Íslenska fyrirtækið CrankWheel setti á dögunum nýja vöru sína í loftið, forrit sem gerir notendum kleift að deila skjá eins tækis til annars á einfaldan hátt. Fyrirtækið var stofnað í febrúar á þessu ári af þeim Jóa Sigurðssyni og Þorgils Má Sigvaldssyni en hugmyndin kviknaði í september 2014.
„CrankWheel er nýstárleg skjádeililausn sem leyfir viðskiptavini þínum að tengjast á innan við 10 sekúndum,“ segir Jói um forritið. „Í fyrsta skipti er hægt að bæta við myndrænni kynningu í miðju símtali, frekar en að þurfa að undirbúa slíkt fyrirfram. Það líða bókstaflega 10 sekúndur frá því þú býður viðskiptavininum að sýna þeim myndefni, þar til hann er farinn að sjá upplýsingar af skjá þjónustuaðila. Þetta gerir manni kleift að loka sölu í gegnum símann þegar annars hefði þurft að bóka fund eftir símtalið, og bjóða betri þjónustu með því að kenna myndrænt hvernig leysa á vandamál eða til að fara myndrænt yfir reikninga eða tilboð.“
CrankWheel er fyrst og fremst hugsað fyrir sölu- og þjónustudeildir. Forritið hefur verið í prófunum síðustu mánuði en meðal viðskiptavina eru Síminn, Iceland Travel, Askja, Kóði, DoHop og Miði.is. Þorgils starfaði áður við símasölu á flóknum vörum í meiran en 15 ár, hefur keyrt yfir milljón kílómetra til að hitta viðskiptavini í eigin persónu til að loka sölum, og hefði vel hugsað sér að nýta heldur þá leið sem CrankWheel býður upp á. Sjálfur starfaði Jói hjá Google í tíu ár. Síðasta verkefnið hans var að betrumbæta innviði WebTRC í Google Chrome.
Fyrirtækið fékk hámarksstyrki frá Tækniþróunarsjóði í maí síðastliðnum, þ.e. 15 milljónir króna á ári í 3 ár. Að öðru leyti er það fjármagnað af stofnendum. Jói segir að þessa dagana safni þeir fjármagni frá fjárfestum.
„Við höfum verið síðustu mánuði í lokaðri beta prufu, og höfum þegar fengið nokkur framsækin og metnaðarfull íslensk fyrirtæki sem borgandi viðskiptavini. Við erum að klára beta tímabilið og gefa vöruna út á netinu, en þá getur hver sem er skráð sig í notkun hvort heldur sem er sem einstaklingur, en notkun þeirra er ókeypis, eða sem fyrirtæki í mánaðarlegri áskrift, en fyrirtæki fá marga gagnlega fídusa. Í næstu viku verðum við í Helsinki í Finnlandi til að mæta á Slush ráðstefnuna og fara á sölu- og fjárfestafundi sem við höfum bókað,“ segir Jói, spurður um það sem helst sé um að vera í dag.
Framundan er vinna við fleiri eiginleika sem nýtast fyrirtækjum, segir hann. „Í dag höfum við svokallað co-branding þar sem fyrirtæki fá sitt eigið URL fyrir sína fundi og geta fengið sitt lógó inná það viðmót sem snýr að viðskiptavini, en við erum að bæta við okkur svokölluðu "white label" sem viðbótarfítus, þar sem þau geta alfarið ráðið útliti þess viðmóts sem viðskiptavinur sér. Einnig erum við að vinna í eiginleikum sem við köllum "audit log" þar sem fyrirtæki geta farið yfir það hvað þeirra starfsmenn hafa verið að sýna, og "content filter" sem fyrirtæki geta notað til að koma í veg fyrir að ákveðnar upplýsingar séu sýndar með CrankWheel kerfinu.“
Er CrankWheel fyrirtæki sem gæti vaxið og dafnað á Íslandi?
„Við sjáum fyrir okkur að vöruþróun og markaðssetning verði á Íslandi, en gerum ráð fyrir að byggja upp söluteymi á erlendum mörkuðum, í Bandaríkjunum til að byrja með og ef til vill einnig í Evrópu,“ segir Jói en CrankWheel stefnir að því að bæta við sig starfsfólki við forritun og markaðssetningu á netinu.
Hvað er það sem gerir íslenskt umhverfi eftirsóknarvert fyrir ykkur?
„Það er mikið af hæfileikaríku fólki á Íslandi og kostnaðurinn við að reka fyrirtæki eins og okkar á Íslandi er ekki jafn stjarnfræðilega hár og hann væri t.d. í Kísildal, þó Ísland sé langt frá því að vera láglaunasvæði í þekkingargreinum. Hér hefur einnig verið mjög gott að byrja og nýta tengingar í ýmis fyrirtæki sem hafa getað sannreynt vöruna, en á sama tíma höfum við passað okkur að byrja nógu snemma að líta til erlendra markaða og hefja sölu til erlendra fyrirtækja, því það er margt öðruvísi á Íslandi heldur en úti og ekki gott að eyða alltof miklum tíma áður en varan og markaðsherferðin eru sannreynd erlendis. En að stóru leyti er fyrirtækið á Íslandi fyrst og fremst vegna þess að stofnendur þess vilja búa og starfa á Íslandi frekar en annarsstaðar.“