Tímaskekkjur er afrakstur námskeiðs innan Háskóla Íslands sem nefnist Á þrykk, þar sem ritlistar- og ritstjórnarnemar kynnast öllum hliðum bókaútgáfu, frá hugmynd að prentgrip. Hópurinn samanstendur af tíu höfundum og fimm ritstjórum og starfar undir leiðsögn Sigþrúðar Gunnarsdóttur, ritstjóra hjá Forlaginu, sem kennt hefur námskeiðið undanfarin þrjú ár. Uppskera þessa samstarfs var útgáfa bókanna Hvísl (2013), Flæðarmál (2014) og Uppskriftabók – Skáldverk (2015). Í ár lítur síðan bókin Tímaskekkjur dagsins ljós.
Verkefnið er í hópfjármögnun hjá Karolina Fund. Þar er hægt að velja úr ýmsum möguleikum við fjármögnun. Vinsælast er að kaupa áritaða bók og persónulega hæku, en það kostar einungis um 4500 kr. Kjarninn ræddi við Fjalar Sigurðarson og Jóhönnu Maríu Einarsdóttur skáld sem eru á meðal þeirra sem standa að verkefninu.
Fjalar, hvað eru Tímaskekkjur?
„Tímaskekkjur er íslenskt skáldverk, unnið af tíu rithöfundum og fimm ritstjórum sem sameina krafta sína með það að markmiði að gefa út auðuga bók sem inniheldur smásögur, örsögur, ljóð og allt þar á milli. Þegar vinna við bókina hófst var ákveðið að þema bókarinnar væri tíminn. Síðan fóru höfundarnir af stað að semja og fann hver sinn vinkil á þemað. Þegar afrakstur þeirrar vinnu var síðan skoðaður var fljótlega ljóst að Tímaskekkjur væri nafn sem hæfði efni bókarinnar. Bæði gerast sögurnar og ljóðin á mismunandi tímum auk þess sem sumar sögurnar spanna löng tímabil innan síns söguramma."
Hverjir standa á bakvið bókina?
„Höfundarnir eru af öllum stærðum og gerðum, ef svo má segja, en það er einmitt einn af skemmtilegustu þáttum námsins okkar hvað hópurinn er fjölbreyttur. Við erum með stjörnuskoðara, nörda, femínista sem þarf ekki að nota gleraugu, byltingarsinna, atvinnumanneskju í gúmmískóm, víking, orðagrínara, Panama ferðalang, tímaferðalang og svo lengi mætti telja. En þessi margbreytilegi hópur höfunda hefur gefið út eða er að vinna að skáldverkum eða þýðingum á ljóðum og sögum samhliða náminu.
Í ár er væntanlegt verk eftir Jóhönnu Maríu Einarsdóttur sem hún hefur unnið undanfarið sem meistaraverkefni sitt. Um er að ræða póstmódernískt skáldverk án söguþráðar. Það hefur því miður ekki enn hlotið endanlegt nafn en það er á döfinni. Fyrr á þessu ári birtist smásaga eftir hana í bókmenntatímaritinu Stínu. Sagan heitir Endurtekin sæla.
Þóra Björk Þórðardóttir er einnig tónlistarkona og gaf út geislaplötuna I Am a Tree Now með frumsömdum lögum og textum árið 2009. Hún er með aðra plötu í smíðum.
Sigrún Elíasdóttir hefur þegar gefið út nokkur rit af ýmsum gerðum; Söguleg ævisaga alþýðumannsins afa hennar með sjálfsævisögulegu ívafi; Kallar hann mig, kallar hann þig - í leit að afa, gefin út af Uppheimum. Þar að auki hefur hún skrifað fyrir Menntastofnun; léttlestrarbókina Kötturinn seinheppni um feita gula heimilisköttinn hennar sem hún myndskreytti sjálf; endursögn á Ódysseifskviðu sem Kristín Ragna myndlistarkona var fengin til að myndskreyta en það vill svo til að hún er líka ritlistarnemi. Við þetta má bæta tveimur þemaheftum í samfélagsfræði og það þriðja er á væntanlegt. Þetta pár varð til þess að hin góðu samtök Rithöfundasamband Íslands buðu Sigrúnu í faðm sinn.
Ásdís Ingólfsdóttir hefur gefið út kennsluefni í efnafræði fyrir framhaldsskóla, hún hefur birt ljóðaþýðingu í bókmenntatímaritinu Stínu og stefnir að því að gefa út þýtt verk síðar á árinu eftir sænska verðlaunahöfundinn Jonas Hassen Khemiri.
Einar Leif gaf út vísindasöguna Hvítir múrar borgarinnar vorið 2013. Þetta er framtíðartryllir sem tekur á samfélagsvandamálum samtímans. Hann hefur einnig gefið út nokkuð af smá sögum, sem allar mætti flokka sem furðusögu. Helstar af þeim eru Aldur sem kom út í Tímariti Máls og menningar 2014, Kviðdómandinn sem kom út í Tímaritinu Stínu 2015 og Hin langa nótt sem kom út í Skíðblaðni 2016.
Ég (Fjalar), líkt og Einar Leif og fleiri ritlistarnemar, fékk birta smásögu eftir mig í Tímariti Máls og menningar 2014 sem heitir Hinn réttsýni foringi.
Á hverju ári í desember gefur Blekfjelagið, nemendafélag ritlistarinnar, út jólabók með safni af textum eftir ritlistarnema. Það skemmtilega við bókina er að orðafjöldinn er ávallt takmarkaður. Í fyrra var fjöldi orða í hverjum texta takmarkaður við 97 orð og á hverju ári er takmarkið lækkar um eitt orð. Margir af höfundum Tímaskekkja hafa tekið þátt í þessu skemmtilega verkefni og ef framtíðin brosir björt þá mun síðasta jólabók ritlistarnema koma út eftir 95 ár og innihalda sögur upp á eitt orð.
Svo við nefnum höfundana nú, þá eru þetta; Ásdís Ingólfsdóttir, Birta Þórhallsdóttir, Einar Leif Nielsen, Fjalar Sigurðarson, Jóhanna María Einarsdóttir, Jóhannes Ólafsson, Sigrún Elíasdóttir, Tryggvi Steinn Sturluson, Una Björk Kjerúlf og Þóra Björk Þórðardóttir
Ritstjórarnir sem að sjá um að halda okkur á sporinu eru Dýrfinna Guðmundsdóttir, Erna Guðmundsdóttir, Kristinn Pálsson, Sandra Jónsdóttir og Svanhildur Sif Halldórsdóttir."
Er ljóðið, örsagan og smásagan ávallt tengt höfundi sínum, og öfugt, eða verður einhvern tímann rof milli höfundar og texta?
Jóhanna er til svara:
Fræðilega séð þá já. Það er frekar erfitt að aftengja texta og höfund þegar höfundur er þekktur. En það má vel, eins og snillingurinn Roland Barthes segir. Því samkvæmt honum er höfundurinn dauður og lesandinn á bara að lesa texta eins og þeir séu ekki afurð höfundar. Sem er samt kannski svolítið útópísk hugsun, allavega út frá bókmenntafræðilegu sjónarhorni.
Ef spurningin er hins vegar ekki fræðilegs eðlis heldur á við uppsetningu bókarinnar, þá já, textarnir eru feðraðir/mæðraðir. Einu textarnir sem ekki eru sérstaklega höfundarmerktir er titill bókarinnar, upplýsingasíða varðandi útgáfu bókarinnar, efnisyfirlit, þakkartexti og káputexti.
En Jóhanna, hvaða erindi á ljóðið, örsagan og (eða) smásagan við nútímann?
„Klisjukenndast en líklega sannast væri að segja að stuttir textar eins og ljóð, smásögur og örsögur eru hentugar fyrir nútímalesendur þar sem þeir þjást flestallir af áunnum athyglisbresti. Nútíminn elskar Twitter af því að þar er bara hægt að tjá sig í ákveðið mörgum slögum. Oftast lesum við bara fyrirsagnir greina og stækkaða textann í dagblöðunum af því að við erum alltaf að flýta okkur. Það er eiginlega fullkomlega óskiljanlegt að fólk lesi ennþá 300 síðna doðranta en svo sjaldan ljóðabækur.
Hins vegar er alltaf verið að spá fyrir dauða ákveðinna bókmenntagreina eða menningarmiðla. Menn eru alltaf að bíða eftir dauða leikhússins eða að óperan gefi upp öndina. En það gerist ekki. Svo lengi sem fólk hefur eitthvað að segja og þekkingu á notkun mismunandi miðla þá deyja þeir ekki. Það er nefnilega oft þannig að efni velur miðil, og það sem hentar í leikverki gerir það kannski alls ekki í kvikmyndahúsi. Og það sem hentar sem stöðuuppfærsla á Twitter er kannski lélegur efniviður í ljóð, og öfugt.
Hvaða nútími er þetta annars sem fólk er alltaf að nefna og hvaða fólk tilheyrir honum?"
Verkefnið er að finna hér.