Ísland í geimvísindastofnun: Klikkuð hugmynd eða snilldarútspil?

Þátttaka Íslands í Geimvísindastofnun Evrópu er ekki bara raunsær möguleiki heldur einnig spennandi tækifæri.

ESA - Geimvísindastofnun Evrópu
Auglýsing

Eflaust ráku einhverjir upp stór augu þegar fréttir bárust af þingsályktunartillögu þess efnis að Ísland skyldi sækja um aðild að Geimvísindastofnun Evrópu (ESA). Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en  auk hans standa að baki henni þingmenn úr öllum flokkum: Ásta Guðrún Helgadóttir og Birgitta Jónsdóttir úr Píratötum; Katrín Jak­obs­dótt­ir og Svandís Svavarsdóttir frá VG; Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson og Róbert Marshall úr Bjartri Framtíð; Helgi Hjörvar og Katrín Júlíusdóttir úr Samfylkingu; Vilhjálmur Árnason úr Sjálfstæðisflokknum og Líneik Anna Sævarsdóttir úr Framsóknarflokknum.

Er þetta klikkuð hugmynd? Þegar orðin Ísland og geimvísindi birtast í sömu setningu kemur ef til vill upp í hugann útrásarævintýri Íslands í geimferðabransann með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur. En lesi fólk greinargerð tillögunnar kemur í ljós að lokamarkmiðið er ekki að taka víkingaklappið í alþjóðlegu geimstöðinni heldur er tilgangurinn einstaklega jarðbundinn: Að stuðla að fjölbreyttari atvinnumöguleikum heima fyrir og efla vísindasamstarf við aðrar þjóðir.

Að undanförnu hefur nokkuð verið rætt um spekileka frá Íslandi. Brottfluttir Íslendingar eru að stórum hluta háskólamenntað fólk í leit að fjölbreyttari atvinnutækifærum erlendis. Aðfluttir sinna fremur störfum sem krefjast síður háskólamenntunar, svo sem í ferðamennsku, með fullri virðingu fyrir þeim mikilvægu störfum. Greiningaraðilar hafa bent á að lífskjarasókn á Íslandi sé háð því að verðmætasköpun byggð á hugviti aukist, þar sem menntað vinnuafl er nýtt til hins ítrasta. Hvers kyns mótvægi við atvinnuvegi byggða á nýtingu náttúruauðlinda hefur oft verið kallað „eitthvað annað”. Þátttaka Íslands í iðnaði tengdum geimvísindum er dæmi um eitthvað allt, allt annað.

Auglýsing

Öll Norðurlöndin með — nema Ísland

ESA var stofnað árið 1975 með það að leiðarljósi að vera samstarfsvettvangur Evrópuríkja í geimrannsóknum. Aðildarríki þess eru nú 22 talsins og skiptir engu máli hvort þjóð er aðili að Evrópusambandinu eða ekki. Öll Norðurlöndin að Íslandi frátöldu eru aðilar að ESA og sjá mikla hagsmuni fólgna í þátttöku sinni. Það er ekki síður áhugavert að smáþjóðir á borð við Kýpur og Möltu eru í umsóknarferli. Hvers vegna eru smáþjóðir með takmarkaða innviði fyrir geimiðnað að sækjast eftir aðild?

Svarið má að mestu rekja til reglugerðar stofnunarinnar sem segir að ESA þurfi að fjárfesta í aðildarþjóðum í hlutfalli við fjárframlag þeirra. Þar stendur skýrum stöfum að eigi minna en 96% af framlagi hverrar aðildarþjóðar renni til baka í formi verkefna. Smærri ríki fá iðulega ríflega sinn skerf af sinni fjárfestingu, þ.e. meira en 100% af framlagi sínu. Með aðild gætu íslenskir háskólar, hugbúnaðar- og hátæknifyrirtæki gerst verktakar fyrir ESA og staðið til boða verkefni sem Ísland gæti aldrei ráðist í upp á sitt einsdæmi.

Verkefni ESA.

Rannsóknir og vöktun á umhverfi Íslands

Þó svo ESA beri heitið geimvísindastofnun snýst starfsemi hennar ekki síður um rannsóknir á jörðinni, auk þess sem hún gegnir mikilvægu hlutverki í fjarskiptum og staðsetningartækni. Mest fjármagn rennur í rannsóknir á jörðinni eða um 20-30% en aðeins 10-15% í geimvísindi. Aðildarlöndum er skylt að standa undir þriðjungi af grunnstarfsemi ESA en er síðan frjálst að velja um þátttöku í öðrum verkefnum.

Ætla má að Ísland einblíni á þátttöku í rannsóknum tengdum jörðinni þar sem við eigum mikilla hagsmuna að gæta bæði á sjó og á landi. Gervitungl ESA eru leiðandi rannsóknartæki fyrir hlýnun sjávar, þróun jökla, jarðhræringar, útbreiðslu hafíss og bráðnun íshellunnar í Norður-Íshafi.

Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og málefni norðurslóða eru að verða mikilvægur þáttur í utanríkisstefnu Íslands. Besta leiðin til að gera Ísland að trúverðugum þátttakanda í þessum málaflokkum er að virkja vísindarannsóknir og alþjóðlegt samstarf.

Framlag Íslands skilar sér til baka á formi verkefna

Hvað kostar að vera með? Fjárframlög aðildarríkja eru háð þjóðarframleiðslu og umfangi þátttöku þeirra í valfrjálsum verkefnum. Sé framlag núverandi aðildarríkja ESA skoðað sem hlutfall af þjóðarframleiðslu fæst hugmynd um mögulegt framlag Íslands. Eistland er dæmi um nýtt aðildarríki og fara framlög þeirra öll í valfrjáls verkefni. Sé Eistland notað sem viðmiðunarland yrði árlegt framlag Íslands um 83 milljónir króna. Ef miðað er við Danmörku yrðu heildarframlög Íslands um 220 milljónir á ári. Þessar upphæðir miðast við Ísland sem fullgilt aðildarríki en búast má við að framlög Íslands yrðu mun lægri fyrst um sinn.


Það er augljóst að ekki er um himinháar upphæðir að ræða. Til að mynda er hinn sígildi samanburður við Icesave, Hörpu og Hvalfjarðargöng algjörlega fráleitur. Upphæðin er er af sömu stærðargráðu og árlegur rekstur Íslenska dansflokksins eða Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi, Landmælinga Íslands, Húsafriðunarsjóðs, Embætti sýslumanns Vestfjarða eða árlegt framlag Íslands til NATO.

Hver einasta króna sem Ísland legði til í ESA myndi skila sér til baka til atvinnulífsins í formi úthlutaðra verkefna. Þá eru ekki meðtalin þau óbeinu áhrif á hagkerfið sem tengd nýsköpunarstarfsemi hefði í för með sér. Í ítarlegum úttektum sem gerðar voru á þátttöku hinna Norðurlandanna í ESA var komist að þeirri niðurstöðu, að fyrir hverja milljón króna sem varið er í samstarf við ESA urðu til 4 til 5 milljónir í veltu fyrir þarlend fyrirtæki.

Að öllu ofantöldu er ljóst að þátttaka Íslands er ekki bara raunsær möguleiki heldur einnig spennandi tækifæri. Þess vegna ættu stjórnvöld að kanna málið af fullri alvöru. Innganga í ESA er liður í því að skapa rétta umgjörð fyrir nýsköpun og iðnað byggðan á hugviti. Og í leiðinni verður hægt að segja íslenskum skólabörnum í fyrsta skipti, „Krakkar, ÞIÐ getið orðið geimfarar“.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sjókvíaeldi hefur aukist hratt á síðustu árum
Sjókvíaeldi hefur 13-faldast á sex árum
Umfang laxeldis hefur margfaldast á síðustu árum og útlit er fyrir að það muni vaxa enn frekar í náinni framtíð. Gangi spár eftir mun sjókvíaeldi á laxi árið 2023 verða tæplega helmingi meira en það var samanlagt á árunum 2010-2018.
Kjarninn 7. maí 2021
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira úr sama flokkiFólk
None