Ég elska þennan árstíma. Ljósaskiptin eru löng og það er bjart þegar ég vakna. Myrkrið er kærkominn félagi sem býður upp á kertaljós og melankólíska tónlist. Sumarmanían er að syngja sitt síðasta hjá þjóðinni og myrkrið ekki orðinn sá óvinur sem það verður óumflýjanlega í nóvember. Skólasöknuðurinn gerir aðeins vart við sig. Það er vanmetið að vera áskrifandi að skipulagðri rútínubreytingu tvisvar á ári.
Íslendingar eru í grunninn bípólar - manískir á sumrin og þunglyndir á veturna. Í maníunni er nauðsynlegt að afstýra sólarsamviskubitinu með því að hendast beint í næstu sundlaug eftir vinnu og elta veðrið í sumarfríinu með fellihýsið brosandi í eftirdragi. Vetrinum þarf svo ekki að lýsa.
Fegurðin liggur því í þessum örfáu vikum, síðsumars, á haustin og vorin, millileikurinn sem allir líta fram hjá. Tíminn þegar allt breytist. Þess vegna er einhvern veginn viðeigandi að bjóða upp á prófkjör og kosningar á þessum tíma. Tíma fyrir breytingar.
Það er samt eins og það sé ekki mikil stemning fyrir breytingar. Frambjóðendur í prófkjöri Samfylkingarinnar reyndust færri en sætin sem átti að kjósa í með bindandi hætti og Píratar, flokkurinn sem undanfarið ár hefur haft öll tögl og hagldir og lofaði góðu, virðist eiga í bölvuðu basli með að halda prófkjör svo vel.
Sjálfstæðismenn eru í senn uggandi yfir nýlegum leikmannakaupum Viðreisnar og þunnum lista frambjóðenda í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, en aðeins fimmtán gefa kost á sér, samanborið við sextán í kraganum. Vissulega eru mjög sterkir frambjóðendur í boði hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, þó svo að misjafn sauður leynist í mörgu fé. Þrátt fyrir það virðist aldrei hafa verið betri tími fyrir nýliða til að ryðja sér til rúms, því á þriðja tug sitjandi þingmanna hafa lýst því yfir að þau sækist ekki eftir endurkjöri. Áhugi á þingsætum virðist því fara dvínandi, þrátt fyrir að áhugi fólks á stjórnmálum virðist síður en svo fara dvínandi.
Staða Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum er að mörgu leyti sérstök. Flokknum hefur vegnað tiltölulega vel undanfarin ár. Góður árangur í ríkisfjármálum kemur þar fyrst upp í hugann á mönnum eins og mér, sem hlýt að vera með þýskt sparnaðarblóð einhvers staðar aftarlega í ættum. Skuldir ríkissjóðs námu í júlí 2014 75% af landsframleiðslu en 50% á sama tíma í ár. Áhrif betri skuldastöðu og lægri vaxtagreiðslna ríkissjóðs eru ótrúlega jákvæð. Gallinn er hins vegar að í kosningabaráttu dettur engum í hug að tala um skuldastöðu hins opinbera. Heilbrigðiskerfið, húsnæðisvandi ungs fólks og fjölgun ferðamanna eru líklegri til að vera í sviðsljósinu, án þess þó að gera lítið úr mikilvægi þeirra mála. En það vinnur enginn kosningar á ríkisfjármálunum einum saman, sama hversu góður árangurinn er.
Undanfarin ár hafa nefnilega þrátt fyrir allt verið Íslandi frekar góð. Frásögnin af unga fólkinu sem ætlar að yfirgefa Ísland af því að hér er of dimmt og of bjart, og viðbrögðin við þeirra frásögn, segir kannski allt sem segja þarf. Einhver þarf að segja þeim að í Danmörku sé líka ríkisútvarp. Öfgarnar eru svo farnar að læðast aftur inn um bakdyrnar. Bónusgreiðslur sem nema einum Barnaspítala, hjólhýsi sem hægt er að stjórna með fjarstýringu og lánafulltrúar í bönkum með langa reynslu sem lýsa ástandinu sem ekki ólíku sem það var 2005. Öfgarnar eru því kannski ekki bara í árstíðunum og birtunni heldur líka í litlu þjóðarsálinni. Þótt fram undan sé vetur virðist bullandi miðnætursól í hagkerfinu. Og alveg eins og með árstíðirnar þá verðum við flest bara að dansa með hagsveiflunni á þeim takti sem henni hentar. Á meðan ætla ég bara að njóta ljósaskiptanna yfir Snæfellsnesinu og hlusta á Tom Waits.