Árið 2015 markaði mikilvæg tímamót þegar koltvísýringur í andrúmsloftinu náði í fyrsta sinn, síðan mælingar hófust, yfir 400 milljónustu hlutum (ppm) á heimsvísu. Allt útlit er fyrir það að staðan verði enn verri í ár og er búist við því að árið 2016 verið fyrsta árið sem fram úr því marki á heildina litið. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar.
Þrátt fyrir að losun koltvísýrings af mannavöldum hafi nokkurn veginn staðið í stað á milli áranna 2014 og 2015 varð El Niño veðurfyrirbærið til þess að magn þess í andrúmsloftinu hækkaði mikið. Þetta má rekja til þess að El Niño olli miklum þurrkum á hitabeltissvæðum sem gerði það að verkum að gróður átti erfiðara með að draga í sig koltvísýring. Í ofanálag olli þurrkurinn skógareldum sem gerðu stöðuna enn verri.
Það að koltvísýringur sé yfir 400ppm segir okkur að 400 sameindir koltvísýrings séu fyrir hverja milljón sameindir í andrúmsloftinu. Sérfræðingar telja að um fimm milljón ár séu síðan styrkur koltvísýrings var svo hár að staðaldri og að fyrir árið 1800 hafi hann verið um 280ppm.
Koltvísýringur er ekki eina gróðurhúsalofttegundin sem hefur aukist í andrúmsloftinu. Árið 2015 var styrkur metans til dæmis 2,5 sinnum hærri en fyrir iðnbyltingu og nituroxíðs 1,2 sinnum hærri.
Í byrjun nóvember munu um 200 þjóðir funda í Marokkó til að ræða næstu skref í kjölfar Parísarsáttmálans. Alþjóðaveðurfræðistofnunin leggur áherslu á að framkvæmd sáttmálans verði flýtt eins mikið og auðið er til að sporna gegn hlýnun jarðar og að áhersla verði lögð á takmörkun á koltvísýringi í andrúmsloftinu.