Bókin 101 Austurland – Tindar og toppar er nú á lokastigi vinnslu. Höfundur bókarinnar er Skúli Júlíusson. Skúli er Austfirðingum að góðu kunnur og er í rauninni „fjallageit,“ bæði að atvinnu og áhuga. Hann starfrækir fjallgönguklúbbinn Fjallhress auk þess sem hann hefur starfað sem fjallaleiðsögumaður undanfarin sjö ár. Kjarninn ræddi við Skúla.
Út á hvað gengur bókin 101 Austurland – Tindar og toppar?
Að kynna Austurland sem fjallgöngusvæði. Hér fyrir austan eru gífurlega mörg fjöll sem gaman er að ganga á en lýsingar á fjallgönguleiðum á Austurlandi hafa lítið birst í útgefnu efni.
Hverjir eru kostirnir við að hafa gönguleiðabók með sér í stað þess að ana bara eitthvert út í buskann?
Ekki er víst að þessi fjöll séu kleif eða aðgengileg hvaðan sem er. Með leiðarbókinni ertu með ýmsar upplýsingar, s.s. hæð, hækkun, vegalengdir, göngutíma o.fl. Einnig er aðkomunni lýst eftir vegakerfinu, gjarnan með vegnúmerum, og mælt með heppilegum stað til að hefja gönguna. Hverri gönguleið er lýst og minnst á áhugaverða staði í næsta nágrenni. Hverri gönguleið fylgir kort með helstu örnefnum og er leiðin teiknuð gróflega inn á það. Hægt verður að skanna strikamerki hverrar gönguleiðar með snjallsíma eða spjaldtölvu til að nálgast gps ferilinn með auðveldum hætti.
Getur hver sem er nýtt sér gönguleiðirnar í bókinni?
Bókin ætti að koma göngufólki til góðs, sérstaklega
þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref til fjalla og þeim sem minna þekkja til
svæðisins.
Leiðirnar eru af öllum erfiðleikastigum, allt frá þægilegum „fjölskyldufjöllum“
yfir í krefjandi tinda fyrir reynslumeira fjallafólk. Erfiðleikastigin eru
skilgreind svo fólk geti valið gönguleið við hæfi sem er mjög mikilvægt atriði.
Það er nýtt forlag á Egilsstöðum, Bókstafur, sem gefur bókina út og Perla Sigurðardóttir hjá sprotafyrirtækinu PES sem sér um útlitshönnun. Við erum mjög ánægð með útkomuna. Uppbyggingarsjóður Austurlands og Alcoa hafa lagt verkefninu lið.
Bókin er langt komin, umbrotsvinnu er lokið og nú á aðeins eftir prenta. Það er hins vegar ansi dýrt og þess vegna erum við með söfnun í gangi á Karolina Fund sem vonandi gerir okkur kleift að leysa bókina út þegar hún rennur úr prentvélunum í lok júní. Söfnunina er að finna hér og hún stendur til og með sunnudagsins 5. júní.