Að verkefninu Flotstofan standa þeir Hrafn Þráinsson, Daníel Monzon og Stefán Arnórsson. Áhuginn á floti kviknaði hjá þeim fyrir nokkrum árum eftir að þeir heyrðu um notkunarmöguleika tankanna í vinsælu hlaðvarpi. Þeir félagar vinna nú að því að koma á fót Flotstofu í Reykjavík. Slíkar stofur hafa verið til víða um heim í fjölda ára en með auknum rannsóknum hafa vinsældir þeirra aukist gríðarlega og þá sérstaklega á síðustu 5-10 árum. Kjarninn tók Hrafn Þráinsson tali.
Hvers konar stofa er flotstofan?
„Flotstofan er stofa byggð á erlendri fyrirmynd og býður upp á aðgang að svokölluðum flottönkum. Þetta er staðurinn sem við og margir höfum leitað að með ólíkum hætti. Það þekkja sjálfsagt allir hvernig streita safnast upp í daglegu lífi. Nútíminn okkar er fjölbreyttur og spennandi en gríðarlega krefjandi.
Það getur verið erfitt að finna jafnvægi til að vinda ofan af sér. Þannig sjáum við Flotstofuna fyrir okkur. Sem stað þar sem maður getur átt stund með sjálfum sér án nokkurs áreitis. Til að vinna úr öllu því sem dynur á, leyfa því að líða úr sér og takast endurnýjaður og ferskur á við lífið.
Þetta er staður sem þú getur heimsótt hvort sem þú þarft nauðsynlega á hvíld að halda frá verkjum, ábyrgð og streitu eða bara lífinu og öllum þeim erfiðleikum sem geta fylgt því að vera til í nútímasamfélagi. Flot getur einnig reynst ótrúlega vel til að undirbúa þig fyrir erfiðar áskoranir, stóra fundi, próf, kynningar, sýningar eða hvað sem er.
Hvert sem tilefnið er þá verður alltaf tekið vel á móti þér og þú munt ganga út í daginn, jákvæðari, sáttari og tilbúnari til að takast á lífið.
Samanlagt höfum við flotið á mismunandi stofum í 5 löndum og komum auga á
ýmislegt sem hefði mátt gera betur. Við munum reyna að nýta okkur þá reynslu
með því að tileinka okkur það besta frá hverjum stað og gera Flotstofuna þannig
að uppáhalds staðnum þínum.
Áherslan okkar verður lögð á kyrrð, kósí og persónulegri þjónustu. Við munum
reyna að leiða þig að bestu upplifuninni með góðum ráðum.
Margir eru eflaust hræddir um að fá innilokunarkennd en við höfum ýmis ráð til
að eyða þeim ótta og hvetjum við því alla til að koma og prufa.
Við getum sjálfir ekki beðið eftir að geta haft greiðan aðgang í flottankanna.
Við viljum að sem flest okkar fái að njóta þess að fljóta þyngdarlaus í
einangruðu umhverfi og upplifa ekkert áreiti í fyrsta sinn!
Við hvetjum fólk til að kynna sér þetta nánar og jafnvel hafa samband við okkur á Facebook ef það hefur einhverjar spurningar."
Segjum að ég myndi vilja koma og fljóta hjá ykkur, hvernig færi það fram?
„Þú bókar tíma, mætir í móttökuna og færð handklæði og eyrnatappa hjá okkur, best er að fljóta án klæða og þarftu því ekki að taka neitt með þér. Við förum yfir vissa hluti með þér og gefum leiðbeiningar um hvernig má fá sem mest útúr tímanum í tanknum. Að því loknu slekkur þú á símanum og stígur inn í tankin
Þegar þú stígur í fyrsta sinn inn í flottankinn mun þér eflaust bregða örlítið við kyrrðina og þyngdarleysið. Að öllum líkindum ertu að upplifa algjörlega áreitislaust umhverfi í fyrsta sinn. Fyrir suma er það erfitt í fyrstu en eftir 2-3 skipti verður þetta ómissandi partur af lífinu fyrir flesta ef ekki alla sem gefa því séns.
Hver flottankur verður í sérrými með sturtu sem skapar persónulega upplifun fyrir alla sem koma. Herbergin eru vel hljóðeinangruð til að tryggja að ekkert rjúfi slökunina og þú getir átt ómetanlega og nauðsynlega stund með sjálfri/sjálfum þér í algjöru næði.
Hvert flot er 60 mínútur að lengd en við reiknum með 90 mínútum á hvern kúnna, 15 mínútur fyrir flot og 15 mínútur til þess að fara í sturtu að floti loknu, einnig yrði annað rými fyrir fólk sem þarf lengri tíma til að taka sig til með hárþurrkum og spegli.
Þegar þú ert síðan klár geturðu komið þér fyrir í sófanum, slakað á, fengið þér fría hressingu og spjallað um upplifunina áður en þú heldur af stað út í lífið endurnærð/ur."
Er eitthvað fleira jákvætt sem getur komið út úr því að fljóta hjá ykkur, annað en einfaldlega að fá hvíld og frið í smá tíma?
„Já alveg
klárlega. Svíar hafa líklega verið hvað fremstir í rannsóknum á áhrifum flotmeðferðar í flottönkum
en í Svíþjóð er flot viðurkennt
meðferðarúrræði gegn bæði streitu og verkjum, og því niðurgreitt svipað og
sjúkraþjálfun.
Við vonumst til að fá þessa meðferð viðurkennda hér í landi og teljum þetta
úrræði nauðsynlega viðbót við aðrar lyfjalausar meðferðir gegn hinum ýmsu
kvillum.
Einnig hafa nýlegar rannsóknir sýnt fram á jákvæð áhrif flots í flottönkum á kvíðaraskanir, bakverki og vefjagigt svo eitthvað sé nefnt.
Með auknum
áhuga og frekari rannsóknum munu eflaust fleiri jákvæðir kostir koma í ljós. Þegar
í dag eru til margar reynslusögur af einstaklingum sem hafa notað flot til að
takast á við kvilla eins og: áfallastreituröskun,
vefjagigt, mígreni, verki og vanlíðan í kjölfar krabbameinsmeðferðar.
Nú þegar hafa heilbrigðisstarfsmenn sent okkur skilaboð og lýst yfir áhuga á
meðferðinni og tökum við því fagnandi. Þetta verður vonandi til þess að flýta
því að meðferðin verði viðurkennd hér á landi og vonandi með árunum komumst við
Íslendingar úr fyrsta sæti yfir mestu lyfjanotendur heims."
Verkefnið er að finna hér.