Enn er upp runninn sá tími að stjórnmálamenn þurfa að treysta á almenning, því loksins hafa stjórnarflokkarnir, eða að minnsta kosti hluti þeirra, gert sér grein fyrir því að kosningar eru ekki einkamál þeirra. Kosningabaráttan er hafin, loforðin eru farin að streyma, nú er allt í einu lag að gera allt fyrir alla, þó ekki hafi unnist tími til þess allt kjörtímabilið.
Samskipti fólks geta verið flókin, við erum jú öll mannleg með okkar bresti og breyskleika og öllum verður okkur einhvern tímann á. Við erum ekki fullkomin og eigum ekki að sækjast eftir því að vera það, en við verðum að standa og falla með orðum okkar og, raunar fyrst og fremst, gjörðum.
Á því byggir traustið, á þeim samskiptum sem hafa átt sér stað. Og þegar vega á og meta hvort einhver er traustsins verður, þá skipta gjörðir meira máli en orð. Vissulega er best þegar orð og æði fara saman, en því er ekki alltaf að heilsa. Það þýðir með öðrum orðum lítið að treysta því í blindni þegar einhver lofar öllu fögru, nú sé sá tími aldeilis runninn upp að allt muni breytast, bót og betrun sé öruggt mál. Það er fallegt að treysta, á því verður mannlegt samfélag að byggja, en þegar sá eða sú sem lofar öllu fögru í orði gerir svo eitthvað allt annað, þá verður að horfa á gjörðirnar, frekar en orðin.
Maður talar ekki til sín traust, maður ávinnur sér það.
Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa verið í ríkisstjórn síðan 23. maí 2013. Í 1.181 daga hafa ráðherrar (sumir reyndar skemur) farið með málaflokka sína, flokkarnir tveir haft meirihluta á þingi og öll tækifæri til að koma stefnu ríkisstjórnarinnar í framkvæmd.
Og hver er sú stefna? Hana er vissulega að finna í stjórnarsáttmálanum og því væri kannski eðlilegast að leita þangað. En, líkt og áður var sagt, skipta orð afskaplega litlu ef gjörðir sýna annað. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætlaði til dæmis að leiða ríkisstjórnina í því að „virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“ Það fór vel hjá honum.
Og stjórnin ætlaði líka að vinna að langtímastefnumótun í ferðaþjónustu, vera í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu og ýmislegt annað smálegt eins og t.d. að afnema gjaldeyrishöft. Það var hvorki meira né minna en eitt mikilvægasta verkefni hennar, samkvæmt stjórnarsáttmálanum. Stærsta einstaka verkefni fjármálaráðherra, það sem hann og fleiri töluðu um sem forsendu heilbrigðs efnahagslífs, hvernig stendur það? Jú, höftin eru á sínum stað og þrátt fyrir skrautsýningu í Hörpu þar sem 1.200 milljörðum var reglulega veifað framan í viðstadda, aftur og aftur svo mantran festist nú í kollinum, eru heimturnar eitthvað rýrari, svo ekki sé meira sagt.
Talandi um Hörpu, í gær var einmitt blaðamannafundur þar, önnur skrautsýning. Ráðherrar uppgötvuðu nefnilega að kosningar eru að bresta á og þeir hafa ekkert gert í húsnæðismálum, nema reyndar að gefa hluta þeirra sem eiga hús töluvert af peningum. Það var nefnilega eitt af stóru loforðunum í stjórnarsáttmálanum, sem rann upp fyrir fólki að ætti svona rétt fyrir kosningar að ætti eftir að efna, að umbylta húsnæðismarkaðnum.
Já og hvað ætlaði stjórnin að gera með verðtryggingu? Ekki að draga úr henni, ekki að minnka vægi hennar, ekki að fara úr 40 ára lánum í 25. Nei, stjórnin ætlaði að gera þetta:
„Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir næstu áramót.“
Þessi ofurnefnd átti bæði að finna leið til að afnema verðtryggingu og endurkipuleggja húsnæðismarkaðinn og það átti að liggja fyrir um áramótin 2013/14 hvernig það yrði gert. Í gær var svo kynnt að niðurstaðan af þeirri vinnu er að banna 40 ára verðtryggð lán fyrir alla, ja nema flesta, og svo má fólk nota sinn eigin sparnað til að kaupa sér húsnæði. Fallega hugsað.
En hvað hefur ríkisstjórnin gert? Það er það sem skiptir máli, ekki hverju hún hefur lofað eða mun lofa fram að kosningum eða hverju hún lofaði í Hörpu í gær. Hvað hefur stjórnarmeirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks gert á þessum 1.181 degi sem þeir hafa eytt á valdastólum?
Jú, árið 2014 afnámu þeir auðlegðarskatt og afsöluðu ríkinu sér þannig árlegum tekjum upp á 10,8 milljarða. Þá lækkuðu þeir veiðigjöldin, sem þýddi 11-13 tapaða milljarða, lækkuðu tekjuskatt á tekjuháa um 5 milljarða og féllu frá hækkun vasks á gistingu og afsöluðu ríkisjóði þannig árlegum tekjum upp á 1,8 milljarða.
Þetta eru 30,3 milljarðar á hverju einasta ári sem ríkisstjórnin ákvað að færa þeim sem best hafa það í samfélaginu í stað þess að nýta í samneysluna. Það eru 90,9 á þremur árum, líklega yfir 100 milljarðar á þessum 1.181 degi síðan stjórnin tók við. Það hefði eflaust mátt nýta þessa fjármuni til eflingar heilbrigðiskerfisins, en ríkistjórnin vildi greinilega frekar þyngja vasa þeirra auðugustu í samfélaginu.
Ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks er ríkisstjórn þeirra sem eiga. Hún hefur fyrst og fremst beint sjónum sínum að efri lögum samfélagsins og kraftar hennar hafa farið í aðgerðir sem þeim koma vel. Bjarni og Sigmundur Davíð bera ekki hag þeirra sem verst hafa það fyrir brjósti, þeirra fólk er fólkið sem á peninga, hefur það bara ansi fínt. Fólkið sem hefði haft það ansi fínt þó ríkisstjórnin hefði ekki gert neitt, en hefur það bara aðeins betra núna. Þeir koma og fínstilla plasmaskjáinn og laga leiðinlega brakið í gullbryddaða hægindasstólnum svo þú hafir það aðeins betra en þú hafðir áður.
Þegar kemur að því að kjósa, sem er víst bara núna í október, ætti að hafa þessar gjörðir ríkisstjórnarinnar í huga. Ekki fögur fyrirheit og falleg orð. Fólki sem er bara annt um þig þegar það man eftir því, eða þegar það þarf á þér að halda, er nefnilega ekki annt um þig í raun.