Við, sem eigum það sameiginlegt að vera skilgreind sem hin svokallaða íslenska þjóð, klúðruðum málunum allrækilega í síðustu kosningum og kusum af einstökum klaufaskap yfir okkur trúð – sem náði á sínum stutta (en þó alltof langa) ferli í forsætisráðuneytinu að gera sjálfan sig að athlægi út um allan heim og um leið samfélagið sem í útlendingsins augum hafði kosið hann hæfastan til að vera í forsvari fyrir fólkið í eylandinu.
Sök sér ef trúðurinn hefði verið fyndinn. En þessi trúður var með eindæmum sorglegur og undir lok stjórnartíðar hans virtust æ fleiri á því máli að hann væri hraðlyginn í þokkabót – nema þá að hann hefði þá afsökun að trúa eigin lygum sjálfur og hafa þannig, framan af, hljómað hættulega sannfærandi þegar hann reyndi að verja ýmsar umdeildar og glæfralegar ákvarðanir.
Don Kíkóti hjó blint
Skiptir kannski engu hvort trúðurinn trúði sér sjálfur eða ekki. Vandamálið var að furðu margir í þessu samfélagi trúðu honum nógu vel til að styðja hann – og/eða beintengja hann sínum prívat hagsmunum – og þannig fékk Don Kíkóti, ásamt meðreiðarsveinum- og meyjum sínum, kjöraðstæður til að berjast gegn hinu og þessu sem honum fannst ógna sér, þó að það hafi ekkert endilega ógnað íslensku samfélagi, kannski þvert á móti – og öfugt.
Nú þorir maður loks að leyfa sér að trúa að íslenskir kjósendur fái að kjósa í haust eftir lygilega kjánalegan farsa í anda The Office nú síðastliðið vor. Og þá er um að gera að vanda til verka. En hvaða flokk á að kjósa?
Við stöndum frammi fyrir því að Don Kíkóti þessi náði að höggva blint í allar áttir á undraskömmum tíma og um leið djúpt sár í þjóðarsálina, svo umdeildur sem hann var, en samfélagið mátti svosem ekki við miklu eftir Hrunið og líflegar eftiröldur þess.
Sárið ristir svo djúpt að manni finnst, satt að segja, að það sé brýn þörf á því að undirbúningur kosninganna stuðli að samtali milli ólíkra fylkinga í samfélagi sem er átakanlega klofið, samtali þar sem frambjóðendur leggi sig fram um að stuðla að gagnkvæmum skilningi.
Hagur barnanna í stjórnarráðstösku
Nú segir líklega einhver að það sé hræsni að kalla téðan karlmann trúð og fara um leið fram á samræðu með mannvirðingu að leiðarljósi. Við viðkomandi vil ég segja: Þú hefur vissulega rétt fyrir þér. En þessi tiltekni karlmaður komst samt sem áður upp með það í furðu langan tíma að sólóa eins og trúður með hag barnanna okkar í stjórnarráðstöskunni og vonandi á hann nógu góðan vin sem reynist honum betur en meðvirku meðreiðarsveinarnir og ráðleggur honum að hvíla sig svo dóninn ég – sem undirrituð er vitaskuld þegar hún skrifar svona lagað – haldi ekki áfram að herja á hann með stanslausum loftárásum.
Tilraun til skilnings
Þegar öllu er á botninn hvolft þá skipta hvorki ég né hann minnsta máli né hvað okkur kann að finnast. Það sem skiptir öllu máli er vonin um samvinnu og samtal. Að fráskildu hjónin geti reynt að tala saman áður en þau skaða barnið sitt enn frekar.
Ágreiningsefnin eru mörg og erfið; flókin, mótsagnakennd, hagsmunablandin og þrungin tilfinningum sem blinda besta fólk. Svo mörg reyndar að stundum fær maður á tilfinninguna að þrátt fyrir fólksfæðina á Íslandi búi þar að minnsta kosti fimm þjóðir. Eðli málsins samkvæmt getur það ekki talist hagkvæmt. Fyrst þó nokkuð mörg milljónalönd í Evrópu sjá hag sinn í samvinnu og samráði hljótum við sem deilum þessum kosningarétti að geta unnið saman upp að einhverju marki. Markið má kannski ekki vera of hátt en þó svo að hægt sé að stuðla að frjóu samspili ólíkra hugmynda og hagsmuna – og styrkja skynjun okkar á réttlátri sambúð.
Ólíkir hlutir aðkallandi
Það er löngu tímabært að hlusta á ákall um breytingar á stjórnarskrá því gamlar, gott ef ekki danskættaðar hugmyndir um innra stjórnskipulag samfélagsins eru hluti af ástæðu þess að við troðum marvaðann í dragúldnum vandamálum sem segja til sín aftur og aftur – og munu óhjákvæmilega gera það með illþyrmilegum hætti þangað til grunnstoðir kerfisins verða lagfærðar og mótaðar í anda nútíma samfélags.
Ég skil því vel kröfu formanna VG og Samfylkingarinnar sem og þingflokksformanns Pírata þegar þeir (eða réttara sagt þær) frábiðja sér samstarf með flokki sem á að heita andsnúinn kerfisbreytingum – og sumir kalla, ekki að ástæðulausu, varðhund hagsmunaafla. Það er rétt ályktað að fólk þarf að vita hvaða áherslur það kýs með atkvæði sínu og auk þess hefur verið erfitt að horfa framhjá yfirgangi ríkisstjórnarflokkanna andspænis stjórnarandstöðunni (og um leið fjölda kjósenda) síðustu misserin, fyrir nú utan að það er jákvætt að skerpa á áherslum og senda þau skilaboð að enginn þessara áðurnefndu flokka stefni á að verða hækja Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn.
Samt spyr maður sig hvort ólíkar raddir flokkanna mættu ekki reyna að stuðla að einhvers konar þjóðfundi í kosningabaráttunni, þó að það sé stuttur tími til stefnu; máta sig saman og ræða mikilvæg mál af samstilltri rökfestu, frjórri leit og heiðarleika svo kjósendur fái sem heillegasta mynd og öðlist tilfinningu fyrir vali sínu – í kosningalandslagi þar sem skuggarnir flökta.
Kannski, kannski...
Kannski þyrftu ólíkir flokkar einmitt að vinna um tíma saman í ríkisstjórn til að eitthvað gott og uppbyggilegt fái að fæðast í lágmarks sátt. Kannski myndi þá grynnka á pólaríseringunni í samfélaginu, kannski ekki, kannski yrði sprenging.
En kannski er, þrátt fyrir allt og allt, hægt að mynda ríkisstjórn andstæðra póla sem yrði kennd við sátt, að minnsta kosti tilraun til sátta og samtals. Það sakar ekki að velta möguleikanum fyrir sér nú þegar það hvarflar jafnvel að manni að eftir Hrunið hafi íslenskt samfélag lent í sviptivindum ríkisstjórna sem skiptast á að vera við völd með svo andstæður stefnur að á endanum verður ógjörningur að móta uppbyggilega framtíðarstefnu í einu né neinu.
Fordómar íbúanna
Það er löngu tímabært að talsmenn flokkanna blási saman til frjórrar umræðu í þágu fólksins í samfélaginu sem er auðvitað með ólíkar þarfir og raddir – en á samt ekki að þurfa að búa í margklofnu samfélagi sem ýtir undir fordóma íbúanna í hvers annars garð. Slík umræða gæti rifjað upp göfugustu hugsjónir og hugmyndir hvers flokks og leyft þeim að njóta sín á kostnað tækifærismennsku og hreppapólitíkur.
Frambjóðendur með ólíkar hugmyndir þurfa að velta fyrir sér í sameiningu og bróðerni hvernig þjóðfélag við viljum byggja og skapa afkomendum okkar en biðja öfgafólk innan sinna raða að æfa sig í að hugsa meira en tala og lesa frekar mannkynssöguna en hlusta á Útvarp Sögu.
Auðvitað dylst engum að það er furðu mikil og átakanleg stéttaskipting í þessu fámenna landi sem gerir marga skiljanlega reiða en aukin samstarfspólitík gæti samt verið skref í rétta átt og til bóta, við búum jú á sama bóli.
Við lifum jafnframt á tímum þar sem allt er að breytast og breytingar á Íslandi og í alþjóðasamfélaginu haldast í hendur; bæði hratt og bratt, á áður ófyrirséðan hátt og þannig að það er strembið að spá nokkru um framhaldið. Á svo flóknum tímum hlýtur að vera ráðlegt að tileinka sér stjórnvisku og samvinnu – og reyna að móta eitthvað í áttina að framtíðarsýn sem rúmar okkur öll og þolir óvæntar byltur.
En okkar kjósenda bíður ekki síður mikið ábyrgðarverk: Að kjósa.