Það er gríðarlega mikilvægt fyrir Ísland að fá inn meira af beinni erlendri fjárfestingu inn til landsins. Það er lykillinn að því að viðskiptahugmyndir, tækni og verkkunnátta færist á milli landa og framleiðni aukist. Þegar kemur að samkeppnishæfni til að laða að slíka fjárfestingu situr Íslands hins vegar í tossabekk hinna vestrænu þjóða með dapra einkunn í flestu því sem skiptir máli.
Þetta segir Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann flutti erindi á opnum fundi sem fram fór í gær og bar yfirskriftina „Er eftirsóknarvert að fjárfesta á Íslandi?“. Að fundinum stóðu Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, PriceWaterhouse Coopers, Landsvirkjun og Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Erindi Gylfa fjallaði um hagfræðilegan ávinning erlendra fjárfestinga.
Sýnilegir veikleikar en sóknarfæri
Gylfi segir að bein erlend fjárfesting sé ein helsta skýringin sem til er á hagvexti. „Nánast sama á hvaða tíma eða staðar litið er til, þar skiptir hún máli. Hún er lykillinn að því að viðskiptahugmyndir, tækni og verkkunnátta færist á milli landa. Hún gerir löndum kleift að fást við það sem þau gera vel.“
Að hans mati eru sýnilegir veikleikar í þeim aðstæðum sem við bjóðum upp á til að laða að erlenda fjárfestingu á Íslandi. En veikleikanna má líka líta á sem sóknarfæri. „Við höfum auðvitað talsverða erlenda fjárfestingu hér en hún er að langmestu leyti í orkufrekum iðnaði. Það hafa svo verið jákvæð teikn á lofti varðandi fjárfestingu í líftækni, lyfjum og tengdum greinum. Þar hefur verið mikið um nýfjárfestingu og það hefur nær örugglega skilað verulegum ávinningi fyrir íslenskt efnahagslíf, þótt að mér vitanlega hafi ekki verið lagt mat á þær tölu. En .að vantar beina erlenda fjárfestingu á ýmsum öðrum sviðum. Það er búið að gera ýmislegt hérna á síðustu árum. Og það er klárlega verið að hugsa um þessi mál og bæta úr. Staðan lítur ekki skelfilega út. Samt finnst manni þetta ekki einn af styrkleikum íslenska hagkerfisins, að laða erlenda fjárfestingu að. Það sést einfaldlega með því að líta á hagtölur.“
Styrking krónunnar
Veikleikar Íslands til að laða að erlenda fjárfestingu eru nokkuð auðsýnilegir og hafa lengi verið þekktir. Fjármagnshöft hafa eðlilega gert það að verkum að fjárfestar hafa verið mjög tregir til að setja inn fé í íslenska lögsögu, sem þeir gátu ekki með vissu vitað hvenær þeir gætu nálgast á ný. Fordæmalausar aðgerðir íslenskra stjórnvalda með setningu neyðarlaganna, og síðar með því að festa eignir erlendra kröfuhafa innan fjármagnshafta, hafa víða notið mikils skilnings en hafa líka sýnt fram á skýran vilja til að breyta leikreglum eftir á. Það fer aldrei vel í fjárfesta. Þá er eftir gjaldmiðillinn, íslenska krónan, með sínar miklu sveiflur.
Gylfi segir að krónan fæli örugglega erlenda fjárfesta frá að einhverju marki, en það megi ekki ofmeta áhrifin. „Fyrir flest fyrirtæki sem eru með verulega starfsemi á Íslandi en gera upp í erlendri mynt þá býr krónan til áhættu. Sérstaklega þegar hún styrkist mjög mikið, líkt og hún hefur gert að undanförnu. Á sama tíma hafa miklar launahækkanir átt sér stað. Saman veikir það stöðu þessara fyrirtækja mjög og það er slæmt. En sum verja sig gegn þessari þróun að verulegu leyti. Álverin eru til dæmis með sína dýrustu samninga hér innanlands í dollurum og tekjur á móti í sömu mynt. Það er því annar innlendur kostnaður þeirra sem hækkað þegar krónan styrkist svona mikið.“
Vandamál fangans
Í alþjóðaumhverfinu er í gangi mikil keppni milli landa um að laða að eftirsóknarverða fjárfestingu. Sú samkeppni er að einhverju leyti regluvædd, til dæmis með evrópsku regluverki um banni við veitingu óhoflegra ríkisstyrkja til að fá fyrirtæki til landa. Ísland er undir því regluverki vegna aðildar landsins að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur slegið á fingur okkar oftar en einu sinni fyrir að gera ívilnunarsamninga við erlend fyrirtæki sem falið hafa í sér ríkisaðstoð umfram það sem EES-samningurinn heimilar.
Gylfi segir að Ísland neyðist einfaldlega til að taka þátt í þessum leik þar sem keppt er um erlendu fjárfestinguna. „Þetta er í sjálfu sér slæmt fyrirkomulag fyrir alla. Í leikjafræðinni er þetta kallað „vandamál fangans“ (e. Prisoners dilemma). Ef allir hinir eru að gera þetta þá verðum við að gera það líka. Best væri að allir væru með almennar reglur sem giltu jafnt fyrir alla. Svo væri hægt að vera með gagnsæjar sérreglur fyrir nýsköpunarfyrirtæki því það er réttlætanlegt að hið opinbera styðji við nýsköpun með skattfé og almennt hagstæðu viðskiptaumhverfi.“
Árið 2012 birti ráðgjafafyrirtækið McKinsey & Company skýrslu um Ísland og vaxtarmöguleika þess í framtíðinni. Á grundvelli hennar var búinn til Samráðsvettvangur um aukna hagsæld og tilgangurinn, í einföldu máli, var sá að fjölga eggjunum í íslensku efnahagskörfunni, auka framleiðni og bæta samkeppnishæfni Íslands til að takast á við framtíðaráskoranir í hratt breyttum heimi. Skýrslan, og vinna Samráðsvettvangsins, hefur ekki verið í forgrunni í efnahagsáherslum Íslands á undanförnum árum. Ástæðan er öllum sýnileg. Hin óvænti ofurvöxtur í ferðaþjónustu hefur gjörbreytt efnahagslegum aðstæðum hérlendis á örfáum árum og leitt af sér mikinn hagvöxt. Það hefur því ekki verið forgangsmál að örva hagvöxt. Vöxturinn í ferðaþjónustu hefur hins vegar líka keyrt upp gengi krónunnar sem drepur aðstæður fyrir aðra atvinnuvegi, til dæmis í tækni- og hugverkaiðnaði sem starfar alþjóðlega, til að vaxa.
Gylfi bendir þó á að það sé mun betra, og heilbrigðara, að vera með þrjár til fjórar stoðir undir hagkerfinu en eina eins og lengi var hér. „Einu sinni vorum við bara með tekjur af fiski. Það er þó betra að vera með nokkrar sveiflukenndar atvinnugreinar sem sveiflast vegna gjaldmiðilsins en eina. Nú erum við með ferðaþjónustu, orkubúskap, sjávarútveg og jafnvel fjórðu stoðina, ef við teljum allt hitt sem eina stoð.“
Engar töfralausnir
Það eru engar töfralausnir sem geta gert okkur meira aðlaðandi fyrir beina erlenda fjárfestingu, að mati Gylfa. „Við þurfum að vera með gott utanumhald og gagnsætt kerfi utan um þá styrki og þær ívilnanir sem við veitum. Þar er ekki hægt að teygja sig neitt ofboðslega langt, því þá reka menn sig á EES-reglur. Það sem þarf í raun helst að gera er að bæta íslenskt viðskiptaumhverfi, sem bætir það þá líka fyrir öll hin fyrirtækin sem starfa hér. Hlutir eins og þjóðhagslegur stöðugleiki og sérstaklega stöðugleiki gjaldmiðils, almennur stuðningur við rannsóknir og þróun og menntun, eru uppskriftir sem eru vel þekktar. Við erum hins vegar að fá frekar dapra einkunn fyrir flesta þessara þátta. Í mati World Economic Forum á samkeppnishæfni þjóða erum við eiginlega í tossabekknum á meðal vestrænna þjóða, sem er að vísu erfiðasta deildin að keppa í. En þar erum við frekar döpur í samanburði á margan máta. Það er ekki til nein töfralausn. Við þurfum bara að laga það sem þar er bent á að séu veikleikar.“