Um daginn lá ég andvaka, ekki bugaður af heimsins böli og áhyggjum, þó nóg sé nú af því í mínu lífi, heldur vegna fólks sem var á fylleríi sem vildi hafa hátt. Frekar en að verða fúll yfir misstum nætursvefni, fór ég að velta mannlegu eðli fyrir mér. Það birtist nefnilega sjaldan jafn berlega og þegar kemur að djamminu; þá verða þær reglur sem oftast ríkja um mannleg samskipti óljósari og loforð gleymast. Stundum sér fólk eftir hegðuninni, biðst afsökunar og hleypst ekki undan neinu, enda yfirleitt ekki stórmál á ferð. En svo eru þau sem vaða áfram, líta á það sem sinn heilaga rétt að hegða sér eins og þeim sýnist, þegar þeim sýnist, og aldrei þurfi að standa reikningsskil á því.
Íslandi hefur löngum verið stjórnað af fólki sem fyllir síðasttalda flokkinn. Hér hefur það verið lenska að æða áfram með hagsmuni sína og sinna í huga, skítt með aðra. Í gegnum tíðina hafa orðið einhverjar tilfærslur hjá þeim sem stjórna, þessi flokkur fer út úr ríkisstjórn fyrir hinn, en heilt yfir hefur kerfið verið nokkuð óbreytt, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur með sinn náttúrulega botn í fylgi sem þeir fara ekki undir.
Þetta hefur breyst, sem betur fer. Það er djúpstæð undiralda í samfélaginu um framþróun í stjórnmálum. Gamla argaþrasið, þar sem ósvífnin réð för og það þótti bara í lagi að ljúga sig til valda, hefur látið undan síga. Og nú gefst kjósendum færi á að, tja ef ekki veita náðarhöggið þá rekja flóttann, í forsetakosningunum í sumar.
Davíð Oddsson er nefnilega holdgervingur þessarar gömlu pólitíkur. Hann er maðurinn sem svífst einskis til að fá sitt, sem hefur svo mikla sannfæringu fyrir eigin lygum að einhverjir verða til að trúa honum. Af því að fyrir honum er eðlilegt að grípa til hvaða bragða sem er til að fá þá einu niðurstöðu sem hann telur þjóðinni til hagsbóta; að hann hljóti framgang.
Davíð hefur hins vegar ekki áttað sig á því að samfélagið hefur breyst frá því að hann var hrókur alls fagnaðar. Hann var einu sinni hipp og kúl gaurinn í partýiinu, ósvífnin var töff og bara dæmi um sterka leiðtogann. Fátt eldist hins vegar jafn illa og töffarastælar. Davíð er í dag eins og fulli gamli frændinn sem hefur hæst, skiptir endalaust um lag, segir hetjusögur og tekur ekki eftir því að enginn hlustar. Af því að partýið sem hann mætti keikur í fyrir 30 árum er búið og við hin erum löngu farin að hreinsa til eftir það.
Alla þessa eiginleika Davíðs mátti sjá í sjónvarpinu á sunnudag. Davíð mun sjálfur ekki átta sig á því, en hann gjörtapaði kosningunum í umræddum þætti. Þegar hann tilkynnti um framboð sitt áttaði hann sig á því að hann yrði að vera sameiningartákn, mannasættir. Til að verða forseti þyrfti hann að fá atkvæði frá stuðningsfólki allra flokka. Frammistaðan á sunnudag sýndi að hann er hættur að reyna að fá stuðning frá öðrum en hörðustu aðdáendum í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki. Það fylgi, þó hann fengi það allt, dugar honum aldrei til sigurs.
Sáttfýsin hélt í örfáa daga og gallið brast upp á yfirborðið. Landsfaðirinn reyndist ófrjór þegar allt kom til alls.
Ekki þarf að eyða orðum í margt sem fram kom í umræddum þætti, en við Davíð erum þó sammála um eitt: Menn eiga ekki að hlaupa frá orðum sínum og gjörðum. Og það verður gaman þegar Davíð fer yfir eigin orð og gjörðir af sama smásmyglishætti og hann gerir gagnvart öðrum.
Davíð getur þá farið yfir það þegar hann skrifaði Ísland hróðugur á lista hinna viljugu þjóða, í innrás Bush og Blair í Írak. Innrás sem aðalritari Sameinuðu þjóðanna sagði ólöglega. Innrás sem kostaði á bilinu 600 þúsund til 1,2 milljónir mannslífa. Viðbrögð Davíðs? Jú, þegar þingmaður Samfylkingarinnar kallaði eftir því að Ísland yrði tekið af listanum kallaði Davíð flokkinn „afturhaldskommatittsflokk“.
Davíð getur líka farið í rólegheitunum yfir einkavæðingu bankanna og hvernig útrásarvíkingunum knáu var fagnað, jafnvel með ferföldu húrrahrópi.
Davíð getur farið yfir orð sín við fréttamann Channel 4 þar sem hann fullyrti að Ísland mundi ábyrgjast allar innstæður Icesave og þær væru allar öruggar. Það má sjá hér:
Davíð getur líka farið yfir Kaupþingslánið, þegar allur gjaldeyrisforði íslensku þjóðarinnar var greiddur út áður en búið var að ganga frá pappírum, lánasamningum og veðum, af því að Davíð er svo skjótur að taka ákvörðun. Það var heppni að bankinn var ekki farinn á hausinn áður en hægt var að ganga frá pappírunum.
Davíð má líka útskýra fyrir okkur af hverju hann lagði Þjóðhagsstofnun niður eftir að hún kom fram með hagspá sem reyndist honum ekki að skapi. Og jafnvel hvort slík stofnun hefði ekki verið frekar til gagns en ógagns í brjálæðinu sem leiddi til hrunsins.
En auðvitað mun Davíð aldrei útskýra neitt af þessu, enda finnst honum hann ekki skulda neinar skýringar. Framboð hans til forseta Íslands veitir Íslendingum hins vegar einstakt færi á að segja sína skoðun á öllu ofangreindu og miklu, miklu meiru til.
Við fáum tækifæri til að segja skilið við það versta úr íslenskri stjórnmálasögu síðustu þrjátíu ára, hroka, ófyrirleitni, útúrsnúning og ýmsan hroða. Við fáum færi til að halda áfram að þroskast og verða aðeins betri, ekki að velta okkur upp úr súr liðins tíma.