Besta vopnið gegn áróðri og nettröllum eru staðreyndir og fagleg blaðamennska,“ segir Irina Lagunina, yfirmaður rússneskudeildar Radio Liberty í Prag. Hún á að baki langan feril í blaðamennsku í Rússlandi en bjó fyrstu fimm ár ævi sinnar á Íslandi. „Faðir minn var njósnari KGB og vann hjá sovéska sendiráðinu í Reykjavík. Það er ekkert leyndarmál.“
Radio Free Europe/Radio Liberty (RFE/RL) sendir út útvarp, sjónvarpsþætti og netmiðla á 28 tungumálum í 21 landi, þar á meðal Rússlandi. RFL/RL er á bandarískum fjárlögum og var stofnuð árið 1949 til að útvarpa andkommúnískum áróðri. Stalín fyrirskipaði þá að allt yrði gert til að koma í veg fyrir að íbúar Sovétríkjanna heyrðu Radio Svoboda, eins og hún heitir á rússnesku.
Með tímanum breyttust áherslur Radio Liberty og lögð var meiri áhersla á staðreyndir og faglega fréttamennsku. Leyniþjónustur austantjaldsríkja reyndu oft að hindra fréttamenn RFL/RL. Morð, spengingar og eitranir eru meðal þess sem búlgarska, rúmenska og fleiri leyniþjónustur bera ábygð á. KGB njósnaði innan og utan frá og eyddi miklu fé í baráttu gegn útvarpsstöðinni.
Margir leiðtogar frá Austur-Evrópu og Rússlandi hafa sagt frá mikilvægi útvarpsstöðvarinnar á tímum kalda stríðsins. Fyrrum forseti Eistlands, Lennart Meri, tilnefndi Radio Liberty til Friðarverðlauna Nóbels árið 1991. Friðarverðlaunahafinn Lech Walesa, sagði árið 1989 að ekki væri hægt að lýsa mikilvægi Radio Liberty í frelsisbaráttu pólverja. Á níunda áratug Glasnost og Gorbatjovs var hætt að trufla útsendingar í Sovétríkjunum. Nú gátu andófsmenn mætt í útvarpsviðtöl án þess að eiga það á hættu að vera ofsóttir. Við lok kalda stríðsins var sendingum í Austur-Evrópu hætt og fé stöðvarinnar skorið niður. Árið 1995 voru höfuðstöðvarnar fluttar frá München til Prag með stuðningi Vaclav Havels forseta og fyrrum andófsmanns. Þar sendi stöðin út frá fyrrum aðalstöðvum kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu en flutti árið 2009 í nýtt húsnæði.
Þegar ég hitti Irinu Lagunina í aðalstöðuvum Radio Liberty í Prag í desember bendir hún á skjal á veggnum.
„Hér er leyfið sem Boris Jeltzin veitti Radio Svoboda til útsendinga í Rússlandi. Hann gerði sér grein fyrir mikilvægi stöðvarinnar árið 1991 þegar fyrrverandi ofurstar gerðu tilraun til valdaráns og Radio Liberty var eina stöðin sem flutti fréttir.“
Síðan er Pútín búinn að taka af ykkur leyfið?
„Útsendingar okkar í Moskvu voru stöðvaðar árið 2012 með lögum sem voru sett árið 2011 um að miðlar í Rússlandi verði að vera 48% í eigu Rússa. Engin önnur útvarpsstöð var í okkar stöðu í Rússlandi, við áttum okkar eigið sendingarleyfi í Moskvu og eigin útvarpsrás. Því litum svo á að þessum lögum hafi verið beint gegn okkur. Við misstum útvarpsrásina af því við höfðum ekki efni á því að fylgja lögunum og verða rússnesk það gengur einnig gegn grunnstefnu þessarar stofnunar. Þeir slökktu á útvarpssendingunum en við héldum áfram á netinu. Og tölfræðin á netinu er mjög opin, við felum ekkert sem við gerum.“
Hvað eruð þið mörg sem starfið innan rússnesku deildarinnar?
„Ekki svo margir, hér hjá okkur starfa 15 blaðamenn, og í Moskvu 30. Síðan erum við með lausráðna fréttaritara víða í Rússlandi.“
Maður hefði getað ímyndað sér að við lok kalda stríðsins myndi Radio Liberty eða Radio Svoboda þagna.
„Nei, þetta er mjög athyglisvert því ég var í Moskvu nýlega, og tvisvar sat ég í leigubíl og heyrði leigubílstjórana hlusta á okkur á Ipad. Leigubílafyrirtækin láta bílstjórana hafa spjaldtölvur og þeir nota þær til að hlusta á fréttir af umferð, veðrið, hvað sem er. Og tvisvar voru þeir að hlusta á Radio Svoboda.“
Hvernig leið þér þá?
„Alveg frábærlega þó ég hafi ekki sagt hvaðan ég kæmi. En ég gerði það reyndar einu sinni þar í strætó. Þá sat kona við hlið mér að lesa eitthvað á spjaldtölvu og ég kíkti og hugsaði, í fyrsta lagi fjallaði það um Sýrland, og síðan að þetta líktist blogginu okkar. Hver er að kópíera okkur? En svo sá ég nafnið okkar. Ég sagði þá. Óh þú ert að lesa Radio Svoboda! Og hún snéri sér hratt að mér og spurði hvöss: „Og hvað annað á ég svosem að lesa hér í þessu landi?“ Það var eins og hún ætlaði að fara að verja sig. Svo ég sagði henni að ég styddi hana algerlega í vali sínu.“
Hvernig var að vinna sem blaðamaður í Rússlandi á milli 1991 og 1993?
„Það var alveg frábært og þetta var hápunktur rússneskrar blaðamennsku. Í fyrsta lagi vegna þess að það var engin pólitísk stjórnun lengur. Og það var engin fjármagnsstjórnun heldur, enn. Fjármagnsáhrifin hófust í forsetakosningunum ´96 og seinna auðvitað.“
Semsagt tími frjálsrar rússneskrar blaðamennsku?
„Já algerlega við vorum mjög fátæk, við sem blaðamenn og einnig fjölmiðlafyrirtækin í Moskvu, en þetta var frábær tími. Allt var mögulegt. Það var mikið um rannsóknarblaðamennsku um það sem var að gerast og um fortíðina. Svo þetta var góður tími.“
Hvað gerðist svo?
„Eftir kosningar til Dumunnar 1993 breyttist hið pólitíska landslag og stemningin í Rússlandi varð önnur og dramatískari., því þjóðernissinnar fluttu í fyrsta sinn inn í þingið, Dumuna. Þá vantaði súrefni. Nú var litið á allt út frá hagsmunum Rússlands og að vestrið væri hættulegt eins og þessar áróðursherferðir sem við sjáum núna. Allt þetta hófst árið 1994. Þá fór að verða erfitt að starfa eðlilega án þess að vera þvingaður til að setja Rússland ævinlega í forgrunninn. Því fór ég að velta því fyrir mér að fara til BBC eða Radio Liberty svo ég kaus Radio Liberty.“
Ef þú berð fjölmiðlaárin 91-93 saman við tímann Moskvu í dag?
„Það er ekki einu sinni hægt að bera þetta saman. Til dæmis eru allir netmiðlar meira og minna núna undir stjórn ríkisins. Þeir sem ekki lúta beinni stjórn þurfa að aðlaga sig sem er synd, og þeir sem gera það ekki er lokað á. Netmiðlar eru semsagt nánast allir undir hæl ríkisins. Hvað varðar prentmiðla er það sveigjanlegra en æ fleiri fréttastöðvum er lokað, meira að segja leitarstöðvum er stjórnað. Sjónvarpsveitur eru settar undir eftirlit. Það er algert ofríki ríkisins núna.“
Hvert er hlutverk ykkar hér gagnvart Rússlandi?
„Við lítum fyrst og fremst á okkur sem upplýsingaveitu en þar að auki sem stuðning við frjálsa fjölmiðlun í Rússlandi. Það er ástæða þess að við leggju mikla áherslu á að gæði blaðamennskunnar séu mikil og að við séum algerlega traustur miðill. Aldrei að spekúlera eða undirbyggja hatursorðræðu eða nokkurt af því tagi. Annað athyglisvert er að við erum með tvo samtalsþætti á dag. Svart stúdíó, ekki raunverulegt sjónvarp. Í klukkutíma í litlu stúdíói í Moskvu. En þetta er þættirnir sem flestir horfa á eða lesa um. Ég get sagt þér af hverju, því fólk þyrstir í umræðu. Það er engin opinber umræða eftir í Rússlandi. Og þetta eru þættir sem má hringja inn í. Fólk tekur þátt allstaðar að úr Rússlandi. Það er einnig tvítað mikið fyrir þættina. Við spyrjum fólk á götunni í Moskvu og það svarar. Við lítum einnig á okkur sem svið fyrir opinbera umræðu.“
Þið voruð með þessa grein um daginn um rússnesk nettröll í St. Pétursborg voru einhver viðbrögð við henni?
„Ó já svo sannarlega. Við höfum gert nokkrar rannsóknir á tröllaverksmiðjum í St. Pétursborg. Og í kjölfarið urðum við fyrir árásum. Eftir þessar tvær greinar voru árásirnar mjög slæmar.“
Hvernig mælið þið áhorf og viðbrögð?
„Við erum með útbreidda samfélagsmiðla. Um 400.000 á Facebook. Og 150.000 á Twitter sem er gott miðað við Rússland. Það sem gerðist þegar rússneska vélin hrapaði í Egyptalandi, tveimur klukkutímum eftir þennan hörmulega atburð komumst við að því að það var annað hvort nettröll eða bara skrýtin persóna, sem þóttist búa einhversstaðar í Úkraínu, fótóshoppaði og setti merki Radio Liberty í Ukraínu fyrir aftan sig eins og hann stæði í stúdíói þeirra. Og hann hélt því fram að hann væri að vinna fyrir Radio Svoboda. Og fór að tvíta hluti eins og „ein flugvél er ekki nóg til að refsa Rússlandi,“ „þið ættuð að sprengja rússneskar borgir“. Hlutir eins og þetta.
Alger hatursorðræða. Og nettröllastöðvarnar í Rússlandi gripu það á lofti og básúnuðu út, „Sjáið hvað þessir bandarísku glæpamenn eru að segja, sjáið hvað þeir eru á móti Rússlandi og hvað þeir hata allt sem er rússneskt, og þetta voru þúsundir kommenta á hverri mínútu. Þetta kom á Tvitter. Fólk fór að senda mér tölvupósta og spyrja hvort þessi náungi væri virkilega að vinna fyrir okkur.
Hvernig brugðust þið við þessu?
„Ég ákvað að svara hverjum og einum og bað einnig kollega okkar í Úkraínu að senda út yfirlýsingu að þetta er ekki viðhorf okkar og þetta er ekki sá boðskapur sem við sendum út. Við sendum út yfirlýsingu um að þessi manneskja væri ekki að vinna fyrir Radio Free Europe. En ég sá hvernig fólk brást við. Og auðvitað voru tilfinningar í spilinu. Auðvitað var þetta hörmulegt slys. Og fólk vildi ekki athuga hvort þetta væri raunverulega okkar fréttamaður eða ekki. Það fór bara að yfirgefa okkur á Twitter. Og ég sá tölurnar snarlækka. Við misstum um 4000 þúsund rússneska fylgjendur á nokkrum klukkutímum. En um kvöldið ákvað ég að við værum búin að fá nóg af þessu og að við þyrftum ekki að útskýra og afsaka okkur. Ég sendi út yfirlýsingu á Twitter. Þar sem ég sagði að Radio Liberty segir að nettröll sem nýta sér mannlegar hörmungar eru svo sannarlega siðlaus. Eftir það snéri fólk aftur. Við misstum 4000 en við fengum 5000 í staðinn. Svo þetta var ein reynsla okkar af nettröllunum.“
Nú kemur RT, Russia Today og annar áróður frá rússneskum yfirvöldum.
„Þú talar núna út frá vestrænum sjónarhóli. Gagnvart vestrinu er það Russia Today og Sputnik. Þessar stöðvar snerta okkur ekki því við sendum út í Rússlandi. Þar er það ekki RT eða Sputnik heldur kerfið allt. Það er allt. Upplýsingakerfið er gjörsamlega skakkt. Þú ert með Russia 24 fyrstu og aðra rás og RTV og allar hinar ríkisstöðvarnar. Það var ein mjög góð stöð í Tomsk, TV2, en henni var einnig bannað að senda út.
En eruð þið í samstarfi við einhverjar stöðvar í Rússlandi?
„Nei það er enginn sem myndi endurvarpa okkar efni lengur í Rússlandi. Við vinnum í samstarfi varðandi endurbirtingu á efni og linkum. Við styðjum einnig og veitum upplýsingar um menningaratburði eins og nýlega heimildamyndahátíðina Artdocfest í Moskvu.“
Nú eru margar krísur í Rússlandi finnið þið fyrir auknum viðbrögðum ?
„Já, sérstaklega á Facebook. Því ef maður skoðar tölfræðina og ber saman við jafnvel frjálslyndar síður í Rússlandi er svörunarhlutfall okkar mjög hátt. Í síðustu viku höfðum voru yfir 134.000 þúsund hreyfingar, like, deilingar, athugasemdir. Það er mjög hátt með 400 000 áskrifendur. Fólk er virkt og áhugasamt um að taka þátt í umræðum um það sem er að gerast. Það þegir ekki lengur.“
Hverju spáir þú um framtíðina?
„Það er vandamálið við einræðisríki það er ekki hægt að spá í framtíðina. Og þess vegna eru þau svo hættuleg.“
Á leið út úr aðalstöðvum Radio Liberty í Prag kom ég við hjá Brian Whitmore. Hann er meðal annars með videoblogg á ensku þar sem hann tekur daglega saman það helsta í Rússlandi á hressilegan hátt.