Það hefur verið dásamlegt að vera Íslendingur nú í sumar. Dagarnir eru bjartir og fagrir og sólin skín bæði dag og nótt. Landsmenn völdu sér forseta úr góðum hópi frambjóðenda sem flestir horfðu fram á veginn. Gamla Ísland tapaði. Og EM, maður lifandi! Eiginlega var eins gott að við komumst ekki enn lengra því þetta víkingatal og fánablæti var við það að verða vandræðalegt. Þetta voru þó guðdómlegar vikur og kannski í fyrsta sinn frá hruni sem við vorum öll í sama liðinu. Öll sammála og það var svo gott að vera til. Okkur voru allir vegir færir. Höldum í þá tilfinningu.
Síðustu daga hefur stemningin verið þyngri. Misheppnuð valdaránstilraun í Tyrklandi og voðaverk við stöndina fallegu í Nice, einmitt þar sem svo margir Íslendingar spókuðu sig stoltir af landsliðinu, eru eins og lamandi skuggi sem liggur yfir heimsbyggðinni. Og uppgangur og lygilegur framgangur hinna ýmsu popúlista sem ná að sannfæra venjulegt fólk um að einmitt þeir (sem oftar en ekki eru silfurskeiðungar sjálfir) séu einmitt þeir sem beri hag hinna verst settu fyrir brjósti og berjist fyrir litla manninn. Við þessar aðstæður þakkar maður þó líka fyrir að vera bara frá litla Íslandi þar sem aldrei hefur geisað stríð og þrátt fyrir allt þá höfum við það bara nokkuð gott hérna.
Þó vantar svolítið upp á að íslenskt samfélag geti talist til fyrirmyndar. Þegar sólin skín og landinn næstum nýbúinn að vinna EM í fótbolta er maður þó bjartsýnn á að nú takist okkur að laga þetta í eitt skipti fyrir öll. Sjö mögur ár og allt það. Árið 2016 verður ár uppskerunnar. Því hef ég leyft mér að taka saman lista yfir það helsta sem við þurfum að laga svo Ísland verði algjörlega frábært land þar sem sannarlega er gott að búa – allavega á meðan sólin skín.
Fyrst það sem við verðum að ráða bót á strax. Sumt kostar en fjármagnið er í augsýn.
- Þegar maður verður veikur á maður ekki sjálfkrafa að verða gjaldþrota líka. Stefnum á gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi. Það er ekki góð hugmynd að dreifa kostnaðinum bara öðruvísi á notendur. Efnaminna fólk mun veigra sér við að leita læknis nema í neyðartilfellum og þá er hætt við að sjúkdómar greinist á síðari stigum þegar þeir eru ekki eins viðráðanlegir. Það er miklu dýrara fyrir okkur öll. Og talandi um heilbrigðiskerfið. Þar þarf einfaldlega meira fé.
- Unga fólkinu okkar líður ekki öllu vel í sálinni. Það er fáránlega dýrt að leita til sálfræðings á Íslandi. Sálfræðingar eiga að sjálfsögðu að vera hluti af heilbrigðiskerfinu. Forvarnir og snemmtæk íhlutun er nefnilega besta fjárfesting sem eitt samfélag getur varið fé sínu í.
- Það liggur auðvitað í augum uppi að biðlistar vegna þjónustu fyrir börn og ungmenni eiga ekki að fyrirfinnast. Ársbið eftir greiningu eða meðferð er fimmtungur af ævi fimm ára barns. Þjónusta við börn má ekki vera háð efnahag eða getu foreldranna. Því ættum við að reyna að veita sem mesta og besta þjónustu í gegnum skólakerfið. Og þar þarf líka meiri peninga.
- Til þess að ungt fólk sjái framtíð á Íslandi þarf það að geta búið einhvers staðar. Það er ekki raunin nú. Í nágrannalöndum okkar eru víða rekin félagsleg húsnæðiskerfi fyrir almenning, laus undan hagnaðarkröfum verktakavæðingarinnar og hávaxtastefnunnar. Förum þá leið.
- Lífeyrisþegar eiga að geta lifað mannsæmandi lífi og þeim á ekki að vera refsað fyrir að vinna þegar þeir geta.
- Við þurfum að leggja Útlendingastofnun niður. Þar með er ég ekki að leggja til landamæraleysi (þótt persónulega fyndist mér það næs) heldur held ég að innan stofnunarinnar hafi skapast undarlegur vinnustaðamórall sem vonlaust sé að vinda ofan af. Lagabreytingar munu því ekki ná að breyta því sem breyta þarf þegar lögin er túlkuð með jafnundarlegum og ómannúðlegum hætti og raun ber vitni.
- Það er galið að vísa flestum hælisleitendum sjálfkrafa úr landi á sama tíma og verið er að flytja inn erlent vinnuafl í stórum stíl. Í uppganginum þessa dagana skortir vinnuafl. Allt fólk er dýrmætt og við eigum að taka vinnufúsum höndum fagnandi. Mikill mannauður felst í ólíkum bakgrunni og reynslu þeirra sem hingað leita og við eigum, líkt og önnur ríki, að axla ábyrgð á þeim mikla vanda sem orsakast hefur af stríði, ójöfnuði og spillingu. Þetta eru efnahagslegu rökin fyrir breyttri stefnu í þessum málum. Mannúðarrökin vega enn þyngra. Sum lönd heimsins eru því miður utan hins byggilega heims þessa daganna en það er ekki flóttafólkinu að kenna. Sökin liggur annars staðar.
- Og svo er það stærsta málið og það sem sennilega þarf mest átak til að laga. Á Íslandi þrífst óásættanleg misskipting sem á rót í óréttlátri skiptingu auðlinda landsins. Stóra verkefnið er að auka jöfnuð í samfélaginu. Það á ekki að greiða fólki lægri laun fyrir að hugsa um manneskjur; kenna þeim, hjúkra eða gæta, en að stýra flugumferð eða reikna út burðarþol. Reyndar er afar brýnt að auka jöfnuð á heimsvísu en við getum byrjað hér á landi.
Hér eru peningarnir. Það er nefnilega nóg til:
- Hættum að láta ræna okkur. Það er glórulaust að landsmenn allir fái ekki fullt gjald fyrir auðlindirnar sínar til nota í sameiginlegum sjóðum okkar. Alvöru auðlindaákvæði í stjórnarskrá tekur á þessu. Látum ekki plata okkur til að samþykkja eitthvert málamyndaákvæði sem engu breytir. Þjóðin er búin að samþykkja nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnvöld í siðmenntuðum ríkjum virða þjóðaratkvæðagreiðslur. Í því felst enginn pólitískur ómöguleiki.
- Veiðiheimildir á að selja hæstbjóðanda á frjálsum markaði. Þar með geta útgerðarmenn ákveðið sjálfir hvaða verð þeir vilja greiða þjóðinni fyrir að fá að veiða fiskinn í sjónum.
- Við eigum að hætta að gefa landið okkar. Þeir sem vilja nýta íslenska raforku eiga að greiða fullt gjald fyrir það. Þeir sem selja ferðamönnum aðgang að náttúru landsins eiga líka að greiða þjóðinni fullt gjald fyrir það. Þetta eru tæknileg úrlausnarefni og í öðrum löndum eru menn fyrir löngu búnir að finna viðeigandi lausnir. Hér getum við ekki einu sinni komið upp kömrum skammlaust.
- Ýmsir landar okkar hafa ákveðið að greiða ekki skatta nema að litlu leyti og geyma auð sinn í skattaskjólum. Girðum fyrir þá leið og náum í þessa peninga. Breiðu bökin eiga að greiða meira til samfélagsins en þeir sem minna hafa. Brauðmolakenningin hefur verið afsönnuð. Það ætti að vera óþarfi að taka það fram að varast ber að kjósa þá flokka sem flagga formönnum og ráðherrum sem treysta eigin efnahagsstjórn ekki betur en svo að þeir tryggja sig með því að geyma eigur sínar í útlöndum. Slíkir lífskjaraþjófar eiga ekki heima í almannaþjónustu.
Í lokin er hér smotterí sem auðvelt er að kippa í liðinn:
- Hundar eru ekki meindýr og ættu ekki bara að fá að fara í strætó heldur líka í bankann, búðir og kaffihús.
- Hjólreiðamenn á göngustígum mættu hægja aðeins á sér og nota bjölluna. Í staðinn mættu ökumenn bíla sýna þeim meira umburðarlyndi og tillitssemi og þakka fyrir að þeir geri sitt til að draga úr umferð og mengun.
- Klukkan á Íslandi er rangt skráð, miðað við gang sólar. Lögum það, allavega á veturna.
- Og er ekki hægt að laga þetta suð sem fylgir alltaf veðurfréttunum á Rás 1?
Listinn er ekki tæmandi og einhverjir myndu örugglega vilja forgangsraða öðruvísi. Það má líka alltaf bæta í. En drífum í þessu. Það er nefnilega ekki eftir neinu að bíða. Við getum þetta. Það vantar bara herslumuninn ... Koma svo!