Elín Elísabet Einarsdóttir stendur þessa dagana að útgáfu bókarinnar Onyfir, sem er teiknuð myndabók um Borgarfjörð eystri. Elín er að ljúka diplómanámi við teiknideild Myndlistaskólans í Reykjavík og Onyfir er lokaverkefni hennar þaðan. Við gerð bókarinnar dvaldi Elín í nokkrar vikur á Borgarfirði eystri við að teikna og skrásetja þannig hversdaginn á staðnum. Hún hefur sett teikningarnar saman í bók sem kemur út í maí og nú stendur því yfir hópfjáröflun fyrir bókinni á Karolina Fund.
Hvernig tengist þú Borgarfirði eystri?
„Ég hafði engin tengsl þangað fyrr en haustið 2011. Mig og vinkonu mína vantaði vinnu í smá tíma og eftir nokkur símtöl í fiskverkanir um allt land fengum við vinnu í Fiskverkun Kalla Sveins á Borgarfirði eystri. Við þekktum engan á staðnum fyrst um sinn en mættum mjög vinalegu og hlýlegu viðmóti og ég hef farið aftur austur að vinna á hverju ári síðan. Ég hef eignast góða vini og kunningja þar og þykir vænna um staðinn með hverju skiptinu sem ég kem þangað.
Hugmyndin að verkefninu kviknaði þegar ég kom örstutt til Borgarfjarðar síðasta haust til þess að teikna fyrir kvikmyndina Hjartastein sem var tekin upp þar. Ég var veðurteppt í einn auka dag og nýtti tímann meðal annars til þess að teikna í fiskverkuninni. Það var um það leyti sem hugmyndin að bókinni fæddist."
Hvað er það sem heillar þig við hversdagsleikann í Borgarfirði eystri?
„Það er fyrst og fremst mannlífið, sem er svo einstakt og ólíkt því sem ég á að venjast. Yfir veturinn eru bara u.þ.b. 100 manns á Borgarfirði svo allir vita allt um alla og það skilar sér oft í mjög langsóttum einkabröndurum. Stundum þegar ég veit ekkert hvað fólk er að fara kemur upp úr dúrnum að þau eru að vísa í sex ára gamalt grínatriði frá þorrablóti.
Þetta er líka samheldið og hjálpsamt samfélag og ég upplifi það sterkt, hvort sem það er í formi aðstoðar þegar springur á bílnum eða þess að vera skyndilega boðið í fondú.
Það var virkilega gefandi að koma þarna sem teiknari og kynnast þessu þannig frá öðru sjónarhorni. Ég varð virkur áhorfandi að fleiri þáttum lífsins á Borgarfirði, t.d. með því að fara út í höfn að morgni til þess að fylgjast með löndun og að fá að vera fluga á vegg á fundi Félags eldri borgara - alltaf með skissubókina og vatnslitasettið við höndina."
Hvað stendur til með bókina eftir að hún kemur úr prentun? (hér er ég t.d. að vísa í útskriftarsýningu Myndlistaskólans í Reykjavík og sýninguna á Borgarfirði eystri)
„Næst á dagskrá er að sýna afraksturinn! Ég mun sýna bókina og teikningar úr henni, auk valdra verka úr náminu mínu, á útskriftarsýningu Myndlistaskólans í Reykjavík sem opnar í JL-húsinu þann 12. maí.
Í lok júlí komast teikningarnar svo aftur heim - þá verð ég svo með einkasýningu í félagsheimilinu Fjarðarborg á Borgarfirði eystri, um það leyti sem tónlistarhátíðin Bræðslan er haldin í þorpinu. Það verður gaman að sjá viðbrögð Borgfirðinga við þessu öllu saman!"
Verkefnið er að finna hér.