Andleg veikindi hafa lengi verið læknavísindunum mikil ráðgáta, raunar svo mikil að ekki er ýkja langt síðan þau fóru að flokkast til veikinda. Þrátt fyrir miklar framfarir stöndum við enn frammi fyrir því að þekkja lítið um orsakir andlegra veikinda en rannsóknir á viðfangsefninu skila okkur þó alltaf áfram um einhver skref þó mörgum gæti þótt þau lítil eða fá.
Nýlega birti rannsóknarhópur frá University of Basel í Sviss, grein þar sem tengls líkamlegra og andlegra kvilla eru skoðuð. Rannsóknin var birt í PLOS ONE í lok síðasta mánaðar.
Í rannsókninni voru tæplega 6500 bandarísk ungmenni á aldrinum 13-18 ára skoðuð með tilliti til andlegra og líkamlegra veikinda. Í ljós kom að marktæk tengsl eru til staðar milli þunglyndis og sjúkdóma í meltingarfærum, kvíðaröskunar og húðsjúkdóma eða hjartasjúkdóma auk þess að tengsl fundust milli átröskunar og flogaveiki. Við þetta er svo að bæta að hjartasjúkdómar sýndu tengsl við nánast alla andlega kvilla sem voru skoðaðir í rannsókninni.
Þessar niðurstöður sýna enn og aftur að andlega heilsa er beintengd við líkamlega heilsu. Ekki skal tekin afstaða til þess hér hvort andlegu veikindi eru orsök eða afleiðing þeirra líkamlegu. Þó er ljóst að til að með upplýsingum sem þessum opnast möguleikinn á að skilgreina betur þá líffræðilegu þætti sem liggja að baki andlegum kvillum.
Þó ekki sé hægt að spá fullkomlega fyrir um andlega kvilla með því að horfa á líkamlega heilsu ber að hafa í huga að margs konar misbrestir í líkamanum geta haft sömu birtingamynd, eins og t.d. þunglyndi eða kvíða. Það er því mikilvægt að setja ekki öll andleg veikindi undir sama hatt heldur skoða hvert tilfelli útfrá eigin forsendum.