Stelpur rokka! eru sjálfboðaliðarekin samtök sem starfa af feminískri hugsjón við að efla ungar stelpur í gegnum tónlistarsköpun. Kjarninn í starfinu eru rokksumarbúðirnar, þar sem stelpur læra á hljóðfæri, spila saman í hljómsveit, kynnast farsælum tónlistarkonum, fræðast um ýmsar hliðar tónlistar og jafnréttisstarfs og koma fram á lokatónleikum fyrir framan fullan sal vina og fjölskyldu.
Hverjir standa á bakvið Rokkbúðirnar og hvað standa þær fyrir?
Við erum hópur sjálfboðaliða sem stofnuðum Stelpur rokka! fyrir 5 árum síðan. Markmið rokkbúðanna er að efla og styrkja ungar stelpur og trans krakka í gegnum tónlistarsköpun og verða að leiðandi afli í jafnréttismiðuðu tómstundastarfi á Íslandi. Í rokkbúðunum læra þátttakendur á hljóðfæri, spila saman í hljómsveit, fara í skemmtilegar vinnusmiðjur um tónlist og femínisma, fá hádegisheimsókn frá farsælum tónlistakonum og spila loks frumsamið lag á lokatónleikum fyrir framan fullan sal vina og fjölskyldu.
Fyrir hverja eru Rokkbúðirnar hugsaðar?
Rokkbúðirnar eru fyrir allar stelpur, konur, trans karla og kynsegin einstaklinga sem vilja pönkast, vera með hávaða og láta rödd sína og hæfileika heyrast. Við verðum með 7 rokkbúðir á 5 ára afmælisárinu okkar og verðum með þrjú stór samstarfsverkefni á Grænlandi, Færeyjum, Tógó og í Póllandi í tilefni af afmælinu. Við verðum með rokkbúðir gegn ofbeldi fyrir 16 til 20 ára dagana 21. til 24. júlí og á svipuðum tíma verða samstarfskonur okkar í Póllandi með rokkbúðir gegn ofbeldi í Póllandi. Við erum með Karolina Fund söfnun í gangi til að styðja við bakið á baráttusystrum okkar í Póllandi en rokkbúðirnar þar njóta engra opinbera styrkja. Það er engin fræðsla um kynbundið ofbeldi á vegum hins opinbera í Póllandi og því eru þessar rokkbúðir sérlega mikilvægar. Við bjóðum vinum okkar og velunnurum að styðja við söfnunina og fá í staðinn glænýjan afmælisvarning frá Stelpur rokka!, tösku og bol.
Hverju viljið þið koma til leiðar með Rokkbúðunum?
Langtímamarkmiðið okkar er að leiðrétta kynjahalla í íslensku tónlistarlífi. Við viljum verða leiðandi í jafnréttismiðuðu tómstundastarfi og mennta þátttakendur bæði um félagslegt réttlæti og tónlistarsköpun. Við erum líka hluti af alþjóðlegri hreyfingu og viljum leggja okkar af mörkum til að styðja við samstarfskonur okkar víða um heim. Það eru yfir 80 rokkbúðir starfandi út um allan heim og stór hluti af okkar starfi er að efla og styrkja þessa alheimshreyfingu. Áfram rokkbúðir út um allan heim!
Verkefnið er að finna hér