1. Davíð Oddsson er fæddur í Reykjavík þann 17. janúar 1948 og er því 68 ára gamall. Hann er giftur Ástríði Thorarinsen og eiga þau einn son, Þorstein Davíðsson héraðsdómara á Akureyri. Hann á kött sem heitir Frans.
2. Davíð hefur meðal annars verið borgarfulltrúi, borgarstjóri, þingmaður, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, seðlabankastjóri og ritstjóri Morgunblaðsins. Hann var formaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 1991 til 2005.
3. Davíð var listhneigður sem ungur maður og íhugaði að fara í leiklistarnám. Hann hefur einnig skrifað ljóð, lög og bækur. Hann sá einnig um vinsælan grínþátt í útvarpinu, Matthildi, með Þórarni Eldjárn og Hrafni Gunnlaugssyni, þegar þeir voru saman í MR.
4. Hann er lærður lögfræðingur en sem barn langaði hann að verða læknir.
5. Davíð hefur verið að mælast með í kring um 20 prósenta fylgi í skoðanakönnunum á fylgi forsetaframbjóðenda.
6. Árið 1985 sagði Davíð, þá borgarstjóri, að ef „þær 13 fallegu stúlkur sem tóku þátt í fegurðarsamkeppninni skipuðu sæti Kvennaframboðsins“ þyrfti hann ekki að bjóða sig fram í næstu kosningum. Kvennaframboðskonur brugðust við með því að mæta í fegurðardrottningakjólum með áföstum borðum sem á stóð „Ungfrú Spök“ og „Ungfrú meðfærileg“. Í dag segir hann að kynjajafnrétti sé mikilvægt.
7. Ráðhúsið við Tjörnina og Perlan í Öskjuhlíð voru byggð í borgarstjóratíð Davíðs.
8. Davíð komst á lista Times Magazine yfir þá 25 einstaklinga í heiminum sem beri mesta ábyrgð á bankahruninu. Hann var einnig valinn versti Seðlabankastjóri Evrópu í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter árið 2009. Hann einkavæddi íslensku bankana.
9. Árið 2003 var greint frá því að Íslandi væri á lista yfir þau 30 ríki sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta inn í Írak og var kallaður „listi hinna viljugu þjóða.“ Davíð var þá forsætisráðherra og lýsti yfir stuðningi við George W. Bush og hans áætlanir í Írak.
10. Davíð var einnig orðaður við forsetaframboð í síðustu kosningum árið 2012. Þá sagðist hann engan áhuga hafa á embættinu.