Gauti Þeyr Másson, betur þekktur sem Emmsjé Gauti, er nýbúinn að senda frá sér þriðju plötu sína sem ber heitið Vagg & Velta. Platan er komin út á geisladisk og í stafrænu formi en Gauti hyggst einnig gefa plötuna út á vínyl. Vegna þess hversu hár framleiðslukostnaðurinn er við framleiðslu á vínyl þá hefur Gauti ákveðið að fara hópfjármögnunarleiðina og safna fyrir framleiðslunni áður en hún hefst. Það gengur vel og er Gauti þegar búinn að safna meira en 1.700 evrum upp í framleiðsluna. Kjarninn tók Gauta tali.
Hver er baksaga þín í tónlist?
„Úff, baksaga mín í tónlist er mjög löng. Í stuttu máli þá átti pabbi hljóðver og ég heyrði rapptónlist fyrst fyrir alvöru þegar pabbi var að taka upp rappplötu þar. Ég fór fljótlega eftir það að semja mína eigin texta og rappa þá í laumi. Þegar Rottweiler-æðið tók yfir landann um aldamótin þá fór ég að semja á íslensku og tók fljótlega þátt í rappkeppni sem heitir Rímnaflæði og er enn þann dag í dag haldin árlega. Ég hef aldrei hætt að gera rappmúsík og gaf út fyrstu solo-plötuna mína árið 2011 eftir mikið af samstarfs- og tilraunaverkefnum með öðru fólki fram að þeirri breiðskífu.“
Hvað er á döfinni hjá þér þessa dagana?
„Aðal verkefnið núna er að fylgja plötunni minni Vagg & Veltu almennilega eftir. Útgáfutónleikarnir gengu frábærlega og platan er að fá mjög góðar viðtökur. Nú er stefnan tekin á að spila um allt land, gefa út singla af plötunni og gefa hlustendum high five inná milli. Ég er strax byrjaður að semja fyrir næstu plötu en á þó örugglega eftir að taka mér tíma í að móta soundið sem mun einkenna hana.“
Hvernig tónlist er að finna á plötunni Vagg & velta?
„Það væri auðvitað auðveldast að flokka Vagg & Veltu sem rappmúsík. En hún fer í margar áttir og þú getur heyrt allt frá 808 trommum í strengjakvartett. Vagg & Velta er fyrst og fremst feel good rappmúsík sem ég hafði gaman af því að skapa og ég vona innilega að fólk hafi líka gaman af því að hlusta á hana.“