Hvernig stuðlum við að velgengni barna?

Björn Rúnar Egilsson
paul tough
Auglýsing

How Children Succeed – Grit, Curiosity, and the Hidden Power of Character eftir Paul Tough er áhugaverð og margslungin bók sem kastar lesendum beint ofan í djúpu laug uppeldisfræði, þroskasálfræði og taugalífeðlisfræði, en þar leitast höfundurinn við að benda á það sem mestu máli skiptir í uppeldi barna og hvað hjálpi þeim að standa sig vel í námi. Paul tekur fyrir áhugaverðar og mikilvægar kenningar fræðimanna þar að lútandi og lýsir umbótastarfi hinna ýmsu menntafrömuða í Bandaríkjunum, nýjum áherslum og aðferðum í kennslu og skólastarfi. Hann beinir sjónum sínum sérstaklega að samspili hormóna, tilfinninga og heilastarfsemi á meðan börn eru að vaxa úr grasi og þeim jákvæðu þáttum í skapgerð barna sem hjálpa þeim að ná árangri og öðlast lífsfyllingu. Bókin hefst á því að fjalla um börn frá brotnum heimilum og skólum í vanda og lýsir slökum námsárangri sem mörgu velmeinandi og umbótasinnuðu menntafólki hefur ekki tekist að afstýra og ekki er hægt útskýra með því að vísa einungis til lélegrar kennslu eða fjárskorts. Dæmi eru tekin af skólum í fátækum hverfum sem glíma við fjarvistir, brottfalli, agaleysi og ofbeldi, en sterk fylgni er á milli erfiðra uppeldisaðstæðna og slælegrar frammistöðu í skóla ásamt slakrar námsframvindu. Alvarleg skakkaföll snemma á lífsleiðinni, skortur á tengslum við foreldra og sú streita sem fylgir því að alast upp í fátækt og óreiðu hefur hamlandi áhrif á lykilþætti þess að þrauka skóladaginn og standa sig vel í námi sem krefst þess að börnin einbeiti sér, geti haldið kyrru fyrir og fylgt fyrirmælum.

Ljónið og lánið

Rétt eins og hjá öðrum spendýrum þróaðist streituviðbragðskerfi mannslíkamans til þess að bregðast við skyndilegri og alvarlegri hættu. Það kom sér afar vel þegar fólk komst í tæri við rándýr á gresjunum og þurfti annað hvort að leggja til atlögu eða forða sér í snarhasti. Þegar möguleg hætta er á ferðum seytir undirstúka heilans (hún stjórnar ómeðvituðum líffræðilegum ferlum eins líkamshita, hungri og þorsta) efnum sem koma af stað keðjuverkun í hormónakerfi líkamans og virkja herskara sértækra streituviðbragða til þess að manneskjan sé betur í stakk búin til að takast á við hana; taugasendar eru virkjaðir, magn glúkósa og bólgupróteina eykst í blóðinu á meðan hjarta- og æðakerfið dælir því í vöðvana. Flestir kannast við líkamleg áhrif streitunnar sem fylgja hættulegum eða óþægilegum aðstæðum (eins og þurfa að halda óundirbúna ræðu): óttatilfinningu og kvíða, hröðum hjartslætti, þvalri húð og munnþurrki. Þrátt fyrir að viðbragðskerfi þetta, sem við höfum fengið í arf, sé afar margslungin smíð er það hvorki sérsniðið að streituvöldum nútímalífs né fært um að greina aðstæður þannig að líkaminn bregðist við í samræmi við hættuna. Paul leggur til að við sjáum það fyrir okkur eins og afar fullkomna slökkvistöð sem sendi alla bíla á fleygiferð með sírenuna í gangi í hvert einasta útkall. Það komi sér vel þegar um stórbruna sé að ræða en valdi í meirihluta tilfella óþarfa álagi eða umferðarslysum. Streituviðbragðskerfi nútímafólks virkjast oftar en ekki af hugrænum ferlum við að hafa áhyggjur af hlutum eins og afborgunum lána, sambandserfiðleikum eða starfsframa en ekki við að mæta ljóni á gresjunni. Vísindamenn eru einnig byrjaðir að átta sig á því að kerfið er ekki aðeins gagnslaust í slíkum tilfellum heldur getur auk þess haft skaðleg áhrif á líkamann sé það virkjað endurtekið langtímum saman – sérstaklega á heilaþroska barna.  

Auglýsing


Hversu mikilvægt er að skilja taugalífefnafræðileg áhrif streitu til þess að bregðast við námsörðugleikum og hegðunarvanda barna sem alast upp í skugga fátæktar og óreiðu? „Það er dálítið undarlegt að þessar rannsóknir eru bæði afar áhugaverðar og hjálplegar, en þegar maður hefur sökkt sér í þær bjóða þær ekki upp á augljósar lausnir. Við búum nú yfir nákvæmum skilningi á því hvernig uppvöxtur í óreiðufullu umhverfi hefur áhrif á ákveðinn hluta heila þeirra og samspili hormóna, erfðaþátta og hegðunar, en það hefur ekki leitt til uppskriftar að lausn vandans eða mun leiða til hennar. Það er ekki þannig að við getum fengið pillu eða sprautu sem bregst við áhrifum kortisóls á heilaþroska. Lausnirnar sem hafa verið lagðar til lúta að breyttu umhverfi barnanna, í skólanum og heima fyrir. Jafnvel þótt við skildum ekki þessa taugalífeðlisfræðilegu þætti sem hafa áhrif á líf þessara barna myndum við eflaust bregðast við á svipaðan hátt og við erum að gera. Samt sem áður eru þeir mjög gagnlegir að mínu mati, að því leyti að þeir breyta sýn manns hvort sem maður er vísindamaður, foreldri eða barnalæknir. Manni verður ljóst að þetta er hvorki tilviljunum háð né vegna þess börn sem alast upp í erfiðum aðstæðum skorti góðar fyrirmyndir eða eitthvað slíkt. Umhverfi þeirra hefur þessi djúpstæðu áhrif á þau.“

Gott atlæti: að sleikja og snyrta

Í How Children Succeed er fjallað um rannsóknir sem benda til þess að áhrif góðs uppeldis séu lífefnafræðileg, hafi jákvæð áhrif að þroska heilans og geti dregið úr áhrifum skaðlegra þátta í umhverfi barna. Einnig eru líkur leiddar að því að framkoma foreldra hafi áhrif á genatjáningu í mönnum og rottum. Paul fjallar um vísindamenn, sem fylgdust náið með ólíku uppeldi rottuunga; annars vega þeirra sem reglulega voru snyrtir og sleiktir í bak og fyrir af mæðrum sínum og hins vegar þeirra sem skorti slíkt atlæti. Fyrrnefndu rottuungunum vegnaði almennt betur og voru heilbrigðari, áræðnari, félagslyndari, forvitnari og lunknari að finna réttu leiðina í gegn um völundarhús á meðan margir hinna vanhirtu unga voru taugaveiklaðri, árásargjarnari og síður í stakk búnir til þess að leita sér að fæðu. Atlætið sem ungarnir fengu í upphafi hafði afgerandi áhrif á heilaþroska þeirra og hegðun síðar á lífsleiðinni. Eins eru til rannsóknargögn sem benda í sömu átt hvað mannfólkið varðar og þar komum við niður að kjarna alls uppeldis, sem eru gömul sannindi og ný: sú tengslamyndun og gott atlæti sem hlýst af náinni samveru foreldra og barna skiptir höfuðmáli fyrir þroska þeirra og velferð. Þetta er eitthvað sem ætti að vera á allra vitorði en er það samt ekki eða virðist gleymast. Til er þverfaglegur samstarfshópur á Íslandi sem heitir SAMAN hópurinn og hefur hann það meðal annars að markmiði að koma jákvæðum skilaboðum til foreldra sem beina athygli þeirra að ábyrgðinni sem fylgir uppeldishlutverkinu og hvetja til jákvæðra samskipta innan fjölskyldunnar. Hópurinn er skipaður forvarna- og tómstundafulltrúum og félagsráðgjöfum auk verkefnastjóra hinna ýmsu félagasamtaka sem vinna á einn eða annan hátt að velferð barna og ungmenna. Samvera skapar góð tengsl er eitt af slagorðum hópsins og á rætur sínar í niðurstöður rannsókna sem sýna að börn og unglingar sem verja tíma með foreldrum sínum eru síður líklegir til að sýna ýmis konar áhættuhegðun.

Í bókinni fjallar höfundur einnig stuttlega um fræðimenn sem halda því fram að stuðningsúrræði fyrir foreldra séu bæði áhrifaríkari og ódýrari fyrir samfélagið en að takast á við afleiðingar slæmra uppeldisskilyrða síðar meir með uppbótarkennslu eða sérstöku starfsnámsátaki og skili áþreifanlegum efnahagslegum ávinningi til lengri tíma. Þar sem allt virðist benda til ótvíræðs mikilvægis umhyggjusams uppeldis og foreldrafærni liggur beint við að spyrja hvernig best sé að að styðja þá foreldra sem einhverra hluta vegna valda börnum sínum kvíða og streitu eða sýna skort á umhyggju í uppeldishlutverkinu. Paul segir margvísleg stuðningsúrræði vera í boði en að þau sem séu áhrifaríkust eigi það sameiginlegt að fagaðilar vinni með foreldrum í áhættuhópi á beinan hátt og hjálpi þeim að mynda sterk tilfinningatengsl á meðan börnin eru ung. „Í stað þess að gefa þeim bæklinga og fyrirmæli eða gagnrýni fara þeir til þeirra og fylgjast með þeim eiga samskipti við börnin sín og benda þeim á uppbyggilega framkomu sem er líkleg til þess að stuðla að eðlilegum þroska heilans og streituviðbragðskerfisins. Það að koma einfaldlega auga á þessa jákvæðu þætti og segja: gerið meira af þessu! virðist hafa mikil áhrif á hegðun foreldranna.“ 

Ókostir allsnægtanna og efnuðu þyrluforeldrarnir

Paul Tough Uppeldislegur vandi í Bandaríkjunum einskorðast ekki við tekjulægri þjóðfélagshópa eða foreldra í heljargreipum vímuefnaneyslu eða heimilisofbeldis, heldur er hann einnig að finna í efstu lögum samfélagsins. Uppeldisaðstæður margra barna í velmegandi fjölskyldum einkennast af tilfinningalegri fjarlægð, skorti á samvistum og kröfum um velgengni í námi og íþróttum, sem erfitt er að standa undir. Saman geta þessir þættir myndað eitraðan kokteil og kynt undir tilfinningar eins og skömm og vanmátt. Um er að ræða börn og ungmenni sem frá leikskólaaldri sækja virtar skólastofnanir með háum skólagjöldum og þungum inntökuprófum. Í huga foreldranna er þetta vegferð sem á að tryggja þeim öruggan starfsframa en hefur gjarnan innihaldsrýrt líf í för með sér og elur af sér börn sem eru frekar drifin áfram af óttanum við að mistakast en nokkurri heilsteyptri þrá. Í þessu samhengi verður Paul tíðrætt um svokallaða þyrluforeldra og bið ég hann um að skilgreina það nánar. „Það er hugtak sem er notað um foreldra sem eru alltaf á sveimi yfir börnum sínum. Þeir eru oftast vel stætt fólk sem vill ekki leyfa börnum sínum að leysa eigin vandamál og heyja eigin orrustur. Þannig taka þeir ákvarðanir fyrir þau og hjálpa í gegn um hverja einustu krísu og vandamál. Þessi þrá er til staðar hjá hverju foreldri þar sem enginn vill sjá barnið sitt í erfiðleikum en með því að greiða leið þess er maður að gefa þau skilaboð, oft ómeðvitað, að það geti ekki tekist á við eigin vandamál og geti ekki séð um sig sjálft.“

Foreldrar finna flestir hjá sér hvöt til þess að koma til móts við þarfir barna sinna, vernda þau fyrir hvers kyns hættum og óþægindum, en þar rekumst við á þverstæðu í foreldrahlutverkinu: að tilhneigingin til að vernda börnin getur hamlað þeim og gert þeim meira illt en gott. Dekur og ofvernd er dýru verði keypt með lágum þröskuldi fyrir mótlæti og mögulegum skapgerðarbrestum. Paul hefur kynnst sér rannsóknir sem taka fyrir börn sem alast upp við allsnægtir en stríða við ýmis konar vanda eins og kvíða, árásarhneigð og vímuefnamisnotkun. Telur hann að það megi að mörgu leyti rekja til foreldranna. Það geti verið flókið að takast á við vanda barna sem alast upp í velmegun vegna þess að ekki er litið á hann á sama hátt og slakan árangur barna af litlum efnum, þar sem þau njóta ýmissa forréttinda og tækifæra og því liggi ekki beint við að það sé hlutverk ríkisins að stíga inn í aðstæðurnar og aðstoða foreldrana. Hins vegar segir hann ákveðna vakningu vera að eiga sér stað meðal efnameiri foreldra. „Það sem mér finnst hvetjandi er, að margir þeirra eru meðvitaðir um þennan vanda og hafa keypt bókina mína og aðrar bækur og vita að umhverfi barna sinna valdi þeim streitu. Þeir hafa ekki alltaf fundið bestu leiðina til þess að takast á við þetta og ég held að það sé alls ekki auðvelt þar sem sem krafan um árangur kemur frá foreldrunum sjálfum, skólunum, vinnustöðum og samfélaginu öllu.“   

Frá Aristótelesi og Konfúsíusi til Pokémon

Það er því ekki svo einfalt að gáfnafar og efnislæg gæði feli í sér nægjanleg skilyrði fyrir heilbrigðum uppvexti og velgengni í námi. Á hinn bóginn eru dæmi um nemendur sem alast upp við fátækt og erfiðar heimilisaðstæður en ná samt sem áður að yfirstíga þær hindranir sem á vegi þeirra verða og standa sig vel. Því er menntafólk í auknum mæli farið að skoða þætti í fari einstaklinga sem hægt er að kalla skapgerðarstyrkleika, dygðir eða mannkosti (Character Strengths); kosti sem gera manneskjuna burðugri og líklegri til þess að sigrast á erfiðleikum og standa sig vel í þeim verkefnum sem hún fæst við. Talsverð gerjun hefur átt sér stað undanfarin ár í þessum málum og hefur hún haldist í hendur við aukinn áhuga almennings og fræðimanna á jákvæðri sálfræði. Í þessu samhengi má nefna tvo ólíka grunnskólaskóla í New York til sögunnar: KIPP Academy (Knowledge Is Power Program) í Bronx og Riverdale Country School sem staðsettur í iðagrænu hverfi sem ber sama nafn og hefur verið heimkynni auðugustu fjölskyldna borgarinnar um langt skeið. David Levin, stofnandi KIPP, þótti sýna framúrskarandi árangur í því að taka á móti nemendum af litlum efnum og gera þá að afbragðs námsmönnum. Áður en langt var liðið frá stofnun skólans árið 1994 voru einkunnir nemenda hans að meðaltali þær fimmtu hæstu í allri borginni. Nemendur skólans stóðu sig að jafnaði afar vel en Levin tók eftir því að það tók að fjara undan mörgum þeirra þegar framhaldsskólanámið tók við. Hann áttaði sig á því, að þeir sem ekki heltust úr lestinni voru ekki endilega þeir sem áður höfðu fengið hæstu einkunnirnar heldur þeir sem bjuggu yfir eiginleikum eins og bjartsýni, þrautseigju og félagslegri lipurð; nemendur sem gátu tekist á við slæmar einkunnir með því að spýta í lófana og gera betur næst, jafnað sig á sambandsslitum eða ósætti við sína nánustu og staðist freistinguna að fara út á lífið í stað þess að sinna náminu. Levin og starfsfólk hans hafði frá upphafi freistað þess að skapa góðan og hvetjandi skólabrag og hlúa að skapgerð nemenda með ýmsum aðferðum eins og hvatningarfundum, uppörvandi veggspjöldum og slagorðum, en eitthvað meira þurfti til að þeir fengu sem bestan undirbúning fyrir lífið eftir útskrift.  

David Levin hefur um þó nokkur skeið skeggrætt þessi mál við skólastjórann í Riverdale, Breta á sextugsaldri að nafni Dominic Randolph. Dominic telur það hlutverk skólans að hlúa að og móta heilbrigða skapgerð og er á þeirri skoðun að það sé ekki aðeins ósanngjarnt að meta nemendur aðeins eftir prófniðurstöðum og greindarvísitölu þar sem þannig sé ekki einungis horft fram hjá veigamiklum þáttum í því að vera farsæl manneskja, heldur sé einnig verið að búa svo um hnútana að nemendur öðlist ekki þá færni sem þarf til að standast áskoranir lífsins. Þeir félagar hafa kastað fram ýmsum hugmyndum á milli sín eins og um hvernig hægt sé að vinna með þessa þætti í skólastarfinu og hvort umsögn um skapgerð nemenda eða einhvers konar einkunnagjöf ætti að vera við lýði. Levin þótti hugmyndin um skapgerðareinkunnir nógu góð til þess að hefja vinnu við að þróa slíkt mat en Randolph óttast að um leið og einhvers konar skali sé búinn til sem komi fram á einkunnaspjaldinu muni metnaðarfullir nemendur reyna að læra inn á kerfið til þess að fá sem hæstar einkunnir.

Þeir Randolph og Levin hafa sótt innblástur í bók sálfræðinganna Martin Seligman og Christopher Peterson Martin sem ber titilinn Character Strengths and Virtues: A Handbook and Classification. Við gerð bókarinnar leituðu sálfræðingarnir víða fanga; allt frá dygðasiðfræði Aristóelesar, verkum Konfúsíusar og indverskum og gyðinglegum helgiritum til skátahandbókarinnar og Pokémonspila til þess að setja saman lista tuttugu og fjögurra skapgerðarkosta sem væru hafnir yfir landamæri menningarsvæða og tímabila og myndu leiða til hamingju- og innihaldsríks lífs. Randolph og Levin þótti listinn of langur til þess að hann kæmi að gagni í skólastarfi og báðu Peterson um að skera listann niður í mannkosti sem tengdust lífsfyllingu og árangri sérstaklega. Niðurstaðan varð eftirfarandi: þrautseigja, sjálfstjórn, lífsgleði, félagsgreind, þakklæti, bjartsýni og forvitni. 

Fínstilltur kvikindisskapur

Mannkostir, skapgerð eða dygðir – sama hvaða nafni við nefnum þetta þá eru orðin vandmeðfarin og geta haft ólíka merkingu milli fólks. Þrátt fyrir að flestir foreldrar reyni að hafa jákvæð áhrif á skapgerðarþroska barna sinna og innræti þeim bæði meðvitað og ómeðvitað einhvers konar gildi er viðfangsefnið eldfimt í allri umræðu um menntamál. Í Bandaríkjunum hefur fólk verið uggandi yfir því að leggja áherslu á skapgerðarmenntun eða dygðir í skólastarfi og sumir óttast móralisma eða pólitíska innrætingu. Þrátt fyrir það hafa fleiri og fleiri komist á þá skoðun að undanförnu að skapgerð skipti máli í menntun en Paul bendir á að flestar tilraunir til að hlúa að mannkostum og styrkja skapgerð séu yfirborðskenndar og ómarkvissar. En hvernig er hægt að gera þetta vel? Vel heppnuð skapgerðarmenntun hlýtur að þurfa að fela eitthvað meira í sér en hvatningarfundi eða veggspjöld með slagorðum? „Eftir því sem ég les mig betur til og hugsa meira um þetta verð ég sannfærðari um að það sé ekkert vit í því að reyna að kenna skapgerð á sama hátt og stærðfræði eða sögu. Það er ekki til mikið af gögnum sem sýna að þessar aðferðir duga og margt sem bendir til þess að frumkvöðlaverkefni sem reyni að kenna það á þennan hátt virki ekki. Ég held að það sé heillavænlegra að hjálpa krökkum að þróa styrkleika sína í gegn um námsumhverfið. Það getur augljóslega haft eitthvað að gera með samband fullorðinna og barna með því að auka á samkennd meðal ungs fólks og tengsl þess við skólann en ég held að vinnan sem þau fáist við skipti meira máli og umgjörðin sem er sköpuð um hana innan skólans þar sem hægt er að læra af mistökum og skakkaföllum á meðan vinnunni vindur fram.“

Lesendur kynnast mörgum áhugaverðum menntafrumkvöðlum, kennurum og vísindamönnum á síðum bókarinnar en sá eftirminnilegasti er skákkennarinn Elizabeth Spiegel. Elizabeth kennir skák í Intermediate School 318 í Brooklyn og hefur náð miklum árangri með nemendur sína á landsvísu en beitir jafnframt óvenjulegri aðferðafræði. Þegar hópurinn keppir á mótum koma krakkarnir eftir hverja skák til hennar með leikbókina (hvort sem þeir hafa unnið eða tapað) og skoða framvindu leiksins lið fyrir lið. Tilgangurinn er að hægja á hugsanaferlinu, stilla hvatvísina af, grandskoða afleikina og velta upp öðrum möguleikum í stöðunni. Spiegel er á þeirri skoðun að krakkar þurfi stundum á því að halda að heyra að frammistaða þeirra sé ófullnægjandi því annars hafi þeir enga ástæðu til þess að bæta sig. Hún viðurkennir að hún geti verið hvöss (eitt sinn algjör tík að eigin sögn) þegar nemendur hennar leiki af sér í óðagoti og tapi en ögranir hennar sýna að hún tekur þau alvarlega og er annt um að þeim fari fram. Hún segir þeim jafnframt að það að tapa sé eitthvað sem maður geri en skilgreini mann ekki sem einstakling. Paul segir að þegar krakkar hugsi að þau séu einfaldlega ekki nógu klár þegar á móti blási hamli það getu þeirra til að skila árangri: „Þegar manni tekst að sannfæra þau um hið gagnstæða, þegar maður hjálpar þeim að skilja, að við getum öll breyst og þróað ólíka færni með því að leggja okkur fram gengur þeim miklu betur.“ Þrátt fyrir að flestum þyki óþægilegt að dvelja við mistök sín og horfast í augu við eigin takmarkanir, er það óneitanlega lærdómsríkt og veitir tækifæri til framfara og þroska, sé það gert með réttu hugarfari. Eftir að hafa skoðað fjölmargar tilraunir til hlúa að styrkleikum nemenda segir Paul að það sem hún sé að gera í skákkennslu sinni komist næst því að vera aðferð til þess að takast á við skapgerð og megi nýta í kennslu annarra faga eins og stærðfræði: „Það sem gerir þetta svo áhugavert er að Elizabeth Spiegel talaði aldrei um skapgerð, hún setti ekki upp nein veggspjöld eða flutti fyrirlestra um mannkosti.“

Er einkunnaspjaldið mælikvarði alls?

Ný aðalnámskrá leit dagsins ljós á Íslandi árið 2011 sem byggir sex grunnþáttum menntunar og boðar nýtt námsmat sem byggir á hæfniviðmiðum og lykilhæfni sem skilgreind eru í fimm þáttum: tjáning og miðlun, skapandi og gagnrýnin hugsun, sjálfstæði og samvinna, nýting miðla og upplýsinga og ábyrgð og mat á eigin námi. Lykilhæfnina átti upphaflega að meta til einkunnar þvert á námsgreinar en fallið var frá því eftir að Illugi Gunnarsson tók við mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem honum þótti lykilhæfnieinkunnirnar fela í sér dóma um mannkosti barna. Um þetta eru einnig skiptar skoðanir vestanhafs þar sem fólk hefur spurt sig, hvort skapgerð eigi að koma fram á einkunnaspjaldinu ef hún eigi erindi í formlegri menntun. Skólastjórinn í Riverdale vill ekki að þetta verði að eiginleikum sem hægt sé að gera sér upp eða læra utan að. Er hætta á því að þessir kostir eða dygðir verði óeinlægir eða uppgerð við einkunnagjöf eða annars konar mat? „Ég held að hann hafi rétt fyrir sér að mörgu leyti. Ég held að einkunnaspjaldið í KIPP sé áhugaverð tilraun og mögulega góð leið til þess að fá kennara, foreldra og nemendur til þess að ræða mannkosti sín á milli en það mun ekki endilega hjálpa þeim að þroskast. Ég hef áhyggjur af því að það reynist árangurslaust eða komi í bakið á nemendum ef að þeir halda að um sé að ræða sérstaka eiginleika þau annað hvort hafi eða ekki. Hugmyndin um mannkosti sem sérstök fyrirbæri, sem hægt sé að mæla, virðist mér ekki vera uppbyggileg, hvernig sem það yrði framkvæmt. Að mæla þrautseigju eins barns í samanburði við annað og kveða upp dóm yfir þeim er ekki gagnlegt. Ég held að það sé árangursríkara að láta þau fást við krefjandi verkefni sem ýta þeim út fyrir þægindarammann og fylgjast með sér bæta frammistöðu sína. Ég held að það sé mjög valdeflandi fyrir krakka,” segir Paul að lokum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Einkabílaeign á Ísland er hlutfallslega sú hæsta í Evrópu.
Getur Ísland keyrt sig út úr loftslagsvandanum?
Orkuskipti í samgöngum er eitt helsta framlag íslenskra stjórnvalda í baráttunni við loftslagshamfarir. Rafbílar eru hins vegar ekki sú töfralausn sem oft er haldið fram. Vandamálið er ekki bensíndrifnir bílar heldur bíladrifin menning.
Kjarninn 24. júlí 2021
Daði Már Kristófersson
Gölluð greinargerð um fyrningu aflaheimilda
Kjarninn 24. júlí 2021
Nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar hafa sem sakir standa ekki kost á því að starfa á einkareknum stofum innan greiðsluþátttökukerfis hins opinbera fyrr en eftir tveggja ára starf í greininni.
Nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar byrja að veita þjónustu án greiðsluþátttöku ríkisins
Á nokkrum sjúkraþjálfarastofum er nú hægt að bóka þjónustu nýútskrifaðra sjúkraþjálfara, en þá þarf að greiða fullt verð fyrir tímann, vegna ákvæðis í reglugerð heilbrigðisráðherra. Tveir eigendur stofa segja þetta ekki gott fyrir skjólstæðinga.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ríkisstjórnin fundaði á Egilsstöðum í dag. Mynd úr safni.
200 manna samkomutakmarkanir til 13. ágúst
Í mesta lagi 200 manns mega koma saman frá miðnætti á morgun og þar til 13. ágúst og eins metra regla verður í gildi. Barir og veitingahús þurfa að loka á miðnætti.
Kjarninn 23. júlí 2021
Meira úr sama flokkiViðtal
None