim sem lifa af sjóferðina sé gert kleift að skapa sér mannsæmandi líf á meginlandi Evrópu?
Yfir 400.000 manns hafa látið lífið í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi. Algengt er að stjórnvöld loki öllum samgönguleiðum til og frá svæðum sem eru á valdi uppreisnarmanna. Almennir borgarar eru þannig innikróaðir og sveltir. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum búa yfir 4,5 milljónir manna í Sýrlandi á svæðum sem erfitt er flytja hjálpargögn til. Nærri 400.000 eru algjörlega innikróuð. Börn og fullorðnir eru svo aðframkomin af hungri að þau borða gras til að reyna að halda í sér lífinu og fjölmargir svelta til dauða. Alþjóðleg mannúðarlög eru skýr hvað þetta varðar: það er bannað að beita því hernaðarbragði að svelta almenna borgara.
Þrátt fyrir að nýlegt vopnahlé haldi að mestu á afmörkuðum svæðum Sýrlands hafa stjórnvöld látið sprengjum rigna yfir hverfi á valdi uppreisnarmanna í Aleppo, stærstu borg Sýrlands, í nær tvær vikur. Þar á meðal hafa spítalar og heilsugæslustöðvar verið sprengd í loft upp, sem er skýrt brot á alþjóðlegum mannúðarlögum en árásir á spítala teljast til stríðsglæpa. Meðal þeirra sem létust í árásunum var Dr. Muhammad Waseem Maaz, eini barnalæknirinn sem eftir var á hinum hernumdu svæðum borgarinnar. Muhammad var á næturvakt þegar Al Quds spítalinn varð fyrir sprengingu, en þangað kom hann af dagvakt á öðru sjúkrahúsi í borginni. Rauði krossinn sagði í kjölfar loftárásanna að borgarar Aleppo séu hvergi óhultir, ekki einu sinni spítalar geti skýlt þeim.
Ísland á að vera næst
Um 50.000 flóttamenn eru fastir í Grikklandi, þar af 22.000 börn. Flutningur á flóttafólki frá Grikklandi til Tyrklands er hafinn, í samræmi við samning Evrópusambandsins við Tyrki. Fjölmörg mannréttindasamtök hafa mótmælt samningnum harðlega, þar á meðal Human Rights Watch og Amnesty International. Í Tyrklandi eru mannréttindabrot víðtæk og til að mynda hafa tyrkneskir landamæraverðir skotið yfir tugi sýrlenskra flóttamanna, þar á meðal börn, á undaförnum mánuðum. Þá er einungis átt við þá sem verðirnir hafa beinlínis orðið uppvísir af að drepa, en raunverulegur fjöldi látinna er líkast til mun hærri. Samt sem áður er ætlun Evrópusambandsins að flokka Tyrkland sem „öruggt þriðja ríki“ (e. safe third country), til að geta sent flóttamenn umsvifalaust til baka þangað.
Með samningnum hefur Evrópusambandið brotið gegn grunngildum sínum. Í inngangi að mannréttindasáttmála Evrópu er virðing fyrir mannréttindum sögð forsenda réttlátra og friðsamlegra samfélaga. Samt sitja Evrópuþjóðir þöglar hjá á meðan börn eins og Sadie hafast við í kúlutjaldi innan einnar ríkustu álfu heims.
En það sitja ekki allir aðgerðalausir. Páfinn var fyrstur leiðtoga til að mótmæla ómannúðlegum samningi ESB og Tyrklands þegar hann heimsótti grísku eyjuna Lesbos fyrr í aprílmánuði. Eftir að hafa rætt við flóttamenn og séð þær aðstæður sem þeir búa við bauð hann tólf sýrlenskum flóttamönnum umsvifalaust hæli í Vatíkaninu. Allt voru þetta fjölskyldur, þar af sex börn. Með þessu setti páfinn mikilvægt fordæmi fyrir aðrar þjóðir. Vegurinn hefur verið ruddur, nú þurfa bara fleiri að hafa þor til að fylgja honum.
Ísland á að vera næst. Við höfum áður sýnt hugrekki í utanríkisstefnu okkar og riðið á vaðið þegar stærri þjóðir voru lamaðar af skriffinnsku og pólitík. Við höfum viðurkennt sjálfstæði nýrra ríkja fyrst allra, þegar alþjóðsamfélagið hafði ekki dug til að standa með þeim sem mest þurftu á stuðningi að halda. Nú þurfum við að sýna nýja tegund hugrekkis. Við eigum að sækja fjölskyldur í Idomeni og ýta um leið við öðrum þjóðum að láta af sinnuleysinu. Evrópa má ekki samþykkja að þessi meðferð á flóttafólki viðgangist stundinni lengur.
Utanríkisráðuneytinu hefur þegar verið falið að úthluta hálfum milljarði til aðstoðar við flóttafólk frá Sýrlandi. Það er mikilvægt skref í rétta átt. Í fjárlögum ársins 2016 er hinsvegar gert ráð fyrir að verja eigi allt að einum milljarði króna til að bregðast við flóttamannavandanum. Það er því vel samrýmanlegt stefnu ríkisstjórnarinnar að verja hluta þessa fjármagns til að bjóða fleiri fjölskyldur flóttamanna velkomnar til Íslands.
Heim
Eftir mánuð á sjúkrahúsinu er Sadie aftur komin ,,heim“. Fjölskyldan er loksins sameinuð á ný eftir erfiðar vikur og Sadie orðin hraustari. Hún hefur stækkað og þyngst síðan pabbi hennar sá hana síðast. En hún er samt ennþá bara rúmlega mánaðar gamalt kornabarn. Kornabarn sem býr í tjaldi með úrvinda móður og föður og tveimur systkinum. Í næsta tjaldi er tvítug móðursystir hennar með tvö ungabörn sem hún gekk í móðurstað.
Öll ríki Evrópu hafa fullgilt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Ísland hefur innleitt sáttmálann í íslensk lög. Samkvæmt 22 grein sáttmálans ber aðildarríkjum að tryggja að barn sem leitar eftir réttarstöðu sem flóttamaður fái „viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð“. Grikkland er ófært um að tryggja þessi grundvallar mannréttindi þeirra 22.000 barna sem þar eru föst. Grundvallar mannréttindi sem íslensk stjórnvöld hafa lýst sig sérstaklega reiðubúin að verja með því að festa Barnasáttmálann í lög. Með því að bjóðast til að taka við fjölskyldum frá Idomeni getur Ísland hjálpað til við að höggva á þann hnút sem myndast hefur.
Því við getum það. Við þurfum bara að sækja þau. #sækjumþau