Sigurður Mar Halldórsson ljósmyndari hefur lengi notað myndavélina sem tæki til að skrásetja atburði og segja sögur væntanlegt er smásagnasafn eftir hann sem nefnist einfaldlega Sögur. Bókin er óvenjuleg að því leyti að í henni eru engin orð heldur aðeins ljósmyndir. Myndir sem gefa vísbendingar um aðstæður, atburði eða augnablik og skilja eftir spurningar sem lesandinn verður að leita svara við hjá sjálfum sér og spinna upp sínar eigin sögur. Kjarninn hitti Sigurð og tók hann tali.
Hver er þín baksaga?
„Ég er fæddur og uppalinn á Miðhúsum á Egilsstöðum. Ég ætlaði upphaflega að verða smiður eins og aðrir í fjölskyldunni en langaði samt í Myndlista- og handíðaskólann. Þorði hinsvegar ekki í inntökupróf því mér fannst ég svo lélegur að teikna. Ég var því ekki stór þegar ég tók mér myndavél í hönd og lærði að framkalla filmur og stækka svarthvítar myndir. Eftir stúdentspróf fékk ég tækifæri sem ljósmyndari á Þjóðviljanum sáluga og fór síðan til náms í ljósmyndun í Gautaborg. Þegar ég kom til baka eftir nám þá fluttist ég til Egilsstaða og starfaði jöfnum höndum við smíðar og ljósmyndun. Síðustu 16 ár hef ég búið á Höfn í Hornafirði og kenni m.a. ljósmyndun við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu og í fjarkennslu við Menntaskólann á Tröllaskaga. Ég er félagi í FÍSL, Félagi íslenskra samtímaljósmyndara og hef tekið þátt í tveimur samsýningum félagsins en einnig haldið nokkrar einkasýningar.“
Hvers konar verk er ‘Sögur’?
„Þetta er ekki venjuleg ljósmyndabók sem maður flettir og dáist af fallegum myndum. Meira eins og smásagnasafn nema það eru engin orð bara myndir. Myndirnar gefa vísbendingar um atburði eða augnablik sem lesandinn getur notað til að skálda upp sínar eigin sögur eða í það minnsta velta fyrir sér hvað gæti hugsanlega verið að gerast á myndunum. Myndirnar eru mjög ólíkar enda segja þær mjög ólíkar sögur. Allar sögurnar fjalla um konur enda hefur verið nægt framboð af sögum af körlum í gegn um tíðina en sögur af íslenskum alþýðukonum eru mun sjaldnar sagðar.“
Hver er sagan á bakvið verkið?
„Það er eiginlega áhugi minn á þjóðsögum, ævintýrum og goðsögum sem er kveikjan að þessu öllu saman. Mig langaði að vinna með þennan sagnaarf. Ég hef lengst af sýslað við að skrásetja samtímann með myndavélinni, taka fréttamyndir eða dokúmentera einhverja atburði. Þá er maður að segja frá með myndavélinni og myndirnar eiga að geta staðið einar og óstuddar og gefið skýra mynd af atburðinum.
Í bókinni sný ég þessu eiginlega við og myndirnar eru augnablik í atburðarás sem enginn veit hver er þannig að myndin segir alls ekki alla söguna. En auðvitað er ég með einhverja sögu eða aðstæður í huga. Stundum eru það þjóðsagnapersónur eða goðsagnaverur sem eru kveikjan að myndunum en einnig ákveðnir staðir sem mér fannst kalla á einhverjar aðstæður. Á marga þessara staða kom ég oft með hundinn minn og meðan hann hljóp og hnusaði, tók ég myndir á símann og pældi í hvað hefði kannski gerst á þessum stað. Svo voru ákveðnir hlutir sem mig langaði að hafa með á mynd eins og fjóslukt sem afi minn í Loðmundarfirði átti og myndin spannst í kring um hana.
Við mannfólkið höfum alltaf skemmt okkur með því að segja sögur og þær hafa gengið mann fram af manni og orðið að þjóðsögum. Í seinni tíð eru fáir að lesa þjóðsögur eða ævintýri og við fáum okkar skammt með því að horfa á Game of Thrones eða álíka þætti sem er frábært. Gallinn er hinsvegar sá að þar er verið að mata okkur á sögum og ég held að við séum að missa smám saman hæfileikann til að láta hugmyndaflugið blása okkur í brjóst nýjar og skemmtilegar sögur. Ég fór þá leið í bókinni að búa til myndir sem eru eins og augnablik í einhverri sögu sem enginn veit hver er. Mig langaði að skapa myndir sem hefðu þann eiginleika að áhorfandinn færi að spekúlera í hvað væri eiginlega að gerast.
Nú stendur yfir söfnun á hópfjármögnunarvefnum Karolina Fund þar sem unnendur sagnalistar og ljósmyndunar geta eignast skemmtilega og öðruvísi bók og stuðlað að því að fjármagna prentun hennar. Þar sem bókin byggist á myndum en ekki orðum getur hún gagnast hverjum sem er, óháð móðurmáli eða lestrarkunnáttu.“
Verkefnið er að finna hér.