Ímyndaðu þér Kringluna fjórum dögum fyrir jól. Úti hringsóla bílar í leit að stæði á meðan spennan liggur í loftinu innanhúss. Sumir eru á þönum að leita að síðustu gjöfunum, aðrir að kaupa jólasteikina og örfáir sitja með yfirlætissvip og njóta kaffibollans því á þeirra bæ er allt klárt. Versta martröðin er jú að ekki sé allt tilbúið þegar RÚV klukkurnar hringja inn jólin. Allt þar til að bíl fullum af sprengiefni er ekið upp að Kringlunni og hún sprengd í loft upp.
Þetta var atburðarrásin í Baghdad, höfuðborg Íraks, á dögunum þegar bíll var sprengdur í loft upp við verslunarmiðstöð, örfáum dögum fyrir Eid sem er stærsta hátíð múslima. Talið er að nærri 300 hafi látist í árásinni, sem er sú mannskæðasta frá innrásinni í Írak 2003. Þeir sem létust voru almennir borgarar. Fjölskyldur, vinahópar, verslunareigendur og starfsfólk.
Á miðvikudaginn kom út skýrsla um þátt Breta í innrásinni í Írak. Skýrslan er áfellisdómur yfir innrásinni og hverju því ríki sem studdi hana. Höfundar segja ljóst að ráðist hafi verið inn í Írak án þess að friðsamari leiðir hafi verið reyndar til fullnustu. Þá hafi ítrekað verið bent á þá hættu að borgarastyrjöld brytist út ef Saddam Hussein yrði sviptur völdum, sem myndi valda óstöðugleika á svæðinu öllu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Hatrið tekur á sig ýmsar myndir
Fáeinum dögum áður en skýrslan kom út, leituðu tveir ungir hælisleitendur frá Írak griða í Laugarneskirkju. Það átti að senda þá úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar án þess að mál þeirra væri svo mikið sem skoðað af yfirvöldum hérlendis. Stjórnvöldum ber engin skylda til að fylgja Dyflinnarreglugerðinni og Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins sagði hana ónýta í nýlegri heimsókn sinni til Íslands. Myndband, sem sýnir lögreglu færa hælisleitendurna úr kirkjunni með valdi áður en þeir voru sendir til Noregs, fór víða á frétta-og samfélagsmiðlum. Þessir ungu menn, annar þeirra að öllum líkindum einungis 16 ára, verða nú líklega sendir aftur til Baghdad. Borgar þar sem hver gleðistund getur breyst í skelfingu á augabragði. Skelfingu sem við Íslendingar áttum þátt í að skapa þegar við studdum innrásina í Írak, þrátt fyrir að hún nyti hvorki stuðnings Sameinuðu þjóðanna né NATO.
Skopmyndateiknari Morgunblaðsins, sem starfar í skjóli þess Íslendings sem ber mesta ábyrgð á ringulreiðinni í Írak, var fljótur að bregðast við mótmælum almennings við atburðunum í Laugarneskirkju með því að ala á múslimahatri og fordómum. Ekki í fyrsta skipti sem svokallaðar skopmyndir blaðsins afhjúpa lágkúru af þessu tagi, og í kjölfarið tók við kunnuglegt stef. Rasisminn tók á sig ýmsar birtingarmyndir. Sumir notuðu slagorðið: Íslensk kirkja fyrir Íslendinga. Valdameiri menn dulbjuggu rasismann lagaflækjum og aðrir sem umhyggju fyrir öðrum viðkvæmum hópum: Ætlar kirkjan nú að vernda útlendinga á meðan íslenskir fátæklingar og öryrkjar svelta?
Það er lýjandi að svara í sífellu sama hatursáróðrinum: Nei, kirkjan er ekki einungis fyrir Íslendinga, frekar en aðrar ríkisstofnanir. Nei, herra vararíkissaksóknari, flóttamenn sem leita hjálpar eiga ekkert skylt við dæmdan glæpamann. Nei, það er óþolandi að viðkvæmustu hópum samfélagsins sé í sífellu egnt hverjum gegn öðrum, svo að enginn komist á betri stað.
Þeir sem telja sig mega spúa hatri í friði
Og þegar allt annað þrýtur grípa rasistarnir ævinlega til kolrangrar en lífseigrar tuggu: „Þetta er bara mín skoðun og þér ber að virða hana.˝ Fráleitur útúrsnúningur á göfugri heimspeki. Mér ber ekki að virða þína rasísku skoðun. Málfrelsið gengur ekki út á að öll vitræn umræða skuli þögguð til að særa ekki þann sem elur á hatri. Þú mátt tjá þig en engum ber að hlusta.
Rétturinn til málfrelsis felur einfaldlega í sér rétt til að tjá skoðun sína án þess að þurfa að óttast um líf sitt eða frelsi. Ég skal berjast fyrir frelsi skopmyndateiknara Moggans til að teikna sínar rasísku myndir án þess að hann endi í fangelsi. En þar lýkur minni siðferðilegu skyldu. Um leið verður til önnur skylda, sú að berjast gegn því að hatursáróðurinn verði viðurkenndur sem eðlilegur hluti af umræðunni. Hann á ekkert erindi í fjölmiðil sem vill láta taka sig alvarlega. Ekkert erindi í málflutning vararíkissaksóknara. Ekkert erindi sem stefnumið stjórnmálaflokks.
Hatrið baðar sig í dagsljósinu
Öfgakenndir þjóðernis-hægriflokkar njóta nú síaukins stuðnings og hugmyndir þeirra fá aukið rými í allri umræðu. Og aukinn hljómgrunn. Útlendingahatri er ekki lengur sáð í myrkri. Það hefur brotið sér leið út í dagsljósið og hægt en bítandi virðumst við samþykkja að það sé fastur liður í þjóðfélagsumræðunni. Veðrið, verðbólgan, og rasisminn.
Hatursáróður gagnvart ákveðnum trúarbrögðum, þjóðernum eða kynþáttum er ekki bara rangur. Hann er hættulegur. Það er orkufrekt og óþolandi að reyna að sannfæra rasistana sem mæta okkur í hversdeginum um skaðann sem málflutningur þeirra veldur samfélaginu öllu. En okkur ber skylda til að taka rökræðuna í hvert einasta sinn, því jafnvel þótt orð þeirra sannfæri okkur ekki, geta þau vel sannfært næsta mann. Ef sama lygin er sögð nógu oft getur hún öðlast trúverðugleika í hugum einhverra.
Martin Lúther King sagði mesta harmleikinn ekki felast í grimmd þess illa heldur í þögn hins góða. Sá sem situr þögull hjá á meðan hatrið nær fótfestu gerist sekur um sinnuleysi. Og það veldur að lokum sama skaða og stanslaus áróður rasistans.