Ástralski grínistinn og uppistandarinn Jonathan Duffy flutti til Íslands síðasta haust og hefur á þessum stutta tíma náð að skapa sér nafn í grínheimum og myndað góð tengsl á Íslandi. Hann hélt Ted-fyrirlestur í Reykjavík á dögunum þar sem hann fjallaði um að ganga í gegnum erfiða tíma í lífinu og þá ákvörðun að reyna á einum tímapunkti að enda líf sitt.
Hann lýsir því í fyrirlestrinum að þrátt fyrir að vegna vel í lífinu og að vera farsæll þá líði honum alltaf illa og hann segir frá aðferðum sem hann notar til að komast í gegnum daginn. Kjarninn settist niður með þessum brosmilda og viðkunnalega manni til að spjalla um þær örlagaríku ákvarðanir sem lífið hefur leitt hann til að taka.
Hljómaði of „samkynhneigður“
Áður en Jonathan fluttist til Íslands var hann kabarett skemmtikraftur og grínisti í Ástralíu. Hann lifði á því að koma fram opinberlega en hann lærði leiklist á yngri árum. Hann segir að hann hafi alltaf vitað að hann yrði aðalleikarinn. Hann vildi verða dramatískur leikari en hann segir að vegna þess að hann hafi hljómað „samkynhneigður“ þá hafi hann ekki almennilega fengið að láta ljós sitt skína sem alvarlegur leikari. „Þeir gáfu mér ekki tækifæri til að leika þannig hlutverk. En ég veit að ég get gert það,“ segir Jonathan og brosir.
Í staðinn leiddist hann óvart út í það að vera uppistandari. Hann segist hafa verið að læra að leika trúð 19 ára gamall en að það hafi ekki gengið vel í byrjun. „Ég stóð mig ekki vel, ef ég á að vera hreinskilinn,“ segir Jonathan. Hann tók trúðinn of alvarlega og hann hélt að hann vissi allt um lífið og heiminn. Hann segist þó hafa fengið góða leiðsögn. Vinkona hans hafi hjálpað honum að skrifa fyrsta uppistandið sitt og látið hann fá heimanám; að eyða tíma með alvöru fólki og horfa á fréttir og finna út hvað er að gerast í þessum heimi. „Ég prufaði síðan aftur að hafa uppistand tveimur vikum síðar og ég var betri. Og ég naut þess að vera á sviði,“ segir hann og síðan hefur hann ekki hætt. Hann segist ítrekað leita aftur í uppistandið.
Vildi ekki lifa lengur
Mánuðirnir áður en Jonathan flutti til Íslands síðasta haust voru mjög erfiðir fyrir hann og örlagaríkir. Röð áfalla, þar á meðal erfiður skilnaður, olli því að vanlíðan hans jókst yfir í svo erfitt ástand að hann vildi ekki lifa lengur.
Ég man ekki hve langur tími leið þangað til ég vaknaði aftur og uppgötvaði að ég væri ekki dáinn
Hann tók þá ákvörðun að enda líf sitt. Þetta gerðist á köldum föstudegi í Melbourne þar sem hann segist hafa útbúið bað, drukkið heila vínflösku og gleypt ógrynni svefntaflna.
„Ég man ekki hve langur tími leið þangað til ég vaknaði aftur og uppgötvaði að ég væri ekki dáinn,“ segir hann. Hann náði að fara upp úr baðkarinu til þess að kasta upp töflunum og upp í rúm að sofa. Hann segir að daginn eftir hafi honum liðið bagalega og séð mikið eftir því sem gerst hafði. En þrátt fyrir eftirsjá þá leið honum ekki betur. En hann segir að hann hafi þó vitað að dauðinn væri ekki lengur möguleiki.
Ísland varð fyrir valinu
Hann bjó í Melbourne á þessum tíma. Í stað þess að fara suður aftur eftir skilnaðinn til fjölskyldu sinnar, þar sem hann ólst upp, þá tók hann þá hvatvísu ákvörðun að flytja til Íslands. „Ég var líka alveg að verða þrítugur og ég hugsaði með mér að hvenær hefði ég betra tækifæri til að ferðast og láta verða af þessu?“ segir Jonathan. Hann segir að hann hafi alltaf dreymt um að búa annars staðar en í Ástralíu en að hann hafi alltaf verið bundinn öðrum og þar af leiðandi aldrei látið verða af því.
En af hverju ákvað hann að flytja þvert yfir hnöttinn á þessum tímapunkti? Hann segir að ástæðan sé sú að hann hafi notið sín mikið á Íslandi þegar hann heimsótti landið árið 2011 með fyrrverandi eiginmanni sínum. „Ég hugsaði með mér að þetta væri staður sem ég vildi búa á,“ bætir hann við.
Hann átti eina vinkonu á Íslandi sem hann kynntist á ferðalagi sínu 2011. Hann hafði samband við hana þegar hann var búinn að taka þá ákvörðun að flytja til Íslands og hún hjálpaði honum að koma sér fyrir.
Það verður að hafa fyrir því að komast inn í svo lítið samfélag
Hann segir að reynsla sín sem maki læknis í litlu samfélagi í Ástralíu hafi undirbúið hann vel fyrir að búa á Íslandi. „Ég lærði hvernig eigi að komast inn í samfélag þegar maður er utanaðkomandi,“ segir hann.
Það sem ég hef lært er að þú verður sjálfur að sýna frumkvæði. Þú verður að fara út og hitta fólk og vera jákvæður
Útlendingar koma til Íslands og mörgum líður ekki vel, að sögn Jonathans. Hann telur að margir hverjir hafi ákveðnar væntingar um Ísland og Íslendinga sem standast síðan ekki. Honum finnst að fólk verði að gera sér grein fyrir því að þegar það flytur til annarra landa þá verði það að hafa fyrir því að komast inn í samfélagið. Það þarf að leggja mikið á sig til að kynnast öðrum og skyldan liggur hjá einstaklingunum sjálfum. „Það sem ég hef lært er að þú verður sjálfur að sýna frumkvæði. Þú verður að fara út og hitta fólk og vera jákvæður,“ segir hann. Þetta hefur hjálpað honum mikið við að komast inn í íslenskt samfélag.
Er munur á húmor milli landanna tveggja?
Jonathan segist iðulega fá þá spurningu hver munurinn sé á húmor Íslendinga og Ástrala. Hann segir að íslenskt grín byggi og treysti á orðin sjálf; á tungumálið sjálft. Í gríni á ensku sé frekar byggt á því sem ekki er sagt. Þannig segist hann líka nota þagnir í uppistandi sínu til að segja sögu og tímasetning orðanna er mjög mikilvæg að hans mati.
Hann telur að íslenskur og ástralskur húmor sé mjög líkur. Hann segir að húmorinn sé frekar svartur. Íslendingar og Ástralir taki sig heldur ekki of alvarlega, þeir séu báðir á vissan hátt einangraðir frá öðrum samfélögum og að þeir búi við skrítnar landfræðilegar aðstæður. Hann segir að þrátt fyrir þessi líkindi milli menninganna tveggja þá séu einnig hlutir sem séu mismunandi. Hann segir að Ástralir eigi auðvelt með að lenda í átökum en Íslendingar síður. Hann telur ástæðuna vera mannmergðin í Ástralíu og stærð samfélagsins.
Hann segir að hingað til hafi grínið hans virkað vel á Íslandi og að heimamenn hafi tekið vel á móti honum og hans húmor.
Gróska í uppistandi á Íslandi
Jonathan hefur oft verið með uppistand á Gauknum á mánudögum en þá er svokallaður enskumælandi „opinn-mæk“. Hann segir að mikil gróska sé í uppistandi á Íslandi. Hann segist jafnvel sjálfur sjá mun síðan hann kom til landsins. „Þetta er eitt af þeim stútfullu kvöldum sem hægt er að upplifa í gríni á Íslandi,“ segir hann og bætir því við að á hverju mánudagskvöldi sé smekkfullt út úr dyrum en bæði Íslendingar og ferðamenn taki þátt í kvöldunum.
Það er svo hressandi að vera fyrir framan áhorfendur sem eru mannlegir og gera sér grein fyrir því að það sé ekki verið að reyna að móðga neinn
Hann segir að sömu áheyrendur sæki í að horfa á uppistand sem getur bæði verið kostur og galli. Kosturinn við það sé að ákveðinn kjarni myndast og áheyrendur verða aðdáendur. Gallinn sé sá að það er erfitt að finna stöðugt upp á nýju efni í hverri viku. Það sé eiginlega ekki hægt.
Íslendingar hressilega mannlegir
Jonathan telur að vegna þess að Íslendingar og Ástralir taki sig ekki of alvarlega og móðgist ekki auðveldlega þá eigi þessar tvær þjóðir vel saman. „Ég elska þessa eiginleika hjá fólki á Íslandi,“ bætir hann við. Það sé hægt að segja nánast hvað sem er. „Íslenskir áhorfendur eru hressilega mannlegir,“ segir hann og hlær.
„Það er svo gott að vera fyrir framan áhorfendur sem eru manneskjulegir og sem gera sér grein fyrir því að það sé ekki verið að reyna að móðga neinn,“ segir hann. Hann telur að með gríni sé verið að fá fólk til að sjá hlutina út frá öðru sjónarhorni. Og það versta sem komi fyrir uppistandara sé þegar verið er að reyna að stjórna því sem hann eða hún segir. „Ég tel að þannig brjótum við niður múra,“ bætir hann við.
Berskjaldaður á sviði
Jonathan ætlaði upprunalega ekki að tala um þunglyndi eða erfiða tíma í Ted-fyrirlestrinum heldur ætlaði hann að fjalla um hvernig væri að aðlagast litlu samfélagi. Hann tók aftur á móti þá ákvörðun að deila sögunni af síðasta ári í lífi sínu.
„Ég hugsaði um þetta í nokkurn tíma af því ég var að berskjalda mig og ég hugsaði með mér að ég væri að taka of mikla áhættu,“ segir hann. Hann hafði komið sér upp nafni sem grínisti og hann hugsaði með sér að kannski væri hann að hætta starfi sínu. Hann segist ekki hafa viljað verða „sorgmæddi grínistinn“ sem reyndi að fremja sjálfsmorð í hugum fólks eða sem „þunglyndi samkynhneigði“ maðurinn.
Vildi deila reynslu sinni
En þrátt fyrir þessar efasemdir þá hugsaði Jonathan með sér að þegar hann var í aðstæðunum sjálfum á sínum tíma þá hefði hann viljað sjálfur fá að heyra reynslusögu eins og sína. „Kannski hefði það haft áhrif á mig og kannski hefði ég ekki reynt þetta ef ég hefði heyrt slíka sögu,“ segir hann. Hann lítur því þannig á að málefnið sé stærra en hann sjálfur. Að honum beri að tala um þetta.
Hann bætir því við að hann vilji að eitthvað jákvætt komi út úr þessari reynslu, að þetta hafi ekki verið tilgangslaust. Besta mögulega útkoman úr þessari erfiðu reynslu sé því að deila henni og vonandi hjálpa öðrum sem eru að ganga í gegnum svipaða hluti.
Það sem virkar er að taka lítil skref í einu
Aðferðin sem virkar fyrir hann lýsir sér í smáum skrefum. „Þegar maður er svo djúpt sokkinn og á slæmum stað þá getur fólkið sem vill manni vel gert illt verra,“ segir hann. Hann bætir því við að það sé ekki hjálplegt að segja að erfiðleikarnir muni líða hjá einhvern tímann, að þetta verði allt í lagi. Manneskja í þessum aðstæðum sjái það ekki þannig. Hann segir að það sem hafi bjargað lífi hans hafi verið sú hugsun að lifa af einungis tíu sekúndur í einu. Þessar tíu sekúndur urðu síðan tuttugu. Þessar tuttugu sekúndur urðu síðan að mínútu og mínútur að klukkustund. Allt í einu var dagurinn liðinn og næsti dagur líka.
Þér mun líða ömurlega en það eina sem þú þarft að gera er að komast í gegnum næstu tíu sekúndur
„Ég leitaði mér hjálpar hjá frábærum sálfræðingi sem sagði við mig að mér ætti eftir að líða mjög illa, þangað til mér myndi ekki líða illa,“ segir hann. Þetta sé erfitt að viðurkenna til að byrja með en með hverjum deginum þá verði lífið aðeins bærilegra. „Þér mun líða ömurlega en það eina sem þú þarft að gera er að komast í gegnum næstu tíu sekúndur. Og alltaf þegar þú ferð að sofa og vaknar daginn eftir þá getur þú verið ánægður með að hafa komist í gegnum þessar átta klukkustundir. Til hamingju þú!“ segir hann. Það séu litlu sigrarnir sem skipta máli, eins og kaffibolli með góðum vini eða að hlæja í góðra vina hópi. Fyrir heilbrigða manneskju þá hljómi þetta kannski lítilfjörlegt en fyrir fólk í þessum aðstæðum þá skipti þetta miklu máli.
Ekki þvinga fram hamingjuna
Hann hvetur aðstandendur og vini fólks sem gengur í gegnum erfiða tíma að bjóðast frekar til að fá sér kaffibolla með þeim en að reyna að bjarga þeim. Það séu litlu hlutirnir sem skipta máli. Það sé ekki hægt að þvinga fram hamingjuna heldur einungis vera til staðar.
Jonathan segir að samfélagsmiðlar hafi sín áhrif á það hvernig fólk vilji láta sjá sig. Margir lifi hinu fullkomna lífi á Facebook en reyndin virðist oft vera önnur. Hann segist hafa upplifað þetta, að veruleiki hans hafi verið allt annar en fram kom á internetinu. Hann vill hvetja fólk til að líta stöku sinnum fram hjá þessum miðlum og til að eiga líka í samskiptum við annað fólk með gamla góða mátanum, að hitta það. Að spyrja vini sína og fjölskyldu hvernig þeim líði og að sýna einlægan áhuga.
En þrátt fyrir að njóta velgengni þá líður honum enn oft illa og enn herja á hann erfiðar hugsanir, segir hann. Hann bætir því við að í reynd líði honum illa hvern einasta dag. En hann tekur það fram að hann geti þó starfað og „fúnkerað.“ Hann lærði af þessari reynslu að honum þarf ekki að líða frábærlega til að geta lifað lífinu.
Náði ekki að láta alla vita
Jonathan segir að viðbrögðin hafi verið mjög góð við Ted-fyrirlestrinum og að fólk hafi sýnt honum mikinn stuðning. Gamlir vinir hafi haft samband og látið hann vita að þeir væru að hugsa til hans. Hann segir að það jákvæða við að fólk hafi frétt af erfiðleikum hans í gegnum fyrirlesturinn sé að allir hans vinir sjá að það sé í lagi með hann. Mánuðir hafi liðið frá atburðinum sem gerir hann á vissan hátt fjarlægan. Jonathan segir að hann sé núna tilbúinn að fá stuðning og kærleika frá fólkinu sem honum þykir vænt um. Það hafi ekki endilega verið á þessum tíma. Hann segist hafa skammast sín mikið fyrir tilraunina en hann sagði engum frá þessu tiltekna atviki.
Hann segir að hann hafi verið mjög stressaður áður en myndbandið með fyrirlestrinum kom út. Hann reyndi að ná í alla ættinga og vini sem gætu tekið fréttirnar nærri sér en honum tókst það því miður ekki. Hann náði til dæmis ekki í fyrrverandi eiginmann sinn. Þeir hafi þó talað saman síðan.
Hlaðinn verkefnum
En hvernig lítur framtíðin út hjá ástralska grínistanum? Hann segist vera í hálfgerðu millibilsástandi núna. Hann var að koma frá Svíþjóð þar sem hann var listrænn stjórnandi íslenska atriðisins og hann segist vera að velta fyrir sér framhaldinu. Hann biðlar í kímni til lesenda að ef einhvern vantar samkynhneigðan ástralskan grínista í vinnu þá sé hann laus.
Jonathan hefur þó nóg að gera á Íslandi. Hann er til að mynda annar umsjónarmanna hlaðvarpsþáttarins Icetralia á Nútímanum ásamt Hugleiki Dagssyni. Þar fjalla þeir um menningarmun sem þeir greina á milli landanna tveggja en þeir taka meðvitaða ákvörðun um að ritstýra ekki samtalinu sín á milli. Hann segir að hann hafi mjög gaman af því að vinna með Hugleiki og að þeir séu í raun mun líkari en þeir héldu í byrjun. „Við erum báðir haldnir mikilli félagsfælni og veljum þrátt fyrir það að starfa við það að standa fyrir framan fólk,“ segir Jonathan og hlær. Þeir eru einnig með uppstand sem ber sama nafn.
Hann segir að hann sé stöðugt að reyna að finna fólk til að vinna með. Hann stefni til dæmis að því að vinna með Bylgju Babýlons leikonu og uppistandara. Hann mun einnig taka þátt í gleðigöngunni Reykjavik Pride sem haldin verður 7. ágúst.
Jonathan er með sýningu í pípunum um Ástralíu sem nefnist Australiana. Hann segist ætla að lýsa því hvernig sé að alast upp í landinu, hvers hann sakni og af hverju hann fór. Hann muni segja söguna í gegnum ástralska söngva sem hann ólst upp með. Hann vonast til að sýningin verði öðruvísi en Íslendingar hafa séð áður. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um verkefni Jonathans á heimasíðu hans.
Uppistandari sem deila reynslu sinni í gegnum grín
Einn af uppáhalds uppistöndurunum hans Jonathans er Maria Bamford en hún hefur notað veikindi sín sem efni í uppistönd sín. Hér fyrir neðan má heyra viðtal við hana þar sem hún deilir reynslu sinni af geðsjúkdómum og hvað hefur hjálpað henni. Kannski verður þetta næsta skref Jonathans, að nota reynslu sína í uppistand og gefa áheyrendum tækifæri til að deila henni með honum?