Í kvöld er komið að því, Það er þriðji í Júróvisíon og 26 þjóðir munu keppa í tónlist í úrslitaþættinum í kvöld. Tuttugu þjóðir tryggðu sér sæti á lokakvöldinu en sex þjóðir eiga þar fastasæti fyrir og þurfa ekki að etja kappi í undanúrslitum. Til þeirra teljast sigurvegari síðasta árs og Þýskaland, Frakkland, Spánn, Ítalía og Bretland. Svíar hafa boðið upp á glæsilegustu umgjörð í sögu keppninnar, kynnarnir eru fyndnir, skemmtiatriði gestgjafana stórkostleg og sjálfur Justin Timberlake mun troða upp á keppninni.
Þessum risavaxna tónlistarviðburði er síðan sjónvarpað beint um alla Evrópu, Ástralíu og nú einnig til Bandaríkjanna og Kína. Það spillir ekki heldur fyrir að mörg laganna standast hörðustu gagnrýni, hvort heldur litið er til sviðsetningar, búninga, flutnings eða útsetningar. Mörg laganna eru stórgóð og munu hljóma út sumarið. Hið ótrúlega hefur í raun gerst... Júróvisíon er orðið eitursvalt. Áhorfendur og dómnefndir eru meira að segja farnar að hafna hallæri á borð við berrassaða Hvít-Rússann, Danina með sjálflýsandi míkrófónstandana sína en slík gimmik gátu fleytt flytjendum hátt á stigatöflurnar fyrir einungis örfáum árum.
Í fyrra horfðu um 200 milljón manns á keppnina og það verður spennandi að sjá áhorfstölur í ár. Fyrir þá sem meika ekki að horfa á keppni í tónlist, bendi ég á Sarpinn á RÚV, en þar má finna gallsúra upptöku af Íslensku tónlistarverðlaununum, sem er reyndar líka keppni í tónlist. Og talandi um Íslensku tónlistarverðlaunin, það var makalaust að sjá þann klúbb sniðganga nokkra þá listamenn sem hafa tekið þátt í Júró en einnig skipað veigamikinn sess í tónlistarsenunni á liðnum árum, Stop Wait Go.
Ég hef áður farið yfir lög undanriðlana og læt það ógert nú, en hægt er að lesa þá umfjöllun hér og hér. Í staðinn ætlum við aðeins að kíkja á það sem stóru þjóðirnar fimm og sigurvegarar keppninnar í fyrra, hafa upp á að bjóða.
Spánn teflir fram sumarsmellinum “Say Yay!” í flutningi söngkonunnar Barei. Hún hefur verið ötul að skrifa og flytja tónlist síðustu 15 ár. Barei, eða Bárbara Reyzábal González-Aller, eins og hún heitir fullu nafni, semur þetta stórfína lag sjálf.
Þýskaland sigraði keppnina síðast árið 2010 með laginu „Satellite” í flutningi Lenu Meyer-Landrut. Í ár er það hin litríka Jamie-Lee sem flytur lag sitt „Ghost”. Jamie er þekkt fyrir blæti sitt á japanskri tísku, einkum Decora Kei. Hún flytur lag sitt einmitt í slíkri múnderingu. Hún er með einhversskonar blómaskreytingu í hárinu og hefur verið dugleg að dreifa eftirlíkingum af þessu skrauti til blaðamanna og aðdáenda. Lagið hinsvegar er ekki gott og Þjóðverjar eru ekki líklegir til árangurs í ár.
Frakkar hafa ekki riðið feitum hesti frá keppninni en í ár keppa þeir til sigurs. Hin fjallmyndarlegi Amir flytur lag sitt „J’ai cherché” (Ísl: „Ég leitaði”). Í fyrsta sinn í langan tíma syngja Frakkar hluta lagsins á ensku. Þeir hafa aldrei á 40 ára ferli sínum sigrað keppnina en það gæti breyst í ár. Ég fíla sérstaklega hárgreiðsluna á kappanum, stíliseruð óreiða líkt og maðurinn væri nýbúinn að skríða á lappir. Amir er töff og mögulega mun ég skola niður Crepes með Nutella á Avenue des Champs-Elysees í París, á sama tíma að ári.
Ítalía sem hóf aftur leik fyrir nokkrum árum, býður upp á lagið „No degree of separation” í flutningi Francescu Michielin. Ítölum hefur gengið vel í keppninni frá því þeir byrjuðu að keppa á ný og ég hlakka til að heyra Bó Halldórs gera einhver þessara framlaga að sínum en hann hefur verið duglegur við að staðfæra Ítölsk Júró framlög gegnum árin. Sannleikurinn er líka sá að Íslendingar halda ekki gleðileg jól án þess að hlýða á endurvinnslu á ítölskum popp- og júróvisíon slögurum sem upprunalega hafa lítið eða ekkert með jólin að gera „Ef ég nenni”, „Svona eru jólin”, „Þú og ég og jól”, „Þú og ég”, „Þú komst með jólin til mín”, „Ég hlakka svo til”, „Komdu um jólin” eru m.a. gömul ítölsk júróvísíonlög.
Lag Ítala í ár er frábært. Söngkonan er ekki nema rétt skriðin yfir tvítugt en hún öðlaðist frægð er hún sigraði fimmtu seríu X-factor á Ítalíu. Þetta er sexý stykki og ég er sannfærður um að það muni hljóma í sló-mó ástarsenum kvikmynda á næstu árum.
Loks eru það sigurvegarar síðasta árs, Svíar. Á allra síðustu árum hafa þeir sýnt það og sannað að þeir eru í fremstu víglínu á heimsvísu er kemur að framleiðslu á tónlist. Stokkhólmur er yfirfull af upptökuverum á heimsmælikvarða, einum fremsta upptökuskóla veraldar (SEA) og margar stærstu stjörnur síðustu ára hafa komið frá Svíþjóð (Avicii, Swedish House Mafia o.fl.). Það sem færri vita er að gífurlegur fjöldi laga í flutningi margra stærstu stjarna heims er samin og útsettur af Svíum. Fremstur í flokki fer hinn ótrúlegi Max Martin en hann hefur samið 21 lag á Billboard top 100 fyrir listamenn eins og Katy Perry, Maroon 5, Pink, Britney Spears, Taylor Swift o.fl. Það verður ekki af Svíum tekið að þeir kunna tónlist.
Þeir tefla fram hinum kornunga Frans Jeppson Wall, en hann er fæddur 1998. Pilturinn býður af sér góðan þokka, er svolítið feiminn og lagið klæðir hann vel með sinni látlausu útsetningu og einföldu framsetningu. Þeir vinna ekki en geta verið stoltir af útvarpsvænu framlagi sínu. Lagið, sem hann samdi sjálfur, heitir einfaldlega „If I were sorry”.
Þá er þetta komið og fátt eitt eftir en að njóta hávaðarifrildis Íslensku þjóðarinnar í kvöld meðan á keppni stendur. Það verður vonandi hægt að glotta yfir tístinu á Twitter, niðurrifinu á Facebook og finna til með virkum í athugasemdum. Eurovision er furðulegt fyribæri, margt í kringum keppnina virkar framandi og litríkir aðdáendurnir sem fylgja keppninni eru engu líkir. Til að mynda sagði alskeggjaður karlmaður á pinnahælum, þar sem við vorum staddir á Euroclub í gærnótt, að einhver mesta fró sem til væri, væri Thermos brúsi fylltur með makkarónum!.... Þegar ég gekk út úr klúbbnum spurði ég lögregluna yrir utan, glaður í bragði, hvort ég fengi ekki einhver verðlaun fyrir að vera eini gagnkynhneigði gaurinn á svæðinu. Þeir fóru að hlæja og buðu mér upp á kremkex sem ég þáði.
Maður á það til að hrista hausinn yfir þessu öllum saman, en kjarni málsins er sá að þessi hópur sem fylgir keppninni, keppendurnir sjálfir og umræðan sem umlykur keppnina er svo innilega kærkomin í hið daglega þras. Því hún snýst ekki um Wintris, ekki stríð, engin Panamaskjöl, ekkert bull... heldur ást, fullt af ást.
Áður en ég loka tölvunni og mála andlitið með litum íslenska þjóðfánans langar mig þó, þar sem annar hver Íslendingur hefur farið í einhverskonar framboð á næstunni, að fara í framboð sömuleiðis.... Ég ætla að rústa Júró að ári. Lesendur Kjarnans og aðrir landsmenn, góða skemmtun í kvöld.