Í kvöld hefst seinni undankeppni Júróvisíon þar sem átján lönd keppa um þau tíu sæti sem tryggja þátttöku í úrslitakeppninni sem fram fer næstkomandi laugardag. Ísland er úr leik, annað árið í röð, eins og flestir vita. Greta stóð sig vel. Flutningur og framsetning var til fyrirmyndar en svona er þetta stundum. Maður kemst yfir svona áföll hér ytra með því að skola niður þjóðarrétti Svía, Cappuchino og kanilbollu. Læknar öll mein og lífið getur haldið áfram.
Í kvöld er það hinsvegar Lettland sem byrjar keppnina með laginu „Heartbeat”. Lagið er eftir Aminötu Savadogo en hún flutti einmitt lag Letta í fyrra. Lagið er ekki upp á marga fiska og það er óþarft að vera mættur fyrir framan imbann á slaginu 19:00 í kvöld.
Pólverjar eru með lag sem virðist höfða mjög til samkynhneigðra hér ytra. Lagið heitir „Color of your life” og ég ráðlegg áhorfendum að hafa Parasetamól við hendina því lagið er einfaldlega ömurlegt.
Svisslendingar eru næstir með lagið „The last of our kind” í flutningi Rykku. Veikburða lag og hún á svolítið erfitt með falsettuna í viðlaginu. Nær aldrei flugi. Eurovision hækkunin er á sínum stað en þrátt fyrir það og vindvélina gerir þetta ekki nokkurn skapaðan hlut.
Ísraelar bjóða upp á lagið „Made of stars”. Stefanía Svavarsdóttir söngkona og fulltrúi Íslendinga í keppninni í náinni framtíð sendi mér skilaboð í gær og sagði lagið vera mögulegan „black horse” keppninnar í ár. Lagið er svokölluð kraft-ballaða að formi til. Söngvarinn er feykilega öruggur og minnir mig svolítið á Sam Smith.
Þegar hér er komið við sögu þurfa landsmenn að vera búnir að koma sér vel fyrir, fyrir framan sjónvarpsskjáinn, því næstur á svið er Ivan nokkur frá Hvíta-Rússlandi. Ivan þessi ætlar sér að vera fyrsti flytjandinn í Eurovision sem syngur berrassaður. Ég fagna þessari þróun því ekki eru nema örfá ár síðan Tatu sönghópurinn frá Rússlandi gerði allt vitlaust er flytjendurnir sögðust ætla að fara í sleik meðan á flutningi stæði. Niðurstaðan þá var mömmukoss þegar upp var staðið, þannig að ég spái því að Ivan komist ekki upp með nektina og endi á því að flytja lagið í þveng. Með sama áframhaldi spái ég því að ekki séu nema örfá ár í að einhver töffarinn frá Austur-Evrópu muni verða fyrsti keppandinn til að ristilspegla sig meðan á flutningi stendur. En aftur að Ivan, lagið er glyskennt súlustaðarokk frá 9. áratug síðustu aldar og gerir ekki rassgat. Ekki einu sinni þó að Ivan kunni að flagga því við flutning.
Serbar eru næstir með lag sitt „Goodbye (Shelter)”. Serbar hafa oftar en ekki boðið upp á gullfalleg og ljóðræn lög með þjóðlegu ívafi. Þeir eru ansi fjarri slíku í ár og lag þeirra höfðar ekki til mín. Gamaldags rokkballaða með veikri laglínu og skelfilegum texta sem að klárlega er skrifaður af einum afkastamesta textahöfundi austur evrópu í Eurovision, google translate.
Nicky Byrne flytur síðan lag Íra, „Sunlight”. Hann hefur líkast til verið duglegur að forðast kolvetnin síðustu mánuði því kappinn er í fantaformi og hefur engu gleymt síðan hann stóð vaktina í strákabandinu Westlife. Það dugar þó ekki til því lagið er einstaklega óeftirminnilegt og ekki spáð góðu gengi.
Makedónía býður upp á „Dona” með Kaliopi. Lagið er flutt á móðurmáli þeirra sem tilheyrir hópi slavneskra mála. Ég skil orð á stangli hér og þar, verandi talandi á rússnesku, en það breytir ekki því að hér ætla ég að fara á salernið.
Donny Montell flytur lag Litháa, „I’ve been waiting for this night”. Hér fá unglingarnir á heimilinu eitthvað fyrir sinn smekk því lagið er gallhart og þétt táningarokk sem höfðar til allra. Og þá meina ég allra á aldrinum 11 – 12 ára, klárt mál.
Og svo er það Ástralía. Annað árið í röð sýna þeir okkur Evrópubúum að maður þarf ekki að bera hallæri á borð í Eurovision. Þeir áttu eitrað lag í fyrra og það er óhætt að mæla með því að taka eyrnartappana úr eyrunumþegar hér er komið við sögu. Dami Im flytur lagið „Sound of silence” sem að á eftir að hljóma um álfuna í sumar. Lagið er skothelt. Flutningur hennar er geggjaður, útsetningin baneitruð og hún á eftir að rústa þessu kvöldi.
Það er Taylor Swift klónin ManuElla sem fær það erfiða hlutskipti að fara á svið á eftir Áströlum. Lag hennar er kántrískotið popp með krúttlegum viðlagshúkk sem skilar henni í úrslit.
Búlgaría fylgir á eftir með laginu „If love was a crime” í flutningi Poli Genova. Lag Búlgara er eitt það allra besta í keppninni ár, elektrónísk danstónlist eins og hún gerist best. Útsetjari lagsins er undir miklum áhrifum frá hinum sænska Galantis og hefur klárlega haft lag hans “Runaway” til hliðsjónar. Baneitrað stykki sem kemur jafnvel hörðustu fýlupúkum í stuð.
Jamala frá Úkraínu flytur okkur lagið „1944”. Ég þekki hana ágætlega og finnst mikið til tónlistar hennar koma þó að lag hennar sé mjög ólíkt því sem hún hefur áður samið. Hún syngur um ástandið í austur Úkraínu og lagið er það dramatískasta í ár. Ég var staddur í Úkraínu rétt eftir appelsínugulu byltingunni og aftur er Euromaidan byltingin átti sér stað, þegar íbúar höfuðborgarinnar hrökktu Viktor Yanukovych frá völdum. Forveri hennar í Eurovision, Ruslana, sem sigraði keppnina eftirminnilega 2004 tók virkan þátt í Euromaidan mótmælunum og hvatti mótmælendur til dáða í söng og ræðuhöldum, nær daglega meðan á þeim stóð.
Noregur teflir fram Agnete Johnsen og laginu „Icebreaker”. Lagið er danslag og það truflar mig verulega að tempó lagsins breytist í viðlaginu. Svolítil lumma en hugsa að Noregur nái að komast í úrslit þrátt fyrir veika brú og léleg erindi.
Nika Kocharov og Young Georgian Lolitaz flytja lag Georgíu „Midnight Gold”. Lagið er pönskotið nýbylgjupopp með geggjaðri bassalínu. Lagið gæti allt eins verið úr smiðju „Dr” Gunna. Fíla þetta.
Albanía ber á borð yfirdrifna dramatík að hætti austur evrópuþjóða. Glatað stöff og veðbankar spá þessu botnsætinu.
Belgar enda kvöldið á laginu „What’s the pressure”. Þetta er versta lag keppnina og ástæðan er einföld. Höfundar notast við nánast óbreytta bassalínu „Another one bites the dust” eftir Queen. Það er eitt að vera undir áhrifum en það er ekki í lagi að taka einn þekktasta húkk allra tíma og gera að sínum eigin. Það er ekki hægt annað en að taka undir með Dabba Grensás, forsetaframbjóðanda, „Svona gera menn ekki”.
Heilt yfir er þetta slappur riðill en Ástralía og Búlgaría redda kvöldinu fyrir horn.