Týndu Stelpurnar er kvikmynd eftir Lovísu Láru Halldórsdóttur sem var tekin upp síðastliðið sumar. Aðalpersónur myndarinnar eru stúlkur á fjórtánda aldursári sem verða vitni að morði. Þegar þær vinkonur fara að skyggnast undir yfirborðið í kjölfar þess voveiflega atburðar verður þeim fljótt ljóst að ekki allt sem sýnist.
Lovísa Lára Halldórsdóttir hefur unnið að mörgum verkefnum, til að mynda gerði hún stuttmyndirnar Smástirni og Hrellir sem báðar hafa verið sýndar á kvikmyndahátíðum um heim allan og unnið til verðlauna. Lovísa er að sögn með mörg járn í eldinum, til dæmis er hún að skipuleggja fyrstu íslensku hryllingsmyndahátíðina, Frostbiter sem verður á Akranesi helgina 24. – 26. nóvember. Hún vinnur einnig að því að klára sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd; Týndu Stelpurnar. Kjarninn hitti Lovísu og tók hana tali.
Hver er söguþráður kvikmyndarinnar ‘Týndu stelpurnar’?
„Týndu stelpurnar fjallar um Láru og Telmu sem hafa verið bestu vinkonur síðan þær voru litlar. Þær koma af ólíkum heimilum og virðast vera algjörar andstæður en eiga það sameiginlegt að vilja sleppa frá örmum fjölskyldna sinna. Til að losna frá leiðinlegum hversdagsleikanum stytta stelpurnar sér stundir með því að njósna um nágranna sína og búa til sögur. Þegar stelpurnar verða vitni að morði fara þær í að rannsaka málið sjálfar. Þær vita þó ekki að sú ákvörðun mun ekki aðeins reyna á vináttu þeirra heldur einnig stefna lífi þeirra í hættu.
Týndu Stelpurnar er bíómynd sem fjallar um forvitni, æsku og vináttu. Myndin er tekin upp í þannig stíl að allt myndefni er tekið upp af persónunum í myndinni, og er því frábrugðin öllu sem hefur áður komið í íslenskt bíó. Myndin er spennu/drama en þó með mikinn húmor og hjarta.“
Að hvaða aldurshópi er kvikmyndin miðuð?
„Kvikmyndin Týndu stelpurnar er ekki miðuð að neinum sérstökum aldurshópi, þó myndin fjalli um tvær ungar stelpu er tekist á við mjög alvarleg málefni þannig að hún einskorast ekki bara við yngra fólk.“
Hvernig gengur fyrir unga listamenn að fjármagna íslenskar kvikmyndir í dag?
„Fyrir nýtt kvikmyndagerðafólk er frekar erfitt að fá fjármagn fyrir íslenskar kvikmyndir því þarf maður að hugsa svolítið út fyrir rammann, til dæmis með því að notast við hópfjármögnunarsíður á borð við Karolinafund.com. Á þeirri síðu er einmitt hægt að styrkja kvikmyndina Týndu Stelpurnar þar sem enn á eftir að fjármagna eftirvinnsluna á henni.“
Hægt er að styrkja kvikmyndina Týndu Stelpurnar hér.
Hægt er að nálgast upplýsingar um fyrstu íslensku hryllingsmyndahátíðina, Frostbiter, hér.