Fyrir sléttu ári varð ég fyrir því láni að vera sendur á Eurovision. Sendur er kannski ekki rétta orðið því ég hafði nokkuð lengi suðað í yfirmönnum mínum um að það væri ekki boðlegt að stærsti vefmiðill landsins, mbl.is, væri ekki með blaðamann á vettvangi á stærstu söngvakeppni, og reyndar stærsta sjónvarpsþætti, í heimi. Söluræðan mín var í sjálfu sér einföld: ég bjó í Vín og var því með fría gistingu, þess vegna var ég maðurinn í starfið. Meira að segja stærsti vefmiðill á Íslandi þarf að fara vel með peningana sína. Það var ekki fyrr en eftirá sem ég játaði að vera enginn sérstakur aðdáandi keppninnar - fyrr en ég sá hana með mínum eigin augum.
Flest við keppnina kom mér á óvart en nokkur atriði stóðu óneitanlega upp úr. Allt í kringum keppnina er óendanlega miklu stærra en smástrákur frá Íslandi hafði nokkurn tíma gert sér grein fyrir. Keppendur eru í stanslausum viðtölum, æfingum og rennslum, starfsfólk við keppnina hleypur á hundruðum og í kringum 1.700 blaðamenn halda til í blaðamannatjaldinu við hliðina á aðalsviðinu. Til samanburðar búa um 1.150 manns í Stykkishólmi. Umfangið er því af annarri stærðargráðu en maður hefði getað ímyndað sér.
Pólitík virtist líka ekki skipta neinu máli. Þarna voru allir til að hafa gaman. Pólitík er eitthvað sem þeir, sem sjá ekki að keppni í tónlist er í eðli sínu keppni í engu, þurfa að troða inn á hana svo hún gangi upp í heimi þeirra sem sjá austantjaldslöndin slóttug og vesturlöndin góð. Einhverjir myndu benda á að sigur Úkraínu um helgina sé til marks um hið gagnstæða, að pólitík ráði öllu og að lögin séu formsatriði. Sama mætti segja um gengi Íslands í ár, sem komst ekki upp úr erfiðum Austur-Evrópuriðli þar sem frændhygli réði meiru en lagasmíð. Gallinn á kenningunni er auðvitað sá að deilan í Úkraínu er löngu horfin af forsíðum blaða og vefmiðla. Það sem var fréttnæmt fyrir tveimur árum er raunveruleikinn í dag. Geirfinnur er ennþá týndur og enginn veit hver drap Kennedy - það er bara ekki í umræðunni lengur. Það sama á við um Úkraínu. Að vísu verður mjög athyglisvert að sjá hvernig EBU tæklar að halda Eurovision í stríðshrjáðu landi, en það er seinni tíma umræða.
Pólitíkin í Eurovision er á ári hverju síðasti naglinn í kistu stjórnmálanna á hverju vori, og vor breytist aldrei. Spakmælið segir að þjóðin sé í raun öll í krónískum geðhvörfum - þunglynd á veturna og manísk á sumrin. Þegar sólarstundum fækkar tilfinnanlega í lok október verður þjóðfélagsumræðan rætnari með hverjum degi og nær hámarki í umræðu um fjárlög þegar stjórnarandstaðan, sama hvaða flokki hún tilheyrir, kemur sér saman um að froðufella í kór yfir nokkur hundruð milljónum sem standa út af í fimmhundruðþúsundmilljóna fjárlögum. Svona heldur þetta áfram, alveg fram að Eurovision, þegar sófaskýrendurnir varpa spakir ljósi sínu á alþjóðastjórnmál áður en þeir snúa sér á magann í pottinum í Vesturbæjarlauginni til að jafna tanið á bakinu. Engir nema hörðustu bloggarar hafa úthald til að röfla af innlifun á fallegum sumardögum. Kvöldsólin hefur meira að segja svo góð áhrif að gamlir stjórnmálajálkar brosa við, draga djúpt andann og hætta við að hætta við að hætta við.
Við eigum nefnilega öll skilið smá frið fyrir stjórnmálunum. Ólíkt flestum dýrunum í skóginum leggst stjórnmálamaðurinn í dvala yfir hásumarið, aðallega af tillitssemi við öll hin dýrin. Sumardvalinn verður reyndar óvenjustuttur þetta árið vegna kosninga um valdamesta valdleysingja landsins, en stundum ber annan janúar líka upp á mánudegi. Verst að það skuli fara svona saman í þetta skiptið.