Guðrún Ósk Þorbjörnsdóttir hefur starfað sem sérfræðingur á skrifstofu jafnréttismála hjá hernaðaryfirvöldum NATO í tæpt ár. Hún lærði stjórnmálafræði og kynjafræði við Háskóla Íslands og tók í kjölfarið mastersnám við Háskólann í Árósum í Danmörku í umhverfis- og átakafræði (e. Human Security). Hún vann mastersrannsókn sína á Fiji eyjum.
„Ég fór sem skiptinemi til Nýja Sjálands þegar ég var í menntaskóla og ákvað að fara þangað aftur þegar ég var komin með fjölskyldu til að sýna þeim landið. Við nýttum tækifærið og fórum í raun hringinn í kring um hnöttinn og vörðum töluverðum tíma á Fiji-eyjum. Þar kynntist Guðrún samtökum sem unnu að valdeflingu kvenna í dreifbýli í landinu, sem varð síðar kveikjan að mastersrannsókn hennar. Hún gerði eigindlega rannsókn með viðtölum við 20 konur þar sem hún reyndi að komast að því hvernig vinnan með samtökunum hefði haft áhrif á þeirra líf.
Fimm ára dóttirin talar fjögur tungumál
„Þetta var yndislegur tími. Vinnan með konunum gaf mér mjög mikið, enda er ég enn þann dag í dag að vinna að þessum málefnum. Á Kyrrahafssvæðinu er pólitísk þátttaka kvenna sú minnsta í heiminum og heimilisofbeldi gagnvart konum er gríðarlega stórt og mikið vandamál. Það var frábært að sjá þann árangur sem varð með starfi þessara samtaka og fá að vera þátttakandi í því,” segir Guðrún. „Svo var þetta líka dýrmætur tími fyrir fjölskylduna mína og að fá að vera með þeim þarna var afskaplega gott og mikið ævintýri.”
Guðrún var á Fiji-eyjum með manni sínum, Hólmari Sigmundssyni, og Ylfu, þriggja ára dóttur þeirra, í fjóra mánuði árið 2014.
„Dóttir mín fór fljótlega að tala ensku, sem er eitt þriggja tungumála talað á Fiji-eyjum. En sem betur fer var hún ekki alveg búin að gleyma dönskunni.”
Dóttir Guðrúnar er fimm ára í dag og talar fjögur tungumál: íslensku, dönsku, ensku og frönsku eftir að fjölskyldan flutti til Brussel. „Ég verð að viðurkenna að danskan fékk aðeins að víkja fyrir frönskunni,” segir Guðrún.
Úr UN Women í NATO
Eftir dvölina á Fiji-eyjum fluttist Guðrún aftur til Danmerkur, í þetta sinn til Kaupmannahafnar, hvar hún hóf störf hjá UN Women í starfsþjálfun. Guðrún segir þann tíma hafa verið skemmtilegan og gefandi.
„En mig langaði að vinna meira að þessum málefnum sem ég hafði kynnst hjá UN Women, sérstaklega þegar kemur að hernaðarmálum í stofnun eins og NATO þar sem umhverfið er mjög karllægt,” segir hún. „Ég vissi í raun lítið um þann heim og mig langaði til að fræðast meira um hann. Og það er svo sannarlega áhugavert að vinna að þessum málefnum innan hermálasviðsins.”
Guðrún sótti um starfsþjálfun hjá NATO og hóf þar störf í byrjun síðasta árs. Stuttu síðar var hún ráðin sem sérfræðingur á jafnréttisskrifstofu hermálayfirvalda stofnunarinnar. Maður Guðrúnar vinnur sem forritari hjá íslensku fyrirtæki og vinnur frá Brussel og dóttir þeirra gengur í skóla þar.
„Við erum rosalega heppin og það eru auðvitað mikil forréttindi fyrir mig að hann sé í þannig vinnu að hann geti fylgt mér í þetta,” segir Guðrún.
Hún segir starfið afar fjölbreytt og snúa fyrst og fremst að stöðu kynjanna innan herliða aðildarríkja NATO. Afar misjafnt getur verið eftir löndum hvort lagðar séu áherslur á slíkt innan herliða ríkjanna.
„Auk þess leggjum við mikla áherslu á almenn kynjasjónarmið í aðgerðum bandalagsins. Samstarf og samskipti við aðildarríkin og fastanefndir þeirra er líka mikilvægur hluti af starfinu, þar sem vinna okkar byggir á samstöðu þeirra,” segir hún.
Reglur samþykktar um kynbundið ofbeldi í stríði
Í byrjun síðasta árs, þegar Guðrún hóf störf, lagði skrifstofa jafnréttismála NATO fram drög að hernaðarlegum viðmiðunarreglum um hvernig megi fyrirbyggja og bregðast við kynbundnu ofbeldi í stríðsátökum. Þær reglur voru í kjölfarið samþykktar af aðildarríkjunum í sumar, sem var gríðarlega jákvætt skref, að mati Guðrúnar.
Jafnréttisskrifsstofa hermálasviðs NATO var stofnuð árið 1997 og starfar fyrir nefnd NATO um kynjasjónarmið, sem verður 40 ára á þessu ári. Sú nefnd byrjaði sem samtök kvenna innan herliða NATO og var síðar breytt í nefnd um kynjasjónarmið.
Skrifstofan samanstendur af þremur starfsmönnum, allt konum; Guðrúnu, yfirmanni hennar, sem er liðsforingi úr tékkneska flughernum, og aðstoðarkonu liðsforingjans sem kemur úr ítalska hernum.
Mikill meirihluti starfsmanna hermáladeildar NATO kemur úr herliðum aðildarríkjanna, en þó eru þar líka óbreyttir borgarar, eins og Guðrún.
Safna gögnum um kynferðisbrot
„Við vinnum fyrst og fremst fyrir nefnd NATO um kynjasjónarmið. Við skipuleggjum vikulaga ráðstefnu á ári hverju fyrir nefndina þar sem fulltrúar frá aðildar- og samstarfsríkjum NATO koma saman og og þróa tillögur sem lagðar eru fram fyrir Hermálanefnd NATO. Á síðasta ári fengum við Astrid Prinsessu af Belgíu sem sérstakan gest á ráðstefnuna," segir hún.
Skrifstofa Jafnréttismála safnar einnig árlegum skýrslum aðilldarríkjanna um stöðu kvenna innan hersins.
„Núna er ég að taka saman þau gögn. Þá fáum við til dæmis yfirsýn yfir verkferla í tilkynningum um kynferðisbrot, samræmingu vinnu og fjölskyldulífs, áherslur á kynjasjónarmið innan hersins og í aðgerðum, og fleira," segir Guðrún. „Það getur verið mjög misjafnt eftir ríkjum hvort lagðar séu áherslur á slíkt. En með því að safna þessum gögnum getum við að einhverju leyti séð hvar hindranirnar liggja og hvað megi betur fara. Nú erum við aftur komin á fullt við að undirbúa næstu árlegu ráðstefnu."
Herbúningar í vinnunni og mikill agi
„Það er mjög sérstök upplifun að vinna í þessu umhverfi. Nær allir vinnufélagar mínir mæta til dæmis í herbúningum í vinnuna á meðan ég er bara í venjulegum fötum,” segir Guðrún og bætir við að vinnubrögðin séu sumpart ólík því sem hún átti að venjast. „Þau nota aðrar aðferðir en maður er vanur, sem ég hef lært mjög mikið af. Þau eru praktísk í hugsun og vinna á mjög skilvirkan hátt. Þetta er afskaplega agað umhverfi og það eru engar afsakanir ef þú skilar ekki af þér verkefnum á réttum tíma,” segir hún. „En stundum vantar líka að hugsa aðeins út fyrir kassann. Þess vegna held ég að það sé mjög gott að hermenn og óbreyttir borgarar vinni saman til að viðhalda jafnvægi.”
Vinnudagurinn er oftast nær frá 8:30 til 17:30 og skrifstofan er í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Guðrúnu finnst gaman í vinnunni og segist læra eitthvað nýtt á hverjum degi.
„Þetta er mjög krefjandi vinna og það eru ótrúleg forréttindi að fá að vinna að einhverju sem ég trúi á og hef brennandi áhuga fyrir,” segir hún. „Svo lengi sem ég fæ að gera það er ég ánægð.”
Guðrún er eini Íslendingurinn innan hermáladeildar NATO, þar sem starfa rúmlega 400 manns. Svo er hún kona, en mikill meirihluti starfsmanna eru karlmenn.
Vantar kraft í innleiðingu jafnréttismála
Fólk rekur upp svolítið stór augu þegar það heyrir hvaðan ég er,” segir hún. „Og svo er ég oft eina konan á fundum, sem var svolítið skrýtið fyrst. En hlutfall kvenna í herliðum aðildarríkjanna er 10,3 prósent og það endurspeglast að einhverju leyti hér. Þetta er mjög karllægt umhverfi.”
Hún segir áherslur NATO í jafnréttismálum hafa aukist á undanförnum árum og finnur mikinn stuðning við málaflokkinn innan stofnunarinnar. Í raun er meiri áhersla á jafnrétti kynjanna heldur en hana grunaði í fyrstu.
„En það er enn langt í land þó að áherslur hafi verið auknar. Helsta áskorunin í málflokknum er að þrátt fyrir margar mjög fínar stefnur og ályktanir, þá hefur innleiðing verið rosalega hæg og oft vantað mikinn kraft í framkvæmdirnar,” segir hún. „Í grunninn er þetta spurning um forgangsröðun og það á við um allar alþjóðastofnanir sem vinna að þessum málum. Fólk þarf að átta sig á að þetta skipti máli og þá fyrst kemur vilji og fjármagn til að hrinda hlutum í framkvæmd.”